Fyrir nokkru ákvað ég að hætta að klippa hár mitt stutt og leyfði því að síkka, ekki hvað síst fyrir hvatningu ungmeyjanna á heimili mínu. Þær voru ekkert sérlega hrifnar af stutta hárinu og ég man mjög vel daginn sem ég kom heim stutthærð og fannst ég mikil skutla. Yngri dóttir mínr leit á mig og nýju hárgreiðsluna með mjög dapurlegum svip og sagði: ,,Mamma, þú er mjög skrýtin og svolítið ljót.“ Í hvert skipti sem ég fór í klippingu eftir þetta spurði hún mig hvort ég gæti ekki látið klippa hárið sítt aftur en það er ákveðnum vandkvæðum bundið nema farið sé í mjög kostnaðarsamar hárlengingaraðgerðir þannig að ég lét það eiga sig. Í nokkur ár hélt ég mig við stutta hárið en verð að viðurkenna að ég upplifði aldrei þau meintu þægindi sem eiga að fylgja stuttu hári. Kannski er það vegna þess að ég er með dálítið liðað hár og að það virðist einnig hafa sjálfstæðan vilja. Að minnsta kosti voru morgungreiðslurnar oft með ævintýralegum blæ og sérstakt skemmtiefni ungmeyjanna minna að finna nöfn á hárgreiðslurnar á morgnana. Þannig vakti suðaustan þrettán greiðslan töluverða kátínu og hárgreiðslan blautur köttur er fyrir löngu komin á topp tíu yfir greiðslur með frjálsri aðferð.
Fyrir stuttu var ég í upptöku fyrir Sumarlandann og var að taka viðtal við bráðskemmtilega konu. Myndatökumaðurinn stillti okkur upp en sagði svo að við yrðum að skipta um sæti, faxið á Gurrý skyggði á viðmælandann. Þetta rifjaði upp fyrir mér samtal við aðra ungmeyna mína þegar hún var um fimm ára gömul og langaði mjög mikil til að vera með sítt hár en sprettan var ekki í samræmi við væntingar. Ég hughreysti hana og sagði henni að hún væri með mjög fínt hár, það væri skínandi fallegt eins og sólskin og að auki væru augu hennar blá eins og himininn. Hún gladdist mjög við þessa lýsingu, horfði á mig í smástund og sagði svo: ,,Mamma, þú ert með augu eins og moldin og hár eins og einn hestur, hann Hrollur“, en Hrollur þessi var í miklu uppáhaldi hjá dótturinni. Það er því engin furða að ungmeyjunum þætti móðirin setja töluvert niður við það að skerða faxið.
Ein er þó sú aukaverkun sem ég hafði ekki tengt við síkkandi hár en það eru breytingar á heyrn. Eftir því sem hárið hefur síkkað og vaxið niður fyrir eyrun finnst mér eins og heyrnin hafi daprast. Þetta er að mínu viti alveg ný uppgötvun og full ástæða fyrir vísindamenn að kanna þetta nánar. Enn sem komið er hef ég ekki hitt annað fólk sem hefur lent í þessu sama en ég er sannfærð um að með þessum pistlaskrifum muni fjöldi fólks stíga fram og lýsa sömu upplifun. Þessu til sönnunar hef ég reynt það á eigin skinni að heyrnin skánar þegar ég greiði hárið frá eyrunum en mögulega hefur þykkt og samsetning hára áhrif á eðlilega hreyfingu hljóðbylgja að eyrum. Einhverjir myndu halda að þessi heyrnarskerðing tengist því sem stundum hefur verið nefnt valkvæð heyrn en mín reynsla er sú er að hún einskorðist við eiginmenn.
Yfirleitt háir þetta mér ekki mikið en þó hafa komið tilvik sem eru dálítið vandræðaleg og mér finnst rétt að halda til haga, að minnsta kosti í rannsóknarskyni. Um daginn vorum við hjónin á akstri um þjóðvegi landsins og hlustuðum á útvarpið. Þar var í gangi spurningakeppni og höfum við hjónin mjög gaman af slíku útvarpsefni, keppumst við að reyna að vera á undan útvarpsfólkinu að svara spurningunum og satt best að segja teljum við undarlegt að ekki hafi verið haft samband við okkur og við beðin að vera með í svona keppnum, svo eldsnögg erum við í tilsvörum. Þar sem við brunum eftir þjóðveginum með spurningakeppnina í útvarpinu kemur mjög undarleg spurning sem var svona: Nefnið þrjár lundategundir sem finnast á Íslandi. Þrjár lundategundir! Ég er nú menntaður líffræðingur og töluverð áhugamanneskja um fugla, ekki hvað síst þær tegundir sem finnast á Íslandi og hef aldrei heyrt að til séu fleiri en ein tegund af lunda. Ég sneri mér því að manninum mínum og spurði hann hvort hann hefði einhvern tímann heyrt annað eins, þrjár lundategundir á Íslandi? Hann horfði til baka óræðum svip og svaraði alvarlegur að bragði: ,,Jú, auðvitað, það eru léttlundi, langlundi og svo hinn afar sjaldgæfi þjónustulundi.“ Í sömu anddrá heyrðist svarað í útvarpinu: ,,Uuu, ég ætla að segja labrador, collie og snauzer“.
Nú er ég yfirleitt með hárið í tagli.
Guðríður Helgadóttir, faxprúður garðyrkjufræðingur.