Af dýrunum má margt læra


Í 6. hefti Heilsuverndar 1968 var smágrein með yfirskriftinni “Lærum af börnum náttúrunnar”. Var þar sagt frá því, að til skamms tíma hefðu í afskekktum byggðarlögum úti í heimi verið uppi fámennar þjóðir eða hópar karla og kvenna, sem lifað hafa við mjög frumstæð skilyrði og fábrotnar lífsvenjur og lítið sem ekki haft af sjúkdómum að segja. Væri það ómaksins vert að fara í skóla til þessa fólks og læra af því, og þyrfti það á engan hátt að varpa skugga á tilraunir og rannsóknir vísindamanna okkar. Enn er það svo, að “reynslan er ólygnust”, og það er engum minnkun að því að hlíta úrskurði hennar.

Lærum af dýrunum
En dýrin eru líka börn náttúrunnar, a.m.k. þau, sem hafa ekki orðið þjónar mannsins á einn eða annan hátt. Og enda þótt “skynlaus skepnan” sé talin manninum óæðri, hefir hún þó eitt fram yfir okkur: Hún hefir varðveitt meðfædda eðlishvöt sína, en henni glatar maðurinn að verulegu leyti þegar á fyrstu mánuðum ævi sinnar.
Dýrin kunna að velja sér fæðu. Í náttúrlegu umhverfi er engin hætta á því, að þau leggi sér til munns eitruð matvæli, t.d. eitraða sveppi eða eitruð ber og ávexti. Á hinn bóginn kunna þau ekki að varast matvæli, sem maðurinn hefir bætt í bragð- og lyktarlausum eiturefnum í því skyni að útrýma meindýrum. Og dýr geta orðið sólgin í skaðleg efni, sem þau hafa yfirleitt ekki aðgang að í náttúrunni og hafa því ekki lært að varast. Má þar nefna áfengi og matarsalt. Dæmi eru til, að hænsni hámuðu í sig svo mikið af matarsalti, að þau biðu af því bráðan bana. Þó að þess séu dæmi, að dýr fari langar leiðir til að sleikja saltsteina við sjávarströnd eða sölt vötn, eiga villidýr yfirleitt hvergi aðgang að hreinu salti. Enda er nægilegt matarsalt “; klórnatríum “; í venjulegu fæði dýra og manna, hvort sem lifað er á dýrafæðu eða jurtafæðu. Þetta “salthungur” dýranna er því ekkert annað en einskonar nautnasýki, en stjórnast ekki af næringarþörf. Mannkynið hefir lifað án matarsalts, annars en þess, sem er í fæðunni, svo að segja allan þróunarferil sinn, og sumir jafnvel fram á þennan dag.

Hér á eftir skulum við nú fara í skóla til dýranna stundarkorn og minnast á nokkur atriði, sem við mættum gjarnan taka okkur til fyrirmyndar:

Hrámeti
Öll dýr eru hráætur. Það var maðurinn líka, unz hann lærði að nota eldinn fyrir um það bil hálfri milljón ára. Enginn bóndi mundi láta sér til hugar koma að fóðra búfénað sinn á soðnum mat, og það mundi vafalaust verða talið tilræði við alla kvikfjárrækt. Það er staðreynd, að menn með heilbrigða meltingu þola hráan mat eins vel og soðinn, og melta vel m.a. hrátt mjöl og aðra hráa jurtafæðu.
Hitun og suða eyðileggur alltaf einhver næringarverðmæti. Af ýmsum ástæðum er óhjákvæmilegt að hita eða sjóða sum matvæli, en mikil bót væri að því að auka neyzlu hrámetis.

Tilbreyting
Dýrin eta sama matinn dag eftir dag ævilangt, þar er engin matreiðsla, engir nýir réttir dag frá degi, og þau verða aldrei leið á matnum. Líkt má segja um mataræði frumstæðra þjóða fyrr og síðar.
Sú tilbreyting, sem nútímamaðurinn heimtar, stjórnast af vana og smekk, og er þar aðallega um að ræða breytilega matreiðslu, þó að hver máltíðin vilji verða annarri lík næringarlega séð.
Fjölbreytni í matarvali er góðra gjalda verð og nauðsynleg, en þó er auðvelt að lifa góðu lífi um langan aldur á aðeins fáum fæðutegundum, séu þær rétt valdar. Ljúffengir réttir vilja stuðla að ofáti með mörgum varhugaverðum verkunum þess á heilsuna.

Krydd
Dýrin nota ekkert krydd. Og á saltið var minnzt hér á undan. Til eru margar heilnæmar kryddjurtir, en annað venjulegt krydd, svo sem salt, pipar, sinnep o.s.frv., er meira og minna skaðlegt, auk þess sem það stuðlar að ofáti, og stundum felur það óbragð af skemmdum matvælum.

Tygging

Mjög er það misjafnt, hve mikið dýrin tyggja fæðu sína. Rándýrin rífa í sig bráð sína lítið tuggna. Og hvað manninn snertir, er ekki nauðsynlegt að tyggja kjöt eða fisk meira en svo, að auðvelt sé að kyngja því. Munnvatnið hefir engin áhrif á meltingu kjöts, þar koma til meltingarsafar magans fyrst og fremst. Hinsvegar er mjög þýðingarmikið að tyggja rækilega grænmeti og mjölmat. Og þar getum við tekið jórturdýrin til fyrirmyndar. En það er ein alvarlegasta næringarsynd okkar að gleypa matinn lítið eða ekki tugginn. Við það fer fæðan á mis við mikilsverð áhrