Fyrsta hraðahindrunin í Kópavogi var af óskiljanlegum ástæðum staðsett beint fyrir neðan aðalbrekku Austurbæjarins, brekkuna sem börn, unglingar og fullorðnir nutu þess að bruna niður á þríhjólum, tvíhjólum og öðrum farartækjum, á fleygiferð, með vindinn í hárið og lífið í frambremsunum, náðu svo að renna langar leiðir á jafnsléttu án þess að þurfa að hafa neitt fyrir því. Svo kom hraðahindrunin. Það endurspeglaði kannski hug allra hlutaðeigandi þegar framtakssamir aðilar spreyjuðu með varanlegri málningu stórum stöfum á farartálmann: Hvaða heili fann þetta nú eiginlega upp? Þessi setning endurspeglar fullkomlega tilfinningar mínar gagnvart glimmeri. Hvaða hrekkjalómur ber ábyrgð á þessum glitrandi örflögum sem engin leið er að losna við, sem líma sig á hvað sem fyrir verður og hanga þar jafnvel árum saman, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til að losna við þær? Standa af sér margvíslegan efnahernað svo sem vatn, olíur, sápur, alkóhól, jafnvel sítrónudropa sem þó duga gegn velflestu? Ég væri til í að hitta þennan aðila og spjalla við hann í einrúmi drykklanga stund og útskýra fyrir honum að glimmer er vond hugmynd.
Sem móðir nokkurra ungmeyja hef ég alls ekki farið á mis við glimmer, þvert á móti mætti segja að ég hafi fengið bílfarma af glimmeri inn á heimili okkar. Um tíma voru öll föt ungmeyja í landinu þakin glimmerskreytingum í bak og fyrir, sem væri sosum allt í lagi ef glimmerið hefði haldið sig á flíkunum en þrátt fyrir áður yfirlýsta viðloðunarhæfileika glimmers er eins og það hafi sér eins og framandi og ágengt illgresi sem skýtur upp kollinum hvarvetna sem það er óvelkomið. Ungmeyjarnar mínar fóru ekki varhluta af þessari tísku. Þær fóru helst ekki út fyrir hússins dyr nema í glimmerpeysum, glimmerbuxum, glimmersokkum, glimmerskóm og með glimmerhárskraut í hárinu. Tískan er harður húsbóndi og þær gátu að sjálfsögðu ekki látið sjá sig á almannafæri nema vera hámóðins til fara. Annar siður sem náði talsverðum vinsældum í aldurshópnum 6-10 ára var að skella vænni slummu af glimmeri í umslag með jólakorti og senda á ,,vini“ sína. Enn þann dag í dag, nokkrum árum seinna, finn ég glimmer á ólíklegum stöðum frá þessum glimmersprengjum sem vöktu kátínu ungmeyjanna um hríð en ollu langvarandi kvíðaköstum hjá þrifagengi heimilisins. Sem betur fer varði þetta tímabil ekki lengi, einungis örfá ár og lognaðist svo út af fyrir fullt og allt, eða það hélt ég allt þar til fyrir nokkrum dögum.
Fyrstu merki um endurkomu glimmers voru á skemmtun þar sem ég sat við hliðina á glæsilegri konu í stórkostlega fallegum kjól. Kjóllinn var ofinn úr glitþræði og hreinlega stirndi á hann. Minnug glimmertímans hafði ég orð á því við konuna að mikið væri nú skemmtilegt að sjá að í dag væri hægt að fá kjóla til að glitra svona fallega og það án glimmers. Konan andvarpaði og horfði alvarleg djúpt í augun á mér um leið og hún útskýrði fyrir mér að tækniframfarir síðustu ára væru bara alls ekki komnar svona langt. ,,Sjáðu bara okkur hjónin.“ Þá fyrst tók ég eftir glimmerinu sem prýddi andlit konunnar á stöðum sem alla jafna eru lausir við áberandi andlitsfarða og því ólíklegt að hún hefði skellt glitrandi efnum þar. Svo leit ég á eiginmann hennar sem sat henni við hlið og sá að dökk jakkafötin voru alsett flögum sem í lágstemmdri birtu salarins hefðu getað verið alvarlegt tilfelli af skyndiflösu en reyndist svo vera glimmer. Ég færði mig örlítið frá henni svo lítið bar á því ég vildi ógjarnan smitast af glimmerfárinu en þrátt fyrir varúðarráðstafanir náðu nokkrar flögur að smygla sér með heim á kjólnum mínum.
Næsta merki var í vinnunni en þar fékk samstarfsmaður minn í jólagjöf forláta kerti í mikið skreyttu glimmerglasi. Til þess að kveikja á kertinu er mikilvægt að halda glasinu stöðugu og hefur það orðið til þess að vinnufélagarnir eru meira og minna glitrandi, allt eftir því hver lætur til leiðast að kveikja á kertinu. Þetta hefur vakið töluverða kátínu á vinnustaðnum því fátt dregur meira úr alvarleika og trúverðugleika sérfræðinga en vel glimmerað andlit.
Þriðja merkið var svo því miður hér á heimilinu. Ungmeyjarnar, sem mér vitanlega voru löngu vaxnar upp úr glimmertískunni, voru að hafa sig til fyrir dansleik um daginn. Eftir stórkostleg tilþrif við hár og förðun skrýddust þær sparikjólum og liðu svo prúðbúnar um stofugólfið til að sýna foreldrunum hvað þær væru fínar. Faðir þeirra brosti út að eyrum, ákaflega ánægður með dæturnar en ég var orðlaus. Mér varð nefnilega starsýnt á glimmerslóðina sem sáldraðist af kjólunum þeirra niður á nýskúrað gólfið og feyktist þaðan innundir píanóið, stofusófann og alla stólana, smaug inn á milli pottaplantna, kertastjaka og jólaskrauts í stofunni og kom sér haganlega fyrir á áfangastað. Ef ég reyni að líta jákvætt á málin þá get ég alveg viðurkennt að það er tilbreyting í því að vera með glitrandi ryk á heimilinu og ég þarf ekki að skreyta eins mikið og venjulega. Mér fannst hins vegar óþægilegt að hnerra glimmeri um daginn, er ekki fulllangt gengið að skreyta innvortis?
Gleðileg glimmerjól!
Guðríður Helgadóttir, glitrandi yst sem innst