Hrákúlur með kakó og appelsínubragði

Hollara páskanammi? Hvernig hljóma kakókúlur með appelsínubragði sem uppfylla súkkulaðilöngunina og gefa okkur góða orku í leiðinni.

Appelsínubragðið gefur skemmtilegan karakter og ferskleika á mótisúkkulaðibragðinu. Á mínu heimili hafa þessar slegið í gegn sem „nammi“ kúlur. Yngstu kynslóðinni þykir líka gaman að taka þátt í að búa þær til ….og láta þær hverfa jafnóðum. Skemmtileg og einföld afþreying fyrir krakkana í páskafríinu.

Ég vel að nota lífrænt hráefni í mínar hrákúlur og þar sem börkurinn af appelsínunni er notaður í þessa uppskrift þá er mikilvægt að nota lífræna appelsínu í kúlurnar. Ef þú finnur ekki lífræna appelsínu þá myndi ég skipta út berki fyrir meiri appelsínusafa.

Þú þarft:

  • 2 dl lífrænar möndlur
  • 2 dl lífrænar kasjuhnetur
  • Börkur af 1 lifrænni appelsínu (ca 1 msk)
  • 3 msk lífrænt kakó + kakó til að velta uppúr
  • 15 ferskar döðlur (það þarf að taka steininn úr)
  • safi úr 1/2 appelsínu
  • hnífsoddur salt (má sleppa)

Aðferð:

  1. Byrjið á að setja möndlur og kasjúhnetur í matvinnsluvél og gera að
    smáu kurli.
  2. Bætið kakó og rifnum appelsínuberki útí og blandið aftur. Ef þið setjið
    salt útí má það fara hér útí.
  3. Steinhreinsið döðlurnar og setjið útí ásamt appelsínusafanum og
    blandið enn meira.
  4. Rúllið upp í passlega stórar kúlur og veltið uppúr kakói.
  5. Geymist í ísskáp eða frysti. Geymast lengur í frysti…en þessar eru sjaldan til lengi…þið skiljið;)

Verði ykkur að góðu.

Related posts

Bleik október hugleiðing

Sæt dressing með kóríander og myntu

Náttúrulegur og nærandi hlaupadrykkur