Niðurstöður landskönnunar á mataræði Íslendinga árin 2019–2021

Í gær komu út niðurstöður landskönnunar á mataræði Íslendinga árin 2019-2021. Þessar kannanir á mataræði Íslendinga hafa verið gerðar reglulega og gefa mikilvæga mynd af mataræði Íslendinga m.t.t. ráðlegginga.
Að könnuninni stóðu Embætti landlæknis og Rannsóknastofa í næringarfræði við Heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands og náði hún til fólks á aldrinum 18–80 ára.

Hér má nálgast alla skýrsluna.

Samantekt af helstu niðurstöðum úr könnuninni:

 • Ávaxta- og grænmetisneysla.
  Við megum gera mun betur til að auka neyslu á þessum afurðum, því grænmeti og ávextir eru stútfullir af nauðsynlegum vítamínum, steinefnum og trefjaefnum. Mælt er með því að við neytum um 5 skammta á dag (Hver skammtur 100 g, ættum því að neyta 500 gr á dag) af ávöxtum um grænmeti.
  Samkvæmt könnuninni erum við að ná 213 gr á dag að meðaltali og einungis 5% Íslendinga nær að borða a.m.k. 500 gr af ávöxtum og grænmeti á dag.
  Neysla á grænmeti stendur í stað frá síðustu könnun en ávaxtaneysla hefur minnkað og má geta sér til um það áhrif vinsælla mataræðiskúra eins og t.d. ketó,  sem takmarka verulega kolvetnaneyslu sé áhrifaþáttur í þessari minni neyslu.
  Áhrif lágkolvetna- og háfitukúra sjást  einnig á því að heildarneysla á kolvetnum hefur minnkað úr 42% í 37%.  Það er jákvætt að ýmsu leyti því við erum að minnka viðbættan sykur, en þessi minni neysla mætti vera bara á kostnað viðbætta sykursins en ekki næringarríkra ávaxta eða heilkornaafurða.Til þess að auka þessa neyslu er um að gera að reyna að koma ávaxta-  eða grænmetisskammti inn í hverja máltíð og millibita dagsins. T.d.
  • Skera epli út á hafragraut á morgna
  • Niðurskorna appelsínu í millibita
  • Grænmeti s.s. gúrku, tómat, kál, o.fl. með hádegismat
  • Avocadó með hrökkbrauði í millibita seinnipartinn
  • Grænmeti með kvöldmat eða búa til dýrindis grænmetisrétt
 • Heilkornavörur s.s. heilhveiti, heila hafra, bygg, rúgur og sem minnst unnar vörur í þessum afurðum teljast til heilkornavara og  einungis um fjórðungur þátttakenda nær viðmiðum um neyslu á heilkornavörum (70 gr á dag).
  Heilkornavörur innihalda mikilvæg vítamín eins og t.d. B-vítamín, steinefna s.s. magnesíum og trefja.
 • Baunir, linsur, hnetur og fræ.
  Einungis 26% þáttakenda borðuðu grænmetisrétti (s.s. bauna- linsurétti) sem aðalrétt oftar en einu sinni í viku.
  83% svarenda borðuðu engar baunir eða linsur og 77% borðuðu hvorki hnetur né fræ. Konur í yngsta aldurshópnum borðuðu marktækt meira af baunum og linsum en aðrir hópar. Í ráðleggingum um mataræði er mælt með að nota baunarétti sem leið til að fækka kjötmáltíðum. Þá er einnig mælt með um 30 grömmum af hnetum á dag en innan við 5% Íslendinga ná  að fylgja þeirri ráðleggingu. Meðalneysla á hnetum var um 5 grömm á dag
 • Fiskur og fiskafurðir.
  Fiskneysla stendur í stað milli kannana, er að meðaltali 315 gr á viku og er eins og áður minnst í yngsta aldurshópnum (18–39 ára). Fiskneysla er sérstaklega lítil meðal yngsta aldurshóps kvenna, en einungis 1% þátttakenda í þessum hópi nær að fylgja ráðleggingum um 2–3 fiskmáltíðir á viku (375 gr á viku).
  Þetta er ekki góð þróun því fiskur og fiskafurðir eru einstaklega næringarríkar af próteini, joði, járni, D-vítamíni og omega-3 fitusýrum (feitur fiskur).
