Villtir matsveppir á Íslandi – Sveppamó

Á Íslandi vex þónokkuð af villtum sveppum sem vel má nýta sér til næringar og heilsubótar. Það er frábært að geta nýtt sér náttúrna til næringar því sveppir eru próteinríkari en flest annað grænmeti auk þess eru þeir ríkir af B-vítamínum, járni og kalíum. Ekki skemmir heldur fyrir að fara í „sveppamó“ og taka heilsubótargöngu í skóglendi og leita að góðum matsveppum.
Núna í ágúst og fram í september er góður sveppatínslutími á Íslandi þ.e.a.s. áður en frystir.

Matsveppir sem eru til umræðu hér lifa í samlífi við (mynda sveppagró) við aðrar plöntur. Þeir ljóstillífa ekki og fá næringu sína frá plöntunni sem þær lifa við. Sveppirnir sem við sjáum upp úr jörðinni eru í raun aldin sveppsins, en sjálfur sveppurinn býr neðanjarðar.

Það er mjög skemmtilegt að velta fyrir sér nöfnum íslenskra sveppa og greinilegt að hugmyndauðgin er mikil þegar kemur að nafnagjöfinni á sveppum, má m.a. nefna vallhnúfu, grænhneflu, sotrulubba og slímgomp. Þetta eru eins og nöfn persóna úr Múmínálfunum.

Hér eru upplýsingar um nokkra íslenska matsveppi sem vert er að setja í körfuna í sveppamóinu:

Furusveppur (Suillus luteus)
Furusveppur er mjög góður matsveppur og eins og nafnið ber með sér lifir hann oftast í samlífi með furu. Hann er mjög algengur á Íslandi og  vex mikið af honum m.a. í nágrenni Reykjavíkur. Vex oft lengi sumars og fram á haust.
Hann þekkist vel af dökkum hatti sínum á yngri sveppum en gulbrúnn á eldri sveppum. Með ljósgulu, stuttu og breiðum staf. Hatturinn er 5 – 12 cm í þvermál, hvolflaga í fyrstu en verður flatari eftir því sem sveppurinn stækkar.
Þegar furusveppir eru matreiddir er húðin oft fjarlægð af hattinum því hún getur valdið meltingartruflunum

Furusveppur. Heimild: wikipedia.org

Kóngssveppur (Boletus edulis)
Kóngssveppur er einnig kallaður ætilubbi en hann mjög eftirsóttur og algengur matarsveppur í heiminum en þó ekki mjög alengur á Íslandi. En þar sem hann finnst á Íslandi í skógi og kjarri er oft allnokkuð af honum. Kóngsveppur finnst oft í gömlum skógarbotnum og þarf oft að leita vel af honum því hann getur verið falinn undir mosa og öðrum gróðri.
Kóngssveppur ber nafn sitt vel því hann er stór og mikill sveppur með hatt sem verður allt að 25 cm í þvermál. Hann er brúnn á litinn. Stafurinn er stuttur og breiður niður, er fyrst hvítur en gulnar með aldrinum og verður seigt, því er best að skera hann af fyrir matreiðlsu. Holdið er hvítt.
Kóngssveppir geta orðið gríðarlega stórir og þungir og stærsti kóngssveppur sem fundist hefur hérlendis vó 3,6 kg.

Kóngssveppur. Heimild: wikipedia.org

Kúalubbi  (Leccinum scabrum)
Kúalubbi lifir í samlífi við birki og er algengur um allt land. Hatturinn er 4-20 cm í þvermál,  hvolflaga en flest út er hann stækkar. Dökkbrúnn á lit en stafurinn hvítur og grannur. Á stafnum er oft svartar skellur sem minna á hárlubba. Holdið er hvítt og þétt en verður svampkenndara með aldrinum.
Kúalubbi er á fínn í matseld en er reyndar oft maðkéttinn.

Kúalubbi. Heimild: wikipedia.org

Lerkisveppur (Suillus grevillei)
Lerkisveppi lifir í samlífi með lerki eins og nafnið ber með sér. Hann er algengur á Íslandi og mest er af honum á austur- og norðurlandi, þar sem lerki er algengast. Hann þekkist vel á sínum skærgulum og rauðgulum lit. Hatturinn veður allt að 12 cm í þvermál og stafurinn er gulur en verður brúnn með aldrinum. Holdið er gult. Lerkisveppurinn fannst fyrst á Íslandi árið 1935

Lerkisveppur: Heimild: wikipedia.org

Kantarella (Cantharellus cibarius)
Kantarella vex í skóglendi og bæði í lauf- og barrskógum. Hann er einn eftirsóttasti matsveppurinn vegna bragðsins, lyktin minnir á apríkósur. Hann er andstæða kóngssveppsins og er smávaxinn og þybbinn. Það eru engin eiginleg skil milli hattarins og stafsins. Hatturinn er 2-5 cm  í þvermál og er fyrst flatur en verður svo trektlaga þegar hann vex. Sveppurinn er allur í sama rauðgula litnum.
Hann fannst fyrst á Íslandi árið 1961.
Kantarella er mjög einkennandi í útliti og erfitt að rugla honum við aðra sveppi. Hægt er að geyma hann lengi með því að þurrka hann.

Kantarella. Heimild: wikipedia.org

Hér má í lokin benda á grein á vefnum um heilræði í sveppamó og góð uppskrift að sveppasúpu.

Heimildir og frekari upplýsingar um sveppi:
https://www.ni.is/grodur/sveppir
https://www.mbl.is/greinasafn/grein/555785/
https://www.fi.is/static/files/ferdir/aukaefni/greining-a-aetum-sveppum.pdf
https://www.mbl.is/greinasafn/grein/1235286/
https://nlfi.is/natturan/sveppatid/
https://www.farmersbistro.is/fludasveppir
https://eldurogkrydd.com/villtir-matsveppir/
https://is.wikipedia.org/wiki/K%C3%B3ngssveppur
https://is.wikipedia.org/wiki/K%C3%BAalubbi
https://www.bbl.is/frettir/frettir/kantarella-og-kongssveppur–i-utbreidslu-a-islandi/15993/
https://www.bbl.is/frettir/fraedsluhornid/sofnun-sveppa/18282/
https://www.bbl.is/frettir/fraedsluhornid/godir-matsveppir/18324/

Skrifað af Geir Gunnari Markússyni, ritstjori@nlfi.is

Related posts

Plöntuhornið – Blettaskytta/Pengingablóm er vinsæl á haustin

Sterkur matur getur aukið lífslíkur

Einföld ráð að hollari næringu og bættri heilsu