Hafa vestrænar þjóðir eða hin almenna háskólalæknisfræði fyrir þeirra hönd gert sér grein fyrir þeirri sannreynd, að þær eru á hrapandi hrörnunarskeiði vaxandi kvillasemi og úrkynjunar, þrátt fyrir öll læknavísindi og framfarir á öllum sviðum læknisfræðinnar?
Að vísu hefir læknisfræðinni tekizt að ráða nokkra bót á næmum sjúkdómum með auknum þrifnaðar- og sóttvarnarráðstöfunum. En hrörnunarkvillarnir hafa vaxið örar en sem því nemur, og þeir eru ólæknandi með þeim aðferðum, sem hin almenna læknisfræði beitir. T.d. er ekki hægt að lækna sykursýki með insúlíni. Það heldur henni í skefjum um hríð og bætir líðan sjúklinganna. En lækning er það ekki, fyrst sjúklingurinn þarf að nota insúlínið að staðaldri, enda er engin bót ráðin á orsökum sjúkdómsins. Það er heldur ekki lækning á tannveiki, þótt tannlæknar fylli upp í holur eða dragi út skemmdar tennur. Orsakirnar eru látnar afskiptalausar, og nýjar holur myndast. Og þannig mætti telja upp flesta hrörnunarsjúkdóma og sýna fram á, að meðferð lækna á þeim er ekki lækning, heldur viðgerð, sem heppnast þó ekki nema endrum og eins.
Læknastéttin hefir sefjað sig með þeirri staðreynd, að meðalævin hefir lengzt. Þetta er að vísu rétt. En ekki er þar með sagt, að heilsufar almennings hafi batnað. Hækkun meðalaldurs stafar af útrýmingu skæðra farsótta og sérstaklega af því, að ungbarnadauði hefir stórminnkað vegna betri meðferðar á ungbörnum. En svo er uppeldi barna með þeim hætti, að því fer fjarri, að þeim auðnist að varðveita meðfædda og náttúrlega heilbrigði. Það verður ekki, meðan t.d. börn koma í skólann með kóka-kóla og vínarbrauð í nestið, eða meðan keppzt er við að sjóða mjólkina ofan í ungbörnin og ausa hvítum sykri í mat þeirra. Slíkt er ósvikin sjúkdómaræktun. Menn mega heldur ekki láta það villa sig, að tekizt hefir undir ötulli forystu þeirra, er þeim málum stjórna, að hefta viðgang berklaveikinnar og draga stórlega úr manndauða af hennar völdum. Þar með er ekki sagt, að lífsorka og táp eða ónæmi gegn veikinni hafi aukizt, síður en svo.
Eins og oft hefir verið bent á áður, er hér þörf á nýrri læknisfræði, og ég vil segja nýrri hugarstefnu. Flestir líta á sjúkdóma sem óumflýjanlegt böl. Og læknar, einkum sérfræðingarnir, virðast líta á einstök líffæri mannslíkamans sem sjálfstæða hluta, sem standi ekki í neinu sambandi við líkamsheildina, eins og dæmin hér á undan sýna.
Hin nýja stefna segir oss, að mannslíkaminn sé ein órjúfanleg heild. Sjúkdómur, sem brýzt út í einu líffæri, er sýnilegur vottur um það, að líkaminn er allur sjúkur. Og sjúkdómarnir eru engin tilviljun. Þeir eiga sínar orsakir, og lækning er í því fólgin að útrýma orsökunum, jafnframt því að létta undir með innri lækningamætti líkamans með einföldum og ósaknæmum ráðum, svo sem böðum, föstum, stólpípum o.fl., til þess að bæta sem fyrst unnið tjón.
Þessi nýja stefna, náttúrulækningastefnan, er ævagömul. Þannig var hún í hávegum höfð af Hippókratesi og fleiri læknum fornaldar. Og þó að sumir læknar kalli hana öfgastefnu, er ekki svo um alla.
Þannig var það árið 1892, að mig minnir, að ungur danskur læknir gjörðist yfirlæknir í allstóru héraðssjúkrahúsi. Hann tók upp ný og óvenjuleg vinnubrögð við lækningu sjúkdóma. Hann fékk sér garðland og ræktaði þar jarðarber og allskonar matjurtir handa sjúklingum sínum. Hinsvegar notaði hann lítið af lyfjum. Honum var ljóst, að flest lyf eru gagnslaus og auk þess beinlínis skaðleg. Í stað þeirra gaf hann sjúklingum sínum oft, til þess að fróa þá og sefja, vatn, blandað meinlausum bragð- og litarefnum og stundum blandað kolsýru, til þess að fá í það ólgu. Og það fór mikið orð af honum sem meðalalækni! Á hinn bóginn var hann í litlum metum hjá stéttarbræðrum sínum, sem gerðu tilraun til að bola honum frá sjúkrahúsinu. Hann spurði: Hversvegna? Til þess að sjúkrahúsið fái betra orð á sig, var svarað. Er það dánartalan, sem er of há?, spurði Hindhede, því að þetta var hann (um dr. Mikkel Hindhede og starf hans hefi ég ritað í 4. h. 1950 og 1. h. 1951). En eftir allmargra ára starf var dánartalan í sjúkrahúsi Hindhedes fjórfalt lægri en í öðrum sambærilegum sjúkrahúsum. Og svo vildi til, að lyfjaeyðsla þar var einnig fjórfalt minni en annarsstaðar. Hindhede hlaut maklegt lof í stað þess að vera rekinn.
Dr. Hindhede gerði aldrei botnlangaskurði og missti aldrei sjúkling úr botnlangabólgu. Þegar hann lét af störfum sem yfirlæknir, tók við duglegur skurðlæknir. Þegar á fyrsta ári missti hann 4 sjúklinga úr botnlangabólgu. Aðferð dr. Hindhedes var kennd við prófessor With og var fólgin í algerðri sveltu, hreyfingarleysi, heitum bökstrum og dálitlu af ópíum. Í sjúkrahúsi einu vestanhafs var sama aðferð notuð með þeim árangri, að af 500 botnlangasjúklingum lifðu allir, og lítur þó út fyrir, að í allmörgum þeirra hafi botnlanginn verið sprunginn.
Allir sjúkdómar stafa af orsökum, sem unnt er að koma í veg fyrir. Maðurinn hefir þróazt frá einfrumungs lífveru til þess að verða heilaþroskuð vera með sjálfstæðri hugsun. Hann hefir að mestu glatað eðlisávísan sinni, sem er rödd náttúrunnar og firrir dýrin að miklu leyti sjúkdómum og hrörnun. En mennirnir eiga að nota hugsun sína og vit í staðinn. Þeir verða að skilja, að mannlegir sjúkdómar eru sjálfskaparvíti og að náttúrlegt heilsufar hvers manns er fullkomin heilbrigði.
Þessi grein birtist í 3. tbl. Heilsuverndar 1953.