Vernd loftslags og lífríkis
Landsþing NLFÍ skorar á íslensk stjórnvöld að lýsa yfir neyðarástandi í loftslagsmálum og bregðast við loftslagsvánni af mun meiri þunga. Heildarlosun fráÍslandi hefur aukist frá 1990 og með sama framhaldi munum við hvorki ná að uppfylla skuldbindingar okkar í sameiginlegu markmiði með ESB og Noregi um 55% samdrátt fyrir árið 2030 né ná markmiði um kolefnishlutleysi árið 2040.
Umskiptin yfir í loftslagsþolna framtíð þurfa að vera réttlát og stuðla að vernd loftslags og lífríkis. Samhliða þarf að standa vörð um ósnortin víðerni á miðhálendinu og koma í veg fyrir ósjálfbæra auðlindanýtingu.
Lífræn framleiðsla
Landsþing NLFÍ skorar á stjórnvöld að standa enn betur að eflingu lífrænnar framleiðslu hérlendis, þá sérstaklega hvað varðar aukna ræktun á grænmeti og korni. Lífrænar ræktunar- og eldisaðferðir draga úr gróðurhúsaáhrifum með aukinni bindingu kolefnis í jarðvegi og rannsóknir staðfesta að þær skila hreinni matvælum með fjölþættari næringarsamsetningu.
Þörungaprótein
Landsþing NLFÍ hvetur stjórnvöld til að kanna ítarlega möguleikana á aukinni þörungaræktun á Íslandi og setja sér stefnu um hlutdeild þörungapróteins í lífrænni framleiðslu fyrir árið 2040. Augu heimsins beinast í vaxandi mæli að ræktun þörunga sem t.a.m. próteingjafa í fæðu okkar eða í fóðri búfénaðar.
Aukin þörungarækt samræmist einnig markmiðum um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda og hægt er að rækta þá á sjálfbæran hátt.
Merkingar á matvælum
Landsþing bendir á að tryggja þarf að ákvæðum reglugerðar um merkingar á matvælum sem framleidd eru úr erfðabreyttum lífverum og afurðum þeirra sé framfylgt. Tryggja þarf að upprunamerkingar matvæla séu réttar og greinilegar.
Mataræði grunnskólanema
Landsþing NLFÍ hvetur skólayfirvöld eindregið til þess að tryggja að grunnskólarnir bjóði nemendum upp hollan, lítið unninn og næringarríkan mat. Kannanir á mataræði Íslendinga undanfarin ár hafa sýnt að neysla ungmenna á fiskmeti, ávöxtum, grænmeti og heilkorni er ónóg. Í grunnskólunum býðst gott tækifæri til að leggja grunn að góðum neysluvenjum og veita
fræðslu um mátt matarins. Matartímann og framreiðslu heilsusamlegs matar ber að líta á sem hluta af náminu. Það er fjárfesting í framtíðinni að tryggja nægjanlegt fjármagn til þess að grunnskólar landsins bjóði sem mest upp á hollustufæði.
Nikótínpúðar og orkudrykkir
Landsþing NLFÍ hvetur til átaks í fræðslu um skaðsemi munntóbaks, sérstaklega í formi tilbúinna nikótínpúða. Aukin notkun nikótínpúða meðal barna og unglinga er áhyggjuefni en fæst þeirra hafa neytt nikótíns í öðru formi. Neysla koffín- og orkudrykkja getur valdið svefnleysi og ýmsum kvillum hjá börnum og fullorðnum en efla þarf fræðslu um þessa tegund
drykkja.