VI. Náttúrleg lækning og varnir
Hér lýkur þessum greinaflokki um krabbameinið, en efni hans er í stuttu máli þetta:
– Í fyrstu greininni (1. hefti 1949) var sýnt fram á það, með töflum úr ýmsum opinberum skýrslum, að krabbameinið er menningarsjúkdómur, þekkist varla eða ekki meðal frumstæðra þjóða, meðan þær halda frumstæðum lífsvenjum, en fylgir dyggilega í kjölfar menningarinnar og eykst jafnt og þétt með vaxandi menningarháttum.
– Í annarri greininni var sýnt, að krabbameinið stendur í nánu sambandi við mataræði manna og aðra lifnaðarhætti, sýnd skipting þess eftir stéttum, samband þess við ofát, rætt um ættgengi og smitun og loks skýrt frá merkilegum dýratilraunum, sem kalla má lykilinn að gátu krabbameinsins.
– Þriðja greinin fjallaði um ýmsar þekktar og viðurkenndar orsakir krabbameins, bæði innvortis og útvortis, aðallega ýmis utanaðkomandi eiturefni, ennfremur heita drykki o.fl.
–Fjórða greinin rakti þátt eiturefna í matvælum og eiturmyndunar innan líkamans (aðallega í ristli út frá tregum hægðum) í orsök krabbameins, ræddi um krabbamein í maga og í brjósti og loks um veiklun líkamans sem nauðsynlegan undanfara krabbameinsins.
–Í fimmtu greininni (1. hefti 1950) var rætt um þátt næringarinnar og árangur venjulegra lækningaaðferða.
–Og loks fjallar þessi síðasta grein um náttúrlegar lækningaaðferðir og varnir gegn þessum hættulega sjúkdómi.
Eins og tekið var fram í upphafi, er meginefni þessa greinaflokks tekið eftir erlendum heimildarmönnum, sem margir eru heimskunnir læknar og sérfræðingar á sviði krabbameins. Hefir verið reynt að draga saman í stuttu máli kjarnann úr kenningum þeirra, þótt tilvitnanir séu færri en skyldi rúmsins vegna.
Læknar hér eru sagnafáir um orsakir krabbameins, telja þær óþekktar að mestu, geta engin ráð látið í té til að verjast því og tala um það sem hinn dularfyllsta allra sjúkdóma. Þetta er þeim mun merkilegra, sem ýmsir kunnir menn úr hópi lækna, sumir heimsfrægir vísindamenn, hafa haldið fram allt öðrum skoðunum og fært fyrir þeim gild rök. Og vonandi hafa þessar greinar opnað augu margra lesenda fyrir því, að eina vörnin gegn krabbameini er ekki sú, að leita til læknis, þegar krabbameinsins verður vart, heldur hin að haga líferni sínu þannig, að það fái aldrei jarðveg í líkamanum. Margir halda, að það sé ákaflega flókið mál og vandasamt að lifa slíku lífi. En það er mesti misskilningur. Slíkir lifnaðarhættir eru þvert á móti miklu einfaldari og auðveldari en hinir venjulegu. En hitt er annað mál, að það kostar oft talsverða áreynslu og fyrirhöfn að breyta til, stundum allmikla sjálfsafneitun fyrst í stað, og oft og einatt óvinsældir eða áreitni af hendi náungans. Verður hver og einn að meta það við sjálfan sig, hvað hann vill á sig leggja til þess að viðhalda heilsu sinni, forðast vanheilsu og sjúkdóma og lifa farsællega til hárrar elli. “Hið bezta er aldrei of gott”. Og þótt margt standi til bóta í þessum greinum og í þessum kenningum yfirhöfuð, þá benda þær þó í áttina að því marki, sem telja má eitt mesta hnoss lífsins, en það er fullkomin heilbrigði.
Náttúrlegar lækningaaðferðir
Í ljósi þeirra skýringa á eðli og orsök krabbameins, sem raktar hafa verið í þessum greinaflokki, er það næsta auðskilið mál, að möguleikar séu til að geta læknað þennan sjúkdóm með mataræði eða sérstökum lífernisreglum. Krabbamein er eitrunar- og vaneldissjúkdómur í senn. Og náttúrleg lækningaaðferð er í því fólgin að hreinsa og styrkja líkamann: með föstum, heilnæmu mataræði, heilnæmum lifnaðarháttum í hvívetna, útrýmingu allra eiturefna úr viðurværinu og daglegu líferni. En þar sem krabbameinið er, eins og áður hefir verið sagt, lokastigið í langvarandi hrörnun líkamans, er það torlæknanlegra en flestir aðrir sjúkdómar, og því eru jafnvel þessar aðferðir oft árangurslausar.
