Á góðviðrisdegi í desember kom í ljós að farir mínar urðu tímabundið ákaflega ósléttar þegar minn trausti ferðafélagi síðustu fimm árin varð farlama með öllu. Upptaktur þessarar sorgarsögu átti sér stað síðast í nóvember þegar ég settist undir stýri á gráa bílnum mínum, sem við skulum hér eftir nefna Grána. Ég hafði verið í burtu í nokkra daga og Gráni í góðu yfirlæti í frábærum félagsskap ungmeyjanna á heimilinu sem viðruðu hann daglega og skutust meira að segja á honum í sumarbústaðinn, til upplyftingar og dægrastyttingar í skammdeginu. Það kom mér því í opna skjöldu á fimmtudagsmorgni að ferðalag okkar Grána hófst með áður óþekktum rykkjum og skrykkjum. Fljótlega mýktist þó gangurinn og komumst við klakklaust til vinnu. Ég vonaði að hann myndi bara jafna sig á þessum hósta yfir daginn en í lok vinnudags hafði sóttin frekar versnað en hitt. Ég klappaði honum aðeins meðhárs sem gerði það að verkum að við náðum heim í Kópavoginn. Ég áttaði mig þó á því að nú væri lag að leita til fagmanna og hringdi því á bílaverkstæði þar sem elskulegur maður sá á aumur mér og fékk ég tíma í hraðskoðun á verkstæði daginn eftir.
Við Gráni lögðum tímanlega af stað í hraðskoðunarverkstæðistímann og það var jú eins gott því fljótlega kom í ljós að ekki hafði ástandið lagast neitt í biðtímanum. Gráni lét illa að stjórn og sérstaklega var hann tregur við gírskiptingar. Það varð því úr að stærstan hluta leiðarinnar ókum við í fyrsta gír. Þessi hægi ferðahraði vakti ekki mikla kátínu annarra vegfarenda enda föstudagur í aðdraganda jóla og asi í umferðinni. Röðin lengdist jafnt og þétt og óþolinmæðir ökumenn, sem ekki gátu tekið fram úr okkur Grána á einbreiðum veginum, fóru hver á fætur öðrum að að þeyta bílflautur af miklum móð. Smám saman varð til hljómmikil en ekki alveg að sama skapi hljómfögur flautusinfónía sem náði þó ekki að herða neitt á okkur Grána né að koma honum í annan gír. Eftir langa mæðu komumst við á leiðarenda og ég skoppaði inn í afgreiðslu bílaverkstæðisins. Þar voru fyrir tveir ábúðarfullir menn við afgreiðsluborðið, annar í símanum en hinn tók á móti mér með hlýju brosi og spurði hvort hann gæti aðstoðað. Síðast þegar ég þurfti að fara með fárveikan bíl í aðhlynningu á verkstæði lenti ég í því að sérfræðingurinn sem tók á móti þeim bíl spurði mig hvað væri að og af því ég er nú sérlega hnyttin manneskja sagðist ég telja að líklega væri golgikerfið í bílnum eitthvað stíflað. Sjaldan hefur jafn úthugsaður og skemmtilegur frumufræðibrandari fallið í jafn stórgrýtta urð. Hafandi lært af þeim mistökum rétti ég lykilinn að Grána fram og lýsti helstu einkennum í stuttu máli. Hann kinkaði kolli af og til og sagði svo að strákurinn myndi fara út og prófa bílinn, ég skyldi bara setjast og fá mér kaffi.
Heilmikill erill var í afgreiðslunni, fólk að koma og fara og síminn gekk látlaust. Mennirnir í afgreiðslunni svöruðu þolinmóðir og smám saman rann upp fyrir mér að þarna í afgreiðslunni fór samtímis fram bráðamóttaka fyrir bíla, neyðarlína og sálrænn stuðningur fyrir angistarfulla bíleigendur. ,,Drap hann á sér?“ heyrði ég annan manninn segja. ,,Ok, ertu uppi á umferðareyjunni núna?“ hélt hann áfram. ,,Prófaðu að starta honum aftur.“ Smá þögn. ,,Gerist ekkert?“ Þarna fannst mér samtalið farið að verða spennandi en þá kom strákurinn askvaðandi inn í afgreiðsluna og sagði við hinn manninn: ,,Þessi bíll er alveg kapút!“ Ég fölnaði því einhvern veginn vissi ég að þarna væri hann að tala um Grána minn. Það stóð heima, afgreiðslumaðurinn horfði til mín og sagði mér að sér þætti það leitt en þessi bíll væri ekki ökuhæfur, ástandið væri það slæmt en þeir myndu reyna að koma honum fljótlega að. Mig langaði að útskýra fyrir þessum góða manni að ég gæti illa bíllaus verið enda þyrfti ég að aka langa leið til vinnu á hverjum degi en stundum er nú betra að þegja, sennilega hafa flestir bíleigendur sömu sögu að segja. Ég greip því helstu nauðsynjar úr bílnum og arkaði heim á leið.
Að nokkrum dögum liðnum hafði Gráni hlotið fullan bata og veskið lést um eins og ein mánaðarlaun eða svo, enda bilunin alvarleg. Ég hugsa hlýlega og þakklát til bílahvíslaranna í hvert sinn sem ég skipti um gír á Grána en vona að sama skapi að ég þurfi ekki að heimsækja þessa öðlinga fljótt aftur. Vonandi fá þeir gott frí yfir jólin.
Við Gráni ætlum að taka því rólega og gera vel við okkur um jólin, ég í samverustundum með fjölskyldunni og Gráni á bílastæðinu með öðrum fararskjótum. Gleðileg jól!
Guðríður Helgadóttir, bíllaus um tíma en annars bara góð