Hvað gerir salat að alvöru salati? …. stutta svarið er DRESSINGIN! Góð Dressing! Þú getur notað sama hráefnið í salöt en gert þau gjörólík með ólíkum dressingum.
Í mínum huga inniheldur hin fullkomna dressing súrt, biturt, salt og sætt bragð. Ef þú ert að prófa þig áfram í dressingum getur oft verið gott að hafa þessi brögð í huga við val á hráefni og finna það magn sem myndar jafnvægi milli þeirra.
Það getur verið ótrúlega skemmtilegt að leika sér með jurtir í dressingar, þær gefa ekki bara skemmtilegt og einkennandi bragð heldur setja þær einnig svip á dressinguna með litnum sínum og svo eru þær auðvitað stútfullar af næringarefnum.
Hér er græn dressing á grænt salat…. sem kemur þér skemmtilega á óvart fyrir hvað hún er sæt og fersk. Það má auðvitað líka bera hana fram með öðru en salati og passar hún vel útá hrísgrjón, quinoa eða annað korn t.d.
Hér greip ég íslensku jurtirnar frá Vaxa, myntan frá Vaxa er mild og mjúk sem passar vel fyrir í dressingu.
Þú þarft:
- 1 box mynta (15gr)
- 1 box kóreander (15gr)
- 4 döðlur
- 1-2 tsk hrísgrjónaedik
- 1/2 tsk tamari sósa
- safi úr 1/2 sítrónu
- 1 dl vatn
- 1 msk kaldpressuð ólífuolía
- handfylli rauð vínber
- hnífsoddur salt
Aðferð:
- Öllu hráefni er komið fyrir í lítið blenderunit, töfrasprotaglas eða nutribullet og blandað vel.
Verði ykkur að góðu.