Saga eplisins
Epli eru ávextir eplatrjáa sem bera tegundaheitið Malus domestica og eru af rósaætt. Eplatréð á rætur sínar að rekja til Mið-Asíu. Elpatrén bárust frá Persíu til Evrópu fyrir um 5000 árum. Epli bárust til Ameríku með evrópskum landkönnuðum.
Það eru til um 7500 tegundarafbrigði af eplum og stærstu útflutningslöndin eru Kína og Bandaríkin. Epli er í þriðja sæti yfir mest ræktuðu ávexti í heiminum með yfir 70 milljón tonn framleidd á hverju ári. Helstu tegundir epla sem fluttar eru til Íslands eru rauð (Red Delicious), Royal Gala, Machintosh, Jonagold, Honey Crunch, gul, græn, Fuji og smáepli.
Loftslag hér á Íslandi hefur ekki verið hagstætt eplaræktun, þó hefur orðið þónokkur vakning verið í ræktun epla hér á landi undanfarin ár. Fyrstu heimildir um eplatré sem sáð var á Íslandi er frá árinu 1880 á Akureyri og þess mikið getið í heimildum fram eftir 20. öldinni, því það dafnaði vel og bar ávöxt þó bragðgæðin hafi ekki verið mikil en þetta tré brann árið 1912. Það eru dæmi um þónokkra eplaræktun í görðum landsmanna á 20.öldinni þó ekki hafi þau borið mikinn ávöxt. Þeir sem vilja kynna sér eplaræktun á Íslandi betur geta lesið nánar um hana hér: http://skemman.is/stream/get/1946/15576/37593/1/2013_BS_Hraundis_Gudmundsdottir.pdf;jsessionid=1EFAC0197A88E2D3A6CB089611E72A8A.
Epli eru mjög þekkt í norrænni og grískri goðafræði og einnig kristni. Öll þekkjum við söguna af forboðna eplinu í Aldingarðinum sem mátti ekki neyta. Nú til dags telst það þó ekki til synda að borða epli, heldur þvert á móti og ráðleggur Landlæknisembættið okkur að neyta 5-6 skammta af ávöxtum og grænmeti á dag.
Í Grikklandi til forna voru epli talin heilög og það að kasta epli að einhverjum var tákn um ást; og á sama vegu var það talið samþykki ástaryfirlýsingar að grípa eplið.
Í Skáldskaparmálum í Eddu Snorra Sturlusonar segir frá því er gulleplunum var stolið frá Iðunni. En þessi gullepli héldu við ódauðleika goðanna í Ásgarði og eltust þau líkt og dauðlegir menn af því að fá ekki að bíta af eplum Iðunnar. Sem betur fer skiluðu þau sér þó aftur í Ásgarð og tryggðu goðunum eilífa æsku á ný.
Adamseplið, kýlið sem stendur útúr hálsi karlmanna er kennt við hið forboðna epli af skilningstrénu sem Adam borðaði en talið er að það hafi staðið í honum.
Hollusta í eplum
Öll þekkjum við slagorðið “epli á dag kemur skapinu í lag og ” enska slagorðið “an apple a day keeps the doctor away”. Upphaflega er þetta slagorð frá Wales (árið 1866) og var þá á þessa leið „ Borðaðu epli fyrir svefn, og þú mun koma í veg fyrir að læknirnn eigi salt í grautinn“
Hvers vegna eru epli svona holl?
- Fyrir það fyrsta eru þau ekki hitaeiningarík sem er mikilvægt í hreyfingarleysi nútímans, meðalstórt epli er um 80 hitaeiningar og um 90% af þyngd þess er vatn.
- Þau eru rík af pektíni sem getur lækkað kólesteról.
- Epli eru rík af C-vítamíni og pólyfenólum sem er mjög öflug andoxunarefni.
- Fenólefnið quercetin er í eplum en það hefur sýnt verkun til að vinna gegn Alzheimersjúkdómnum.
- Rannsóknir hafa sýnt að eitt epli á dag í fjórar vikur getur lækkað slæma kólesterólið (LDL) um 40% miðað við samburðarhóp.
