Einn góðan veðurdag síðastliðið sumar áttaði ég mig skyndilega á því að frumburðurinn væri að fara að fermast. Það er þó ekki eins og ég hafi ekki tekið eftir því að barnið væri að vaxa úr grasi, farið að nálgast hæð móður sinnar með ískyggilegum hraða eða að næst eftir að börn verða 13 ára verða þau sem betur fer flest 14 ára og komin á fermingaraldur. Nei, þetta sneri meira að sjálfri mér. Ég vaknaði upp við þann undarlega draum að ég, þessi unga hressa kona sem var þrítug í gær, var allt í einu komin með barn á fermingaraldri. Hvernig í ósköpunum gat þessi viðburður læðst svona aftan að mér? Ferming hafði sosum verið nefnd af og til og jafnvel rædd innan fjölskyldunnar en í öllm tilfellum var atburðurinn sjálfur staddur langt frammi í fjarlægri framtíð og óþarfi að velta sér eitthvað upp úr þessu strax, koma tímar, koma ráð, þetta reddast og svo framvegis. Þar sem þetta áfall dundi á mér datt mér í hug að kanna hvort það gæti hreinlega hugsast að annað fólk hefði lent í svipuðu áður.
Eftir ítarleg viðtöl við stelpur (lesist konur á mínum aldri) í kringum mig komst ég að því að fermingaráfallið dynur almennt á fólki við fermingu fyrsta barns, aðrar fermingar eftir það eru yfirleitt léttbærari enda komin ákveðin reynsla á undirbúning og framkvæmd og minni líkur á að eitthvað fari úrskeiðis. Það hjálpar mjög að hafa sterkt stuðningsnet í kringum sig og leita ráða hjá sér reyndari stelpum við útfærslu smáatriða en ekki síður við það að sætta sig við að tíminn fer áfram, ekki afturábak. Ekki ein einasta stelpa af þeim sem ég ræddi við, fannst hún vera orðin nógu gömul til að ferma elsta barnið sitt, algerlega burtséð frá aldri. Þær samsinntu því að vissulega væri augljóst að börnin hefðu stækkað töluvert frá fæðingu og að ef reiknað væri út frá ártölum væri aldur barnanna líklega rétt reiknaður en væri miðað við andlegan þroska, líkamlegt útlit og heilbrigði mæðranna væri langt í að mæðurnar næðu fermingaraldrinum, það er að segja aldri til að ferma börnin sín. Sumar gengu jafnvel svo langt að halda því blákalt fram að þær væru mun unglegri í dag en daginn sem þær fæddu viðkomandi börn. Þær hinar sömu neituðu því staðfastlega að hafa látið snurfusa útlit sitt með læknisfræðilegum aðferðum.
Einnig kom fram sú skoðun að fermingaraldur barna í dag þyrfti að vera mun hærri en hann er. Unglingar komast hvort sem er ekki að heiman fyrr en vel eftir þrítugt og það tekur ótrúlega mikið pláss í geymslunni og bílskúrnum að geyma allar fermingargjafirnar árum og jafnvel áratugum saman, eða þar til barnið fer að heiman og getur fyllt sín eigin hýbýli af fermingargjöfum. Það sjónarmið var jafnvel viðrað að í ljósi þrenginga í húsnæðismálum þyrfti hugsanlega að fara að stilla fermingargjöfum meira í hóf; stór sjónvörp, fartölvur, grjónapúðar, rafstillt rúm, vélsleði, vespa og fjórhjól taka jú töluvert pláss. Nefnt var að í eina tíð hefði armbandsúr og íslensk orðabók þótt mjög veglegar fermingargjafir og hugsanlega mætti fara að rifja slíkar gjafir upp aftur, ekki síst í ljósi plássins. Ein stelpan minntist á að það gæti verið góð hugmynd að gefa fermingarbörnum eingöngu peninga í fermingargjöf, helst háar fjárhæðir, þannig að börnin geti notað fermingaraurinn sem útborgun í íbúð svo þau komist að heiman. Þessi hugmynd er að mínu mati eingöngu álitleg ef farið er samhliða í að hækka fermingaraldurinn því annars er hætt við því að aurarnir missi verðgildi sitt áður en barnið er farið að velta fyrir sér húsnæðiskaupum. Því má einnig bæta við að í dag er ekki til siðs að 14 ára gömul börn flytji að heiman og búi ein.
Þá má velta fyrir sér hver gæti heppilegur fermingaraldur verið, það er að segja fermingaraldur barna. Í eina tíð var fermingin staðfesting á því að börn væru komin á fullorðinsaldur, gætu farið að vinna fyrir sér, gengið í hjónaband, eignast fjölskyldu. Þróunin hefur orðið sú að fólk er ungt langt fram eftir öllum aldri, eyðir áratugum í menntun, fer að vinna eftir að mastersgráðan er í höfn, gengur í hjónaband ríflega þrítugt og fer að huga að barneignum um þann mund sem það hættir að geta átt börn án aðstoðar lækna. Samkvæmt þessu ætti fermingaraldurinn því að vera nokkurn veginn við 35 ára markið. Fermingaraldur mæðra mun sennilega halda áfram að koma mæðrunum á óvart.
Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur og móðir á fermingaraldri