Hér fara á eftir ummæli nokkurra erlendra lækna um gildi náttúrlegra lækningaaðferða.
Dr. Bell, varaforseti Alþjóðafélags krabbameinsrannsókna, segir: “Það er hægt að koma í veg fyrir krabbamein. En það er líka hægt að lækna það, þegar það er á byrjunarstigi, og jafnvel þótt það sé komið á allhátt stig. Við lækninguna má nota bæði mataræði og lyf, og er það miklu öruggara en hnífurinn. Eg hefi séð dæmi þess, að krabbamein hafa læknazt, þótt þau væru komin á svo hátt stig, að ekki var hægt að skera þau burt. …. Síðan árið 1894 hefir mikill fjöldi krabbameinssjúklinga með krabbamein af ýmsu tagi verið undir minni umsjá. Margir þeirra voru sendir burt af sjúkrahúsi, vegna þess að ekki var hægt að skera þá upp. Með breyttu mataræði var stundum hægt að stöðva sjúkdóminn og jafnvel að lækna hann. Eg verð dag frá degi æ sannfærðari um það, að breytingar á mataræði hafa meiri lækningamátt en venjuleg læknisráð, ekki aðeins við krabbameini, heldur og við mörgum öðrum sjúkdómum”.
Dr. med. E. Stribning: “Beztur árangur (við krabbameini) næst með því að reyna að styrkja sjúklinginn, svo sem með góðri húðræstingu, burstun og nuddi, heitum böðum, loft- og sólböðum og með því að sjá um, að hægðir séu reglulegar”.
Dr. med. Fr. Wolf: “Það er hægt að lækna krabbamein. Verndaðu þig gegn krabbameini með því að lifa og borða náttúrlega. Það er eina skynsamlega leiðin til að berjast gegn krabbameini og lækna það. Menn verða að taka upp jurtafæði, bæta starfsemi þarmanna og efnaskiptin með því að borða mikið hrámeti, brauð úr ósigtuðu mjöli, með leikfimi og hreyfingu. Eg er sannfærður um, að eftir fá ár muni kennsla í læknisfræði ganga út á það að lækna krabbamein með náttúrlegum aðferðum, mataræði, ljósi, lofti og sól”.
Are Waerland segir: “Mér hefir tekizt að lækna krabbamein í brjósti, jafnvel hin erfiðustu tilfelli, þar sem skjótur uppskurður var talin eina vonin, einungis með því að láta sjúklinginn borða hráa mjólkur- og jurtafæðu.”
Tveir þekktir, þýzkir krabbameinsfræðingar, próf. dr. med. Alfred Neumann og dr. med. Emil Schlegel, ráðleggja mataræði, föstur og lagfæringu á hægðum til lækningar á krabbameini. Þekktur læknir, Anderschou að nafni, hefir lengi stundað lækningar í London, gefið sig sérstaklega að krabbameini og beitt við það náttúrlegum aðferðum (mataræði, föstum o.s.frv.) með góðum árangri.
Þá er reynsla dr. Nolfi þung á metunum. Hún læknaði sig af brjóstakrabba með hráfæði. Smásjárrannsókn eftir prufuskurð sýndi, að um krabbamein var að ræða. Frá þessari lækningu og fleiri slíkum hefir þegar verið sagt í Heilsuvernd, og fleiri dæmi munu væntanlega tilfærð síðar. En það, sem hér hefir sagt verið, verður að nægja í þetta sinn til stuðnings þeirri skoðun, að hægt sé að lækna krabbamein með náttúrlegum aðferðum, ekki síður en hinum venjulegu. En það verða menn að muna, að lækning þessa sjúkdóms er alltaf vafasöm, og því verða allir að leggja megináherzluna á að verjast þessum vágesti.
Varnir gegn krabbameini
Um þær ætti ekki að þurfa að orðlengja fyrir þá, sem fylgzt hafa með þessum greinaflokki. Ekki er heldur ástæða hér, umfram það, sem þegar hefir komið fram, til að tilfæra ummæli erlendra fræðimanna um þetta atriði. En geta má þess sem dæmi, að þekktur þýzkur læknir og rithöfundur, dr. Erwin Liek, hefir sett fram tíu heilbrigðisreglur, sem hann telur örugga vörn gegn krabbameini, og aðrir læknar, svo sem próf. Neumann, vitna í þessar reglur og mæla með þeim í sama skyni. Þeim svipar í aðalatriðum til líferniskerfis Waerlands.
