Sjúkdómur með þessu heiti er einn hinna nýju kvilla, sem gert hafa vart við sig á síðari árum. Það er tiltölulega nýr fugl í eyju, eins og menn segja nýr í varplandi hinnar gömlu læknisfræði, stingur sér víða niður, og vex viðkvæmnin fyrir honum svo hratt, að læknum þykir nóg um.
Fugl þessi er marghöfðaður. Ein grein hans er heykvef eða frjómæði, og lýsir sér í því, að einstaka menn þola ekki gróðurilm, þegar blóm taka að vaxa og frævast, og fá þeir þá astmakennd andþrengsli og hæsi. Þessum sjúklingum hefur þá stundum verið ráðlagt að forða sér út á afskekktar og gróðurlausar eyjar og dvelja þar, unz mesta gróðurtímabil vorsins væri liðið hjá. Eða þá að reynt er að ráða bót á, eða öllu heldur að halda ofnæmisverkununum í skefjum með eiturlyfjum. Stundum er ofnæmið bundið við allt aðra hluti, jafnvel kattarhár til dæmis og ráðið er þá að láta köttinn víkja af heimilinu þar sem hinn viðkvæmi maður dvelur!
Þess eru hinsvegar dæmi, að blóm, köttur og sjúklingur hafa mátt vera kyrr á sínum stað og ógæfufuglinn hefur horfið jafnhljóðlega eins og hann kom. Þannig var um einn þennan andþrengslasjúkling, að hann fékk jafnframt meltingarkvilla, sem gerði það að verkum, að hann varð að liggja á sjúkrahúsi og fylgja því læknisráði að neyta jurtafæðu eingöngu og umfram allt lifandi fæðu. Vorið kom nú og grundin greri. Og svo illa sem sjúklingurinn hafði áður verið haldinn af andþrengslum sínum, þá brá nú svo við, að ofnæmisköstin létu standa á sér, og honum varð ljóst, að þau höfðu stafað af því einu, að ónáttúrleg fæða hafði raskað eðlilegu jafnvægi í líkama hans og dregið úr viðnámsþrótti.
Ofnæmi og ónæmi eru tvær andstæður. Ónæmi er afkvæmi fullkominnar heilbrigði. Ofnæmi er hinsvegar afkvæmi veiklunar, sem stafar af neyzlu ónáttúrlegra og dauðra eða meira og minna eitraðra fæðutegunda, en sú neyzla hefur lengi farið vaxandi, og er reyndar svo komið, að mikið af þeirri fæðu, sem keypt hefur verið frá útlöndum, hefur verið eitrað með allskonar hundakúnstum til þess að gera hana „útgengilegri. Verksmiðjuhaldari nokkur, sem valsaði hafragrjón, sem hingað eru flutt, trúði mér eitt sinn fyrir því, að þeir yrðu að drepa kímið í höfrunum, þ.e.a.s. eyða lífsorku þeirra, til þess að gera þá að verzlunarvöru, og væri þetta gert með eldhitun um leið og þeir væru valsaðir. Ég trúði honum aftur fyrir því, að ég mundi kynna mér hvort þeir fóðruðu hestana sína á sömu eldhituðu og vítamínlausu höfrunum, sem þeir teldu boðlega til manneldis. Ég hafði tal af bónda einum, sem átti fallega og vel fóðraða hesta. Nei, þeir fengu hafra sína að vísu valsaða, en með lifandi kíminu. Ég fékk dálítið af þessum höfrum í poka með mér, og lét hleypa upp á þeim suðunni handa mér sem allra snöggvast. Þessir nýju og óhituðu hafrar höfðu ilmandi bragð, og var auðfundið að þeir voru allt önnur fæða en sú sem mönnum er boðin undir sama nafni.
Á meðan vér látum bjóða oss slíkt og skellum skollaeyrunum við því eðlilega lögmáli að líf verður að nærast á lífi, þá mun þúsundhöfðað illfygli manneldissjúkdómanna hreiðra æ betur um sig í landi voru. Það er hægt að flýja kattarhár og jafnvel angan blómanna, en það verða ekki umflúnar afleiðingar þess að brjóta lögmál lífsins.
Þessi grein birtist í 2. tbl. Heilsuverndar 1956.