Fimmtudagin 30.júní síðastliðinn veitti Náttúrulækningafélag Reykjavíkur (NLFR) Veganbúðinni viðurkenningu fyrir frumkvöðlastarf í rekstri á framúrskarandi vegan matvöruverslunar með áherslu á fjölbreytt vöruúrval.
Veganbúðin hóf starfsemi 1.nóvember 2018 með einungis 30 vörur í netverslun. Árið 2019 í veganúar var opnað lítið útibú á Strandgötu í Hafnarfirði.
Vöxturinn hjá Veganbúðinni hefur verið mikill á stuttum tíma og í dag er Veganbúðin í margfalt stærra verslunarhúsnæði að Faxafeni 14 í Reykjavík. Það er því greinilegt að neytendur eru ánægðir með þetta aukna aðgengi að veganvörum, sem sést á þessum mikla vexti búðarinnar.
Það er ánægjulegt að fylgjast með því hvað mikið hefur áunnist í hugsjónastarfi eigenda Veganbúðarinnar. En starf þeirra byggir í grunninn á því að auka aðgengi almennings að veganfæði og lífrænum vörum, þar með að draga úr neyslu á dýraafurðum og stuðla að umhverfisvernd.
Þetta hugsjónarstarf eigenda Veganbúðarinnar er nátengt hugsjónum NLFR, því félagið hefur frá stofnun árið 1949 barist fyrir sölu óspilltra matvæla og barist gegn innflutningshöftum á grænmeti, ávexti, korni og öðrum hollustuvörum. Einnig var grænmetisveitingastaður á vegum NLFR rekinn í Reykjavík í áratugi og þótti heilmikill sértrúarbragur á öllu því sem fór fram hjá félaginu á fyrstu áratugunum. NLFR hefur frá upphafi hvatt landsmenn til að bera ábyrgð á eigin heilsu og bera virðingu fyrir náttúrunni.
Eigendur veganbúðarinnar eru því vel að viðkenningu NLFR komin. Það var með miklu stolti sem NLFR veitti eigendum veganbúðarinnar þessa viðurkenningu og vonandi að viðurkenningin verði þeim enn frekari hvatning í þessu mikilvæga og öfluga grasrótar- og hugsjónarstarfi sínu.
Eigendur veganbúðinnar eru Sæunn Ingibjörg Marinósdóttir, Magnús Reyr Agnarsson, Rósa María Hansen og Benjamin Lestage sem öll hafa verið vegan af dýraverndunarástæðum árum saman.
Á myndinni með fréttinni má sjá (frá vinstri) Lindu Ýr Stefánsdóttur verslunarstjóra, Sæunni Ingibjörgu Marinósdóttur og Magnús Reyr Agnarsson eigendur við afhendingu viðurkenningarinnar.
Hægt er að kynna sér vöruúrval, starfsemi og sögu Veganbúðarinnar á www.veganbudin.is