- Rannsóknir hafa líka sýnt að fimm epli á viku geta minnkað einkenni frá öndnarfærasjúkdómum eins og t.d. astma.
- Epli eru rík af trefjum m.a. pektíni sem getur hjálpað til við meltingu, lækkað blóðsykur og kólesteról í líkamanum.
Skemmtilegar staðreyndir um epli
- Eplatréð er af rósaætt og blómgast fallegum blómum.
- Epli geymast best í kæliskáp og þroskast 6-10 sinnum hraðar við herbergishita.
- Epli innihalda um 3% prótein.
- Eplatré geta orðið um 100 ára gömul.
- Stærsta epli sem ræktað hefur verið var um 1,4 kg.
- Það tekur eplatré um fjögur til fimm ár að bera ávöxt.
- Flestar eplategundir eru enn í dag handtíndar á haustin.
- Epli koma í öllum litaafbrigðum af rauðum, gulum og grænum.
- Stærstu eplategundirnar eru á stærð við greipaldin og þær minnstu á við kirsuber.
- Epli er hægt að rækta mun norðar en flesta aðra ávexti, því þau bera ávöxt seint á haustin, sem dregur úr frostskemmdum.
- Til að eitt epli þroskist þarf orku frá 50 laufblöðum eplatrésins.
- Fornleifafræðingar hafa fundið merki um eplaneyslu síðan um 6500 f.Kr.
- Ekki flysja epli áður en þú neytir þess. Skolaðu það frekar vel því 2/3 trefjannna og mikið af andoxunarefnum eru í hýðinu.
- Lífræn epli eru ekki vaxborin eins og þau ólífrænu. Vaxið er ómeltanlegt en þó ekki talið skaðlegt mönnum. Þó ættum við að reyna að neyta lífrænna matvæla þegar kostur er á því, til að verja heilsu okkar og móður Jarðar.
- Eplasteinar innihalda snefil af cýaníði, sem er eitur, en það er bara inni í kjarnanum. Ef eplasteinar eru ekki tuggðir mjög vel þá mun þeir fara gegnum meltingarveginn án þess að valda skaða í manneskjum. En hins vegar getur losnað um cýaníið ef eplasteinarnir eru tuggðir mjög vel, en þó er eitrið ekki í það miklu magni að líkaminn geti ekki afeitrað það. Þó ætti ekki að hvetja til þess að fólk tyggi mikið af eplasteinum daglega.
Epladagurinn 20.október 2013
Ein af ástæðum þessa pistils, fyrir utan að greinarhöfundur er forfalinn eplafíkill, er að epladagurinn var haldinn hátíðlegur í gær, 20.október. Fyrsti epladagurinn var haldinn 21.október árið 1990 í Covent Garden í London. Þessum degi var komið á fót af félagasamtökunum Common Ground í Bretlandi til að vekja athylgi almennings á eplum og eplarækt.
Það væri frábært ef við Íslendingar tækjum upp þennan sið og héldum uppá epladaginn að ári með því að skiptast á eplauppskriftum, drekka eplasafa eða eplavín, borða góð epli og njóta góðs epladags saman.
Munið slagorðið „ eitt epli á dag kemur skapinu í lagi“
Heimildir:
http://en.wikipedia.org/wiki/Apple
http://www.mnn.com/food/healthy-eating/stories/10-reasons-to-eat-an-apple-a-day
http://urbanext.illinois.edu/apples/facts.cfm
http://www.gmo-compass.org/eng/grocery_shopping/fruit_vegetables/6.genetically_modified_apples_eu.htmlhttp://www.huffingtonpost.com/tag/gmo-apples
http://www.nhtlh.com/articles/articles_apple_king_of_fruits.html
http://www.nutrition-and-you.com/apple-fruit.html
http://www.huffingtonpost.com/2012/09/06/health-benefits-apples_n_1855590.html
http://www.orangepippin.com/resources/apple-facts/apple-fun-facts
http://chemistry.about.com/od/healthsafety/f/Do-Apple-Seeds-Contain-Poison.htm
http://en.wikipedia.org/wiki/Apple_Day
Skrifað af Geir Gunnari Markússyni, ritstjóra NLFÍ, ritstjori@nlfi.is