Í dag gerum við okkur sem betur fer öll grein fyrir því hversu mikil mengun stafar af bílum. Margir hafa brugðist við þeirri vitneskju með því að velja sér umhverfisvænni bíla en áður, taka hjólið oftar fram, rúnta ekki að óþörfu o.s.frv. Það væri óskandi að þetta væru einu breytingarnar sem við þyrftum að gera á lífi okkar til þess að minnka mengun og hlúa að jörðinni en svo er því miður ekki. Hér verða því gefin nokkur dæmi um hvernig má stíga lítil skref í átt til stórra breytinga fyrir umhverfið okkar:
- Göngum eða hjólum oftar. Að ganga með börnunum í skólann getur gefið gæðastundir sem eru verðmætar fyrir margt annað en að vera umhverfisvænar. Þau okkar sem eru háð bílum til þess að komast á milli staða getum vanið okkur á að sameina sem flestar ferðir í eina. Þannig sparast bæði peningar og við mengum minna. Það getur líka verið bæði ánægjulegt og hagkvæmt að reyna að sameina ferðir með öðrum. Skiptast á að keyra og njóta félagsskapsins á meðan.
- Verum meðvituð um efnin sem við notum í garðinum. Áður en við úðum eitri og drepum arfann með einhverju undraefni skulum við venja okkur á að lesa innihaldslýsinguna og muna að efnin sem um ræðir fara ofan í jörðina og geta mengað grunnvatnið.
- Verslum í heimabyggð – mat sem er ræktaður í heimabyggð. Mengunin sem verður af því að flytja matvörur yfir heiminn þveran og endilangan er gífurleg. Prófaðu að fara út í búð og hugsa um uppruna hverrar og einnar vöru sem þú kaupir. Hvaðan kemur appelsínan og hvað þarf til þess að koma henni af appelsínutrénu og í ísskápinn hjá þér?
- Veljum vörur með minnstu og umhverfisvænustu umbúðirnar. Reynum að kaupa tómata í lausu frekar en þá sem er búið að pakka í bæði frauðbakka og plast. Ef við erum bara með eitt epli þá þurfum við ekki sér plastpoka utan um það. Það þolir alveg að fara laust ofan í margnota innkaupapokann okkar með öllu hinu.
- Veljum lífrænar vörur. Lífræn ræktun er ávallt án allra eiturefna og verndar þannig bæði jarðveg og vatnsból.