Heimurinn í dag árið 2014 er kominn langt frá því að vera náttúrulegur fyrir þá sem lifa borgarlífi. Heimurinn er uppfullur af eiturefnum, óhollum mat, hættulegum lyfjum og misvísandi heilsuskilaboðum og áróðri.
Vitið þið hvers vegna svona margir í nútíma samfélagi þjást af sjúkdómum sem hægt væri að koma í veg fyrir? Dagsdaglega, allan árins hring og hvert árið af öðru er fólk að borða mat og gera hversdagslega hluti sem síður en svo byggja upp heilbrigðan líkama.
Þegar heilsan svo þrýtur auðvitað á endanum vegna óheilbrigðs lífsstíls leitum við til lyfja sem gera ekkert annað en halda niðri einkennum í stað þess að leita leiða til að bæta lífsstílinn eða horfa á rót vandans. Auk þess valda lyfin oft aukaverkunum sem hægt væri komast hjá ef fólk væri tilbúið til að taka ábyrgð á eigin heilsu.
Hér eru taldir upp 5 mikilvægir eiginleikar að hafa þarf til að viðhalda góðri heilsu í heimi sem er síður en svo heilsusamlegur.
1. Lærðu að lesa á umbúðir matvæla
Eitt besta ráðið til að stuðla að góðri heilsu. Maturinn sem við setjum í körfuna í matvörubúðinni getur annað hvort styrkt heilsu okkar eða dregið úr henni. Það er því á okkar ábyrgð að vita hvað matvörurnar sem við setjum í körfuna innihalda. Við erum nú einu sinni að fæða okkur og þá sem við elskum hvað mest í þessu lífi.
Reynum að hafa matinn sem ferskastan og best væri að reyna að kaupa matvörur sem hafa bara eitt innihaldsefni s.s. ávexti, grænmeti, hnetur, olíur, fræ, egg og fisk.
Það krefst smá þjálfunnar að læra að lesa á umbúðir en þú ert að gera heilsu þinni góðan greiða með því að vera læs á innihaldslýsingu matvæla.
2. Lærðu að hlusta á líkamann
Nútímasamfélag með hraða og stressi hefur gert það að verkum að við erum hætt að hlusta á líkama okkar. Líkaminn þarf hvíld en við keyrum okkar áfram í stressi dagsins með kaffi en þurfum svo svefnpillur til að sofna á kvöldin. Með þessu erum við algerlega að slökkva á því sem líkaminn er að segja okkur.
Annað gott dæmi er höfuðverkur vegna t.d. næringarsnauðs fæðis, svefnleysis, mikillar kaffidrykkju, hreyfingarleysis eða hækkaðs blóðþrýstings. Í stað þess að reyna að leiðrétta eitthvað af þessu tökum við verkjatöflur og erum með því í raun að pissa í skóinn. Við þurfum bara stærri og meiri skammta af verkjalyfjum því við erum ekki að hlusta á líkamann og ráðast að rót vandans.
Margir fá mikla löngun í sætindi og bakkelsi að loknum erfiðum degi í vinnunni eða í mikilli vinnutörn, þarna gera mjög margir þau mistök að láta eftir þessari þörf. Líkaminn er ekki í raun og veru að kalla eftir sætindum í andlegu álagi heldur miklu frekar smá andlegri útrás. Næst þegar þessi sætindaþörf kemur, prófaðu að fá þér vatnsglas og taka slökun í 15 mín eða fara í rösklegan göngutúr og sjáðu til sætindaþörfin mun vera horfin að þessu loknu.
Líkaminn er sjálfur með frábært viðgerðarkerfi en við gefum honum aldrei þann tíma sem hann þarf til að gera við sig sjálfur, t.d. er líkaminn aðallega að byggja sig upp í hvíld, en erum við í raun og veru að hvílast?
3. Ekki elta tækninýjungarar hugsunarlaust – Reynum að hreyfa okkur sem mest í tæknivæddum hversdeginum
Okkar samfélag er orðið mjög vélrænt og sjálfstýrt og við fylgjum þessu án þess að spá í það hvort þetta sé raunverulega hollt fyrir okkur.
Dæmi um þetta eru t.d. endalausir rúllustigar og lyftur allsstaðar. Afhverju fara allir í rúllustigann eða lyftuna þó möguleiki sé einnig á „venjulegum gamaldags“ stiga? Við erum eins og hamstrar í búri og fylgjum þessum tækninýjungum án hugsunar um betri kost. En þetta er það síðasta sem við þurfum núna árið 2014 þegar við erum að drukkna í mat en hreyfing er næstum engin.
Það eru líka komnir hurðaropnarar á margar hurðir og hann nota allir án þess að hugsa um að það hefði nú gott af því að nota smá handafl til að opna hurðina.
Best væri að taka aftur upp sjónvarp án fjarstýringar því okkur er nauðsynlegt að hreyfa okkur nútildags þó tækninýjungarnar séu alltaf að reyna að finna leiðir til láta okkur hreyfa okkur minna.
4. Vertu gagnrýnin á heilsufullyrðingar og heilsu„postula“
Við erum skotmark markaðstækja þessa heims og sífellt bylja á okkur hinar ýmsu heilsufullyrðingar um nýjasta töfraefnið eða töfrakúrinn. Góð regla í sambandi við þessi efni og kúra er sú að ef fullyrðingarnar eru of ótrúlegar til að vera sannar, þá er það einmitt það sem þær eru, þær eru EKKI sannar!
Við erum svo ótrúlega ginkeypt fyrir skyndilausnum og okkur langar svo ótrúlega mikið í betri heilsu og útlit en því miður verður það ekki keypt í krukku eða með kúr. Ef hægt væri að selja fólki þann aga sem þarf til að horfast í alvöru í augu við lífsstíl sinn með því að auka hreyfingu og borða skynsamlega, þá væri björninn unninn!
5. Lærum að rækta okkar eigin mat
Það að geta ræktað eigin matvæli er ein besta leiðin til að stuðla að betri heilsu. Því þá þurfum við ekki að treysta á innihald matvæla í matvörubúðum og einnig er það fjárhagslega hagkvæmt. Nóg væri að byrja bara á einhverjum kryddplöntum í eldhúsglugganum og vinna sig svo upp í framleiðslunni. Matur, sem maður ræktar sjálfur frá grunni eins og frummaðurinn ræktaði og er án allra auka- eða aðskotaefna, er heilsusamlegri en margar matvörur í matvörubúðum.
Það sem allir þessir eiginleikar eiga sameiginlegt er að þeir gera þig meira sjálfstæða/n og þú tekur meiri ábyrgð á eigin heilsu og munt síður hafa þörf fyrir lækna, lyf eða spítala.
En það er algjörlega á þína ábyrgð að tileinka þér þessa eiginleika í eigin lífi og verðlaunin eru auðvitað betri heilsa sem er ómetanleg.
Þessi grein er þýdd og endursögð grein frá Natural News. www.naturalnews.com
Skrifað af Geir Gunnari Markússyni, ritstjori@nlfi.is