  Þó  eru karlar mun líklegri til að fylgja ráðleggingunum um fiskneyslu, ekki aðeins vegna stærri skammta heldur einnig vegna tíðari fiskneyslu. Mest borða Íslendingar  af ýsu og þorski (42%), þá feitum fiski, svo sem laxi og bleikju, (37%) og loks öðrum fiski og sjávarfangi (18%), en minnst er borðað af harðfiski (3%).
 • Rautt kjöt (nautakjöt, lambakjöt, svínakjöt, hreindýrakjöt og hrossakjöt).
  Dregið hefur úr neyslu á rauðu kjöti um rúm 60 gr á viku. Aðeins um 2% þátttakenda borða aldrei kjöt.
  Ekki þarf að koma á óvart að karlar neyta mun meira af kjöti en konur. Samkvæmt ráðleggingum um mataræði ætti neysla á rauðu kjöti ekki að fara yfir 500 grömm á viku. Um 60% þátttakenda fara yfir þau viðmið, og eru þar yngri karlmenn sérstaklega öflugir.
 • Mjólk og mjólkurafurðir.
  Mjólkurdrykkja hefur minnkað frá síðustu könnun en ostneysla aukist. Breyting hefur orðið á hvaða tegundir drykkjarmjólkur eru notaðar,  neysla á nýmjólk hefur aukist frá síðustu könnun meðan neysla á fituminni mjólkurvörum hefur dregist saman. Þessa þróun að Íslendingar séu að neyta feitari mjólkurvara má tengja við vinsældir háfitukúra eins og ketó sem dásama feitar mjólkurvörur eins og smjör, osta og rjóma.
 • Gos- og svaladrykkir.
  Neysla á sykruðum gos- og svaladrykkjum hefur minnkað um 40% frá síðustu könnun en neysla á sykurlausum gos- og svaladrykkjum aukist um fjórðung. Neysla orkudrykkja hefur aukist frá síðustu könnun.
  Um 55% þátttakenda segjast aldrei drekka sykraða gos- og svaladrykki. Karlar drekka næstum helmingi meira af sykruðum drykkjum en konur og helstu neytendur eru ungir karlar. Um 40% ungra karla drekka meira en einn lítra af sykruðum gosdrykkjum á viku, eða að minnsta kosti 140 millilítra á dag.
  Meðalneysla á sykurlausum gos og svaladrykkjum jókst milli kannana, var 74 millilítrar á dag 2010-2011 er nú 92 millilítrar á dag eða 644 millilítrar á viku að meðaltali. Um 42% þátttakenda drekka sykurlausa gos- og svaladrykki.
  Neysla orkudrykkja hefur aukist geigvænlega og er nú að meðaltali 31 millilítri á dag en var 4 millilítrar á dag 2010–2011. Um 11% þátttakenda fengu sér slíkan drykk á könnunardegi samanborið við 1% í síðustu könnun. Í heildina drekka þó 80% þátttakenda aldrei orkudrykki það er yngsti aldurshópurinn sem dregur vagninn, aðallega ungir karlmenn, en þau 5% sem drekka mest drekka að minnsta kosti 322 millilítra á dag. Það samsvarar tæplega einni dós (330 millilítrum). Mesta aukningin hefur verið í yngsta aldurshópi kvenna (18–39 ára) þar sem neyslan er nú að meðaltali 66 millilítrar á dag, en var 2 millilítrar á dag í síðstu landskönnun.
  Það er gleðilegt að neysla sykurgosdrykkja hafi minnkað en sorglegt að neysla sykurlausra (sætuefnadrykkja) og orkudrykkja séu að aukast.  Hér getið þið kynnt ykkur heilsuspillandi áhrif sætuefnagosdrykkja og „orkudrykkja.
  Við Íslendingar erum með besta vatn í heimi hér á Íslandi nánast frítt í krananum og um að gera að stefna að 6-8 vatnsglasa á dag og fá sér heimagert sótavatn til tilbreytingar.
 • Heildarhitaeiningainntaka Íslendinga helst óbreytt frá síðustu könnum og er um 2044 hitaeiningar á dag að meðaltali. Alltof stór hluti hitaeininga kemur úr næringarsnaðum gervimatvörum eins og gos- og svaladrykkjum, sælgæti, kökum og kexi. Þessar „matvörur“ gefa hitaeiningar en vantar alvöru næringu með náttúrulegum vítamínum, steinefnum og trefjum.