Varnir gegn krabbameini — og þar á ég ekki við þær “varnir”, sem læknar hér fjölyrða mest um, að skera krabbameinið burtu eða eyða því með hættulegum geislum, eftir að það hefir náð að myndazt, heldur hitt að koma í veg fyrir, að það verði til — hljóta að vera fólgnar í því að útrýma orsökum þess, enda á það við um alla sjúkdóma. En nú hafa verið leidd sterk rök að því í þessum greinaflokki, að krabbamein eigi sér tvær aðalorsakir: 1) Langvarandi verkun eiturefna á líkamann. 2) Langvarandi vöntun nauðsynlegra næringarefna og ofneyzlu annarra, í tveimur orðum sagt: ranga næringu, sem veldur minnkuðu mótstöðuafli og veiklun alls líkamans, hinum margvíslegustu sjúkdómum og skemmdum, sem eru nauðsynlegur jarðvegur fyrir krabbameinið.
Af þessu leiðir, að varnir gegn krabbameini eru fólgnar í þessu tvennu:
1. Að forðast hverskonar eiturefni: nautnalyf, læknislyf, eiturmenguð matvæli, atvinnueitranir o.s.frv.
2. Að næra líkamann rétt, það er að segja á náttúrlegri, lifandi fæðu, að svo miklu leyti sem þess er kostur, og styrkja hann og herða með hreyfingu, útivist, böðum o.s.frv.
Í þessum varúðar- og heilbrigðisráðstöfunum er ekki hægt að ganga of langt eða vera of strangur, vegna þess að þær stefna allar í þá átt að efla heilbrigðina. Ef tala á um öfgar í þeim efnum, þá eru það “jákvæðar öfgar”, eins og einn þekktur læknir í Reykjavík komst að orði um þetta fyrir stuttu. Þær eru “jákvæðar” í þeim skilningi, að þær stefna að því að styrkja líkamann og geta aldrei gert tjón, ef rétt er að farið. Og “öfgar” er þetta einungis kallað vegna þess, að það er “óvenjulegt”. Þeir sem vilja efla heilbrigði sína og sinna, án þess að ganga langt út í þessar “öfgar”, geta vissulega náð sæmilegum árangri, öðlast góða heilsu og lifað lengi og vel. En þegar hætta er á eða vissa fyrir, að krabbamein eða aðrir hættulegir sjúkdómar séu á næsta leiti, duga engin vettlingatök.
Í upphafi þessa greinaflokks var sýnt, hvernig krabbamein hefir aukizt samfara vaxandi menningu og menningarháttum. Enga skýringu hefir verið hægt að fá fyrir þessari aukningu aðra en breytingu lifnaðarháttanna, aðallega mataræðisins.
Og ein bezta sönnunin fyrir því, að þessi skýring sé rétt, er sú, að þær þjóðir, sem varðveita enn sína fornu hætti, eru enn sem fyrr lausar við krabbamein og aðra “menningarsjúkdóma”. Ótvíræðasta dæmi þess er Húnzaþjóðin, sem varðveitir enn fornar matarvenjur og nýtur svo að segja fullkomins sjúkdómaleysis.
Nú er það svo, að þeir læknar, vísindamenn og heilbrigðisfrömuðir, er náttúrulækningastefnan styðst við, eru í öllum meginatriðum sammála um það, að fæði líkt því, sem Húnzabúar lifa á, sé vænlegast til eflingar náttúrlegri heilbrigði og útrýmingar sjúkdómum, þar á meðal krabbameini, eins og ýmsar tilvitnanir á þessum greinaflokki sýna. Skoðanir og reynsla allra þessara manna er því í samræmi við þann bezta dómara, sem við getum kosið okkur: úrskurð aldalangrar reynslu heilla þjóða, úrskurð náttúrunnar sjálfrar.
Mönnunum skjátlast oft og einatt. En náttúrunni skjátlast aldrei. Treystum henni ávallt. Þá byggjum við á bjargi, og þá mun okkur vel farnast.
Björn L. Jónsson
Heilsuvernd 2. tbl. 1950, bls. 52-57