Afrískur pottréttur

Þessi bragðgóða og næringarríkar uppskrift er tekin af heimasíðu Melting og Vellíðan .
Þegar kalt er í veðri og snjór yfir öllu er fátt betra en að ylja sér á heitum pottréttum. Ekki skemmir fyrir að pottrétturinn er stútfullur af hollu grænmeti, baunum og er vegan.

Hráefni
2-3 msk olía
1 stk. hvítur eða rauður laukur
½  til heill blómkálshaus
1 stk. paprika
3-5 stk gulrætur
70 g tómatpúrra
1 stk tómatar í dós
2 dósir nýrnabaunir
1 dl vatn
1 dós eða ferna kókosmjólk
2 tsk karrý
2 tsk túrmerik krydd
1 grænmetistengingur
½  – 1 tsk kanill
1 dl saxaðar döðlur
Salt – eftir smekk

Aðferð
Olía sett í pott, laukurinn skorinn í þunnar sneiðar og settur í pottinn við miðlungshita. Á meðan er annað grænmeti skorið niður, blómkál í bita og paprika og gulrætur í þunnar sneiðar.
Þegar laukurinn er orðinn vel mjúkur er tómatpúrru, karrý, túrmerik og kanil bætt saman við og hrært vel saman. Næst er grænmetinu bætt við og blandað vel saman þannig kryddblandan þekur allt grænmetið.
Næst eru tómatar í dós, kókosmjólk, vatni og grænmetisteningi bætt saman við og hrært vel saman.
Nýrnabaunir skolaðar og bætt saman við ásamt döðlunum.
Leyft að malla í a.m.k. 30 mín, ef tími gefst er gott að leyfa þessu að malla lengur.
Í lokinn að smakka til að bæta við salti eftir smekk.

Borið fram með hrísgrjónum og salati. 
Þessi réttur verður bara betri daginn eftir og næstu daga.

Related posts

Ofureinföld linsusúpa

Vel heppnað matreiðslunámskeið

Mexíkóskt quinoa