Náttúrulegur og nærandi hlaupadrykkur

Á morgun er Reykjavíkurmaraþonið og margir búnir að undirbúa sig lengi fyrir þetta skemmtilega og fjölmennasta hlaup landsins .
Til að ná sínum markmiðum í hlaupunum er mikilvægt að huga líka að næringunni. Í stað þess að treysta á kaup á dýrum íþrótta- eða orkudrykkjum er um að gera að útbúa frekar eigin endurnærandi drykk. Oft er mikið af þeim íþróttadrykkjum sem seldir eru í búðum stútfullir af aukaefnum s.s. litarefnum eða sætuefnum sem eru síður en svo góð fyrir árangur og endurheimt.

Uppskrift:
1 ½ kíwi
2 epli
½ banani
2-3 cm af engiferrót
200 g hreint skyr eða jógúrt
200 ml vatn
3-4 ísmolar

Aðferð:
Afhýðið ávextina, skerið í bita og blandið í blandara ásamt ísmolunum og vatninu í 30-40 sekúndur. Engiferrótin er sett í safapressu og safinn svo blandaður við drykkinn og blandað í um 10-15 sekúndur.

Næring:
Þessi drykkur er m.a mjög ríkur af próteini, B- og C-vítamínum, trefjum, kalíum, kalki og gingeróli.
Skyrið og jógúrtið er mjög próteinríkt og gott í endurheimt á slöppum vöðvum og sinum eftir hlaup. Auk þess eru mjólkurvörur mjög ríkar af kalki og B2-vítamíni.
Steinefnið kalíum í banönum er þekkt fyrir að vinna gegn sinadrætti og vöðvakrömpum sem hlauparar upplifa oft í löngum hlaupum.
Kíwíð er mjög C-vítamínríkt. Líkaminn þarf aukið C-vítamín þegar hann er undir miklu álagi og er C-vítamín öflug andoxunarefni.
Virkasta efnið í engiferrótinni er gingeról en það hefur sýnt sig hafa bólguhemjandi áhrif í líkamanum, en það kemur sér einstaklega vel fyrir hlaupara undir miklu álagi.
Best er að fá sér þennan drykk strax að lokinni góðri hlaupaæfingu til að endurnæra sig vel eftir hlaupin. Einnig má fá sér helminginn fyrir hlaup og svo hinn helminginn eftir hlaup.

Hér er áhugaverð grein um það hvað ber að varast þegar verið að taka þátt í keppnishlaupum.

Skrifað af Geir Gunnari Markússyni, ritstjóra NLFÍ ritstjori@nlfi.is

Related posts

Bleik október hugleiðing

Sæt dressing með kóríander og myntu

Ofureinföld linsusúpa