Í dag er Þorláksmesssa og aðeins einn dagur í að jólahátíðn hefjist og er jólaundirbúningurinn á lokametrunum hjá flestum.
Jólin er skemmtilegur tími en undirbúningurinn og umstangið í kringum jólin er oft yfirgengilegur. Við megum ekki gleyma því að njóta jólaundirbúningsins og ekki stressa okkur of mikið í umferðinni, hreingerningum, bakstri, jólaskreytingum og kaupum á jólagjöfum, nýjum fötum og skóm.
Flestir Íslendingar eiga nóg í sig og á. Það sem við þurfum helst verður ekki metið til fjár…en það er sálarfriður. Gamalt máltæki segir „Fátækir menn þrá auðævi, ríkir menn himnaríki, en vitrir menn þrá friðsæld.“ – Swami Rama (1873-1906).
Það er nú þvímiður lítið í jólaundirbúninginn sem stuðlar að sálarfrið því það er endalaust verið að herja á okkur að gera eitthvað fyrir jólin og kaupa meira og meira. Jólin koma alveg þótt það séu nokkrir rykmaurar á gólfinu og miðað við magnið af auglýsingabæklingum sem flæða inn um lúguna er eins við eigum helst öll að eiga heiminn. En það sem flestir eru að bjóða okkur til sölu um jólin eru dauðir hlutir og því meira sem maður á af þeim því minni er sálarfriðurinn.
Árlegt kærleiks- og kyrrðarkvöld Náttúrulækningafélags Reykjavíkur (NLFR) er frábært tækifæri til að finna sálarfriðinn. Hér má kynna sér dagskrá síðasta kærleiks og kyrrðarkvölds NLFR sem fór fram 15.desember s.l.
Kúplum okkur út úr jólastressinu og förum út í göngu í náttúruna, drögum að okkur andann og lífið. Finnum að við erum á lífi en erum ekki þrælar jólastressins. Tökum einhvern sem okkur þykir vænt um, með í þessa gönguferð og hún verður eftirminnilegri en dýrasta jólagjöf viðkomandi.
Eigið gleðileg jól með sálarfrið.
Geir Gunnar Markússon, ritstjóri NLFÍ ritsjori@nlfi.is