Mér finnst janúar frábær mánuður. Hann minnir mig alltaf á þessa frábæru stund á sinfóníutónleikum þegar hljóðfæraleikararnir eru að ljúka við að stilla saman strengi sína rétt áður en tónleikarnir hefjast. Þetta er stundin sem felur í sér svo óendanlega möguleika, bráðum á eitthvað stórkostlegt sér stað, eftir andartakið næst samhljómur sem fær gleðina til að hríslast um allan líkamann, tónlistin nær manni á vald sitt og maður hrífst með. Svona er janúar. Allir möguleikarnir í stöðunni opnir, heilt ár tækifæra framundan og nú þarf maður bara að stilla strengina í sjálfum sér og hefja gleðina. Eins gott að nýta líka tímann vel því eftir örstutta stund eru aftur komin jól og nýr janúar heilsar með öðrum möguleikum, öðrum samhljómi, annarri tónlist eða jafnvel bara framhaldi af tónleikum þessa árs.
Mörgum finnst janúar erfiður mánuður. Jólin og áramótin með tilheyrandi fagnaðarlátum að baki og einungis vetrarmyrkrið framundan, skafrenningur og slydda, slabb á götum, ófærð á vegum og útsölur í búðum þar sem vörum frá fyrri árum er stillt fram á hóflegu verði svo hægt sé að rýma til á lagerum fyrir sumarvörunum. Þeir sem hafa misst sig í jólaeyðslunni kvíða því að greiðslukortareikningurinn detti inn í heimabankann og eru kannski ekki alveg með það á hreinu hvernig á að komast fram úr næstu mánaðamótum. Skiljanlega veldur svona staða fólki kvíða en það er nú ekki janúar að kenna að hann er mánuðurinn beint á eftir stærstu eyðsluhátíð Íslendinga.
Janúar er mánuðurinn þegar við finnum það best að nú hækkar sól á lofti og vorið er á næsta leiti. Fyrst í stað verðum við lítið vör við það að daginn sé farið að lengja en upp úr miðjum janúar virðist sérhver dagur hænuskrefi lengri en dagurinn á undan og áður en við er litið, er maður farinn að keyra heim úr vinnunni í björtu. Ég kvarta alls ekki undan myrkrinu á kvöldin því mér finnst fátt notalegra en að kveikja á kertum og þau njóta sín einhverra hluta vegna betur á veturna en á sumrin.
Birtan í janúar er margslungin og fjölbreytt. Það er eitthvað töfrandi við snævi þakta jörð að kvöldlagi í flennibjörtu tunglskini og glitrandi norðurljósum. Við slík skilyrði ætti að vera skylda allra að fara út í kvöldgöngu, njóta þess þegar snjórinn marrar undir fótunum, tunglið varpar skuggamyndum og norðurljósin eru svo tindrandi að næstum má merkja rafstrauminn frá þeim, að minnsta kosti ætti að heyrast í þeim dálítið suð. Stjörnurnar taka þátt í þessu listaverki náttúrunnar og skreyta himinhvolfið og þegar horft er upp í stjörnubjartan himininn kemur í ljós að hann er miklu dýpri en áður var haldið, stjörnurnar miklu fleiri, víðáttan óendanleg, mannskepnan agnarsmá. Birtan er ekki síður mögnuð þegar hlánar og fer að rigna.
Að óreyndu gæti fólk sennilega ekki ímyndað sér öll þau tilbrigði við gráa tóna sem veðurfarið getur framkallað á Íslandi. Lengi vel var ég í hópi þeirra sem kvörtuðu undan grámósku vetrarins en gráir litir eiga ekki að gjalda þess að vera gráir, þeir eru litir eins og allir hinir og því jafnréttháir á litaskalanum. Fátt er líka notalegra en að vera heima hjá sér með rjúkandi heitt kaffi eða kakó, spennandi bók og hlýtt teppi á meðan veður geisa fyrir utan gluggann. Og jú, með kertaljós á borðinu.
Janúar markar upphaf vorsins í garðyrkjunni því þá er komið að því að sá fyrir fyrstu sumarblómunum. Þeir sem hafa unnið í garðyrkju þekkja vel þá tilfinningu að um leið og fyrsta fræið er komið í sáðbakkana verður ekki aftur snúið, nú fer allt á fullt, vorið kemur eftir korter og næst þegar hægt er að setjast niður og velta vöngum yfir lífinu og tilverunni er kominn ágúst og sumarvertíðin liðin hjá. Þetta gerist á hverju ári og kemur alltaf jafn mikið á óvart. Hörðustu garðræktendur nota fyrstu mánuði ársins til að skipuleggja matjurtabeðin hjá sér og velja hvaða matjurtafræ verður fyrir valinu þetta árið, helst af tegundum sem vekja aðdáun og undrun annarra garðræktenda og veita eiganda sínum forskot í keppninni um flottasta garðinn, fjölbreyttasta úrvalið, þrifalegustu plönturnar, eða bara tegundir sem lifa af íslenskt sumar. Að þessu leyti er janúar ekkert annað en upptaktur að vori, forleikur að sumri, undirbúningur undir haustuppskeruna.
Rúsínan í pylsuenda janúars eru þó án efa þorrablótin. Mikið held ég að Íslendingar geti verið þakklátir þeim sem komu þorrablótum aftur á kortið. Ég er svo lánsöm að komast á alvöru sveitaþorrablót með heimatilbúnum skemmtiatriðum, þar sem áherslan er á að skemmta sveitungunum með sögum úr sveitinni, frábærum mat og dansiballi fram á rauðanótt. Ungir sem aldnir skemmta sér saman og þetta er fyrirtaks leið til að komast að því hvað gerðist helst markvert í sveitinni frá síðasta blóti.
Svo er janúar skyndilega allur, horfinn í baksýnisspeglinum, liðinn undir lok og kemur aldrei aftur. Febrúar tekur við með áframhaldandi gleði og svo koll af kolli þar til nýr janúar rennur upp, heilt ár liðið eins og hendi væri veifað og með hverju árinu virðast þessi ár auka hraðann. Eins gott að njóta þess á meðan maður hefur tíma.
Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur