Það að upplifa góða heislu alla ævi er ekki auðvelt nú á tímum velmegunar, þæginda og mikillar neyslu. Það er miklu þægilegra að sitja heima í Lay-Z-Boy, með snakk í skál og horfa á Netflix en að fara út í göngutúr í roki eða rigningu (sem er oft á Íslandi).
Vandamálið með þennan nútímaþægindalífsstil er að það verður sífellt erfiðara að hafa sig af stað upp úr stólnum því lengur sem maður frestar göngutúrnum. Með hverjum deginum, mánuðnum og árinu sem líður án þess að við komum okkur í reglulega hreyfingu og heilsusamlegan lífsstíl mun þyngdin, blóðþrýstingur og blóðsykur hækka, liðverkir taka sig upp og það verða auknar líkur á þunglyndi og kvíða.
Það er mikilvægt að klippa á þennan vítahring og gera daginn í dag að deginum sem þú fórst að sinna heilsu þinni. Því ef þú gefur þér ekki tíma til að huga að heilsu þinni í dag þá eru mjög miklar líkur á að heilsan muni ekki hafa tíma fyrir á næstu dögum.
Það sem gerir heilsueflingu flókna er að heilsan okkar byggist á fjórum þáttum
- Næringu
- Hreyfingu
- Svefn
- Sálarlífi
Allir þessir fjórir þættir heilsunnar eru nátengdir og það þarf að horfa á alla þættina í samhengi til að geta stuðlað að góðri heilsu alla ævi. Það er t.d. mjög erfitt að breyta mataræðinu til hollari vegar og fara að hreyfa sig reglulega ef svefninn er lélegur. Eftir svefnlitlar nætur sækjum við meira í sætindi, kaffi/orkudrykki og skyndibita, og hreyfingin sem var skipulögð eftir vinnu fellur niður því sófinn heima er meira heillandi.
Það sem gerir heilsuvegferðina líka erfiða er að við lifum á tímum mikilla öfga tengt heilsu og heilsuleysi okkar. Það er fáránlega mikið framboð af skyndibita, sætindum, orkudrykkjum, kexi, kökum og gervimat en á sama tíma er líka offramboð á megrunarkúrum sem eiga að „bjarga“ okkur frá óheilbrigða lífsstílnum. En málið með öfgana að þeir vara stutt því það eru gerðar of miklar breytingar á stuttum tíma sem fæstir geta haldið út. Strangir megrunarkúrar, svelti, langar föstur, of stífar æfingar eru beinlínis bara ofbeldi gegn líkamanum og á ekkert skylt við heilbrigðan lífsstíl, sem getur enst út ævina.
Öfganir sjást líka mikið á samfélagsmiðlum hjá sjálfsskipuðum heilsugúruum og afreksíþróttafólki. Þetta er slæmar fyrirmyndir fyrir almenning því afreksíþróttafólk getur þurft að fara öfgakenndir leiðir í mataræði og hreyfingu til að ná árangri í sínu sporti.
Svo eru heilsugúrúarnir á samfélagsmiðlum sem eru að auglýsa heilsusamlegan lífsstíl með extra hollu mataræði, brjálæðislegri hreyfingu, köldum böðum og bætiefnaneysla en of margir af þessum „gúrúum“ eru að nota óheilbrigðar aðferðir til efla útlitið eins og t.d. stera, ólögleg efni, lýtaaðgerðir og photoshop sem aldrei kemur fyrir sjónir almennings. Og greyi almenningur sem hangir á samfélagsmiðlunum pínir sig í þessu mataræði eða öfgahreyfingunni en nær auðvitað ekki að halda það út og vita ekki að fyrirmyndir þeirra notuðu m.a. óheilbrigðar leiðir til að ná útliti sínu og árangri.
Dæmi um öfga tengt hollustu og óhollustu í nútíma líferni:
- Borða sætindi og snakk flest kvöld fyrir framan sjónvarpið
- Fara reglulega á stranga kúra
- Að hanga meira fyrir framan skjái s.s. síma og sjónvarp en í virkum lífsstíl
- Trúa meira á mátt bætiefna en alvöru matvæla til heilbrigðis
- Að vera á kúr sem bannar alvöru matvörur eins og t.d.alla ávexti, kartöfur eða grófkorna brauð
- Að halda að orkudrykkir séu hluti af heilbrigðum lífsstíl
- Að ferðast bara um á bíl eða rafmagnshlaupahjóli en nota aldrei fæturnar sem við fæddumst með til að hreyfa okkar milli staða
- Að kaupa allar dýrustu græjurnar til að stunda hreyfingu (en gefa sér ekki tíma í að nota þær).
- Borða bara eina máltíð á dag
- Að versla mikið magn nammis í Nammilöndum stórmarkaða
- Að vera ekki í virkum lífsstíl með börnum sínum
- Að borða aldrei morgunmat
- Að borða skyndibita oft í viku
- Að drekka mikið af gosdrykkjum bæði sætuefna- og sykurgosdrykkjum
Hvers vegna tekst okkur svona illa að halda okkur á hinum gullna meðalvegi þegar kemur að heilsu okkar? Af hverju erum við sífellt að flakka á milli kúra og óhollustunnar? Líklega af því að það er auðveldara að selja okkur öfgafullu kúra (mikill árangur á stuttum tíma, en sjaldnast langtímaárangur) og óholli lífsstílinn er líka fáránlega auðveldur, aðgengilegur, ódýr og fjótlegur.
Nýlega gaf undirritaður út bók sem er leiðirvísir fyrir hinn almenna borgara til að stuðla að góðri heilsu alla ævi án öfga. Í bókinni er farið yfir leiðir hvernig til að bera ábyrgð á sinni heilsu með því huga að huga að öllum þáttum heilsunnar næringu, hreyfingu, svefn og sálarlífi.
Bókin inniheldur einnig gómsætar og hollar uppskriftir frá Halldóri matreiðslumeistara á Heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði.
Það er ósk mín að þessi bók hjálpi landsmönnum að ná að halda sig á heilsubrautinni í þessum brjálaða neyslusamfélagi sem við lifum í.
Hér má nálgast bókina á útgáfutilboði.
Geir Gunnar Markússon
Næringarfræðingur