Vorið staldraði við í einn dag fyrir um þremur vikum síðan – þvílíkur gleðigjafi sem sólin er, fyrir allar lífverur. Við höfum verið í þvílíkum gráma og rigningu í fleiri mánuði, enginn vetur – bara langt leiðinda haust.
Ég starfa hjá japönsku fræfyrirtæki í Danmörku við kynbætur á plöntum, nánar tiltekið sumarblómum – starfið felst í fjölgun, ræktun, víxlun, söfnun, þurrkun, hreinsun, pökkun og svo hefst hringurinn á ný.
Ég má í raun ekki segja ykkur hvað ég geri, er bundinn þagnarskyldu – gott fræ og vinsælt sumarblóma yrki er árangur margra ára vinnu og því er mikið í húfi.
En ég má segja ykkur gróflega frá, starfið er bæði krefjandi og skemmtilegt, krefjandi á svo marga vegu og að því sögðu þá langar mig að skjóta því hér inn að íslenska garðyrkjan býr yfir mikilli fagþekkingu.
Tegundahóparnir sem ég vinn við eru margir og misstórir, sumir hópanna eru allt árið í ræktun, sumir nokkra mánuði aðrir nokkrar vikur, í þessum skrifuðu ber ég ábyrgð á tíu tegundarhópum og er meðhjálpari í þeim ellefta.
Árið og hver einasta vika eru vel skipulögð, skipulag sem byggir á reynslu síðustu ára og veðurfarsþáttum – þegar ég fer af stað með mínar sáningar að hausti þá veit ég í hvaða viku sérfræðingarnir frá Japan og Hollandi mæta, til að meta og velja úr þeim þúsundum plantna sem ég hef ræktað. En þegar nánast aldrei birtir og rignir standslaust þá fær maður sem garðyrkjufræðingur nýjar áskoranir, að halda lífi í hverri einustu plöntu þar til sérfræðingarnir hafa metið og tekið út. En það eru einmitt þessar áskoranir sem gera starfið svo spennandi.
Það er ekki nóg að halda lífi í plöntunum, þær þurfa að vera að góðum gæðum, er varðar útlit og heilbrigði, vaxtarform plöntunnar er metið, blaðlitur, -stærð og -lögun, blómlögun, blómstærð, blómlitur og tíðni blómgunar eru einnig mikilvægir matsþættir. Þá kem ég aftur að þessum fyrsta sólardegi, en hann varð til þess að fleiri blómknúppar stækkuðu og sprungu út og því urðu gæðin, þau sem lagt var upp með í upphafi, í lagi, þegar úttekt fór fram.
Góðum gæðum næ ég með góðum „búskaparháttum“, rækta plönturnar við kjöraðstæður er varðar, hitastig dag og nótt, rakastig, birtu, daglengd, ræktunarefni (mold), vatn og næringu. Þegar plöntur eru ræktaðar við kjöraðstæður þá verða vandamálin færri. Til að stýra vexti, stýri ég loftslagi – til að ná þéttri plöntu rækta ég hana við hærri næturhita en daghita, lækka hita snarlega við sólarupprás eða rækta plönturnar eins þurrt og ég þori. Til að koma í veg fyrir sveppasjúkdóma þá passa ég upp á hreinlæti, og stýri rakastigi – kynni mér kjöraðstæður sveppanna og held mér frá þeim aðstæðum. Varðandi meindýr þá kynni ég mér hvaða meindýr eru líkleg fyrir hvern tegundahóp, nota límplötur til að fylgjast með og skoða plönturnar daglega, nota náttúrulegar varnir sem ég set út vikulega, lyfjanotkun (úðun) er í algjöru lágmarki.
Síðan við fengum fyrsta sólardaginn þá hefur sólardögum fjölgað og nýjar og óþekktar áskoranir í formi veirusmits hafa tekið við af grámanum. Við í okkar litla útibúi í Danmörku erum heppin – strangar varúðar ráðstafanir voru teknar í upphafi faraldar.
Lokun landamæra hefur áhrif á mína atvinnugrein eins og aðrar. Blómum er nú fargað eins og enginn sé morgundagurinn – ferskvara sem þolir enga bið.
Garðyrkjubransinn er smár, sérstaklega á Íslandi og þarf lítið til, til að velta mikilvægri atvinnugrein – því hvet ég ykkur kæru landar að styðja við garðyrkjufólkið okkar með því að kaupa íslenska framleiðslu.
Guðrún Helga, garðyrkjufræðingur.