 • Eins og geta mátt sér til í vinsældum ketómataræðis þá hefur hlutfall fitu í heildarhitaeiningum aukist úr 36% i 41% að meðaltali. Og hefur mettuð fita einnig aukist úr 14% heildarorkunnar í 16%.
 • Vegna ónógrar neyslu á ávöxtum, grænmeti, baunum, fræjum og heilkonri eru neysla á trefjaefnum aðeins um 16 gr að meðaltali en ráðlög neysla er um 25 g á dag.
 • Gleðilegt er að sjá að hlutfall orku úr viðbættum sykri hefur minnkað, fer úr 9% í 7% að meðaltali.  Eins og gera mátti ráð fyrir eru neyslan mest íyngsta aldurshópnum og fær þriðjungur í þeim hópi yfir 10% orkunnar úr viðbættum sykri. Ráðlagt er að viðbættur sykur gefi minna en 10% af heildarorkunni.
 • Neysla flestra vítamína og steinefna er að meðaltali yfir ráðlögðum dagskammti. Undantekning á því er neysla á D-vítamíni, B-vítamíninu fólati járni og joði.
 • D-vítamínneysla þeirra sem ekki taka lýsi eða annan D-vítamíngjafa er langt undir ráðlögðum dagskammti (15–20 míkrógrömm á dag) eða 5 míkrógrömm að meðaltali. Rúmlega helmingur þátttakenda (55%) segist taka D-vítamín sem fæðubótarefni reglulega (lýsi, perlur eða töflur) eins og ráðlagt er. Yngsti aldurshópur karla og kvenna fær minnst af D-vítamíni.
 • Meðalneysla á fólati úr fæðu er undir ráðleggingum, sérstaklega meðal kvenna. Fólat er mikilvægt næringarefni á meðgöngu og skortur getur aukið líkur á alvarlegum skaða í miðtaugakerfi fósturs. Fólat er helst að finna í grænmeti, hnetum, baunum og sumum tegundum ávaxta. Einungis 12% kvenna á barneignaraldri taka inn fæðubótarefni sem inniheldur fólat, en öllum konum á barneignaraldri er ráðlagt að taka fólat sem fæðubótarefni.
 • Meðalneysla á C-vítamíni hefur minnkað um 23% frá síðustu landskönnun. Um helmingur þátttakenda nær ekki ráðlögðum dagskammti af C-vítamíni úr fæðu. Enn og aftur má kenna þessum skorti um litla neyslu á ávötum og berjum. C-vítamín er mikilvægt til að mynda bandvef (kollagen) í líkamanum og ýmis hormón og boðefni fyrir heila og taugakerfið.
 • Járnneysla minnkar frá síðustu landskönnun og engin kona á barneignaraldri nær ráðlögðum dagskammti fyrir járn, en hann er hærri fyrir þann hóp (15 mg á dag) en aðra fullorðna (9 mg á dag). Járn er helst að finna í kjöti, fiski, baunum, ertum, linsum, tófú og öðrum sojavörum, dökkgrænu grænmeti, hnetum og heilkornavörum. Járn er mikilvægt næringarefni fyrir súrefnisflutning í blóðinu, ónæmiskerfið og einnig heila- og taugaþroska barna.
  Þessa minni járnneyslu má tengja við minni neyslu ungra kvenna á kjöti, fiski og vinsælda vegan mataræðis.
 • Joðneysla hefur minnkað um 20% að meðaltali frá síðustu landskönnun og er minnst í yngsta aldurshópi kvenna vegna minni mjólkurneyslu og lítillar fiskneyslu í þeim aldurshópi. Tryggja þarf nægjanlegt magn af joði á meðgöngu þar sem þetta næringarefni er mikilvægt fyrir fósturþroska og þroska barnsins eftir fæðingu.

Heimildir:
https://www.landlaeknir.is/um-embaettid/frettir/frett/item49174/Ny-rannsokn-a-mataradi-landsmanna-https://www.landlaeknir.is/servlet/file/store93/item49171/Hvadbordaislendingar_vefur_endanlegt.pdf

Related posts

Grasaferð hjá Heilsustofnun

Sumarlokun skrifstofu NLFÍ

Hlaup fyrir lífið – Hugleiðing um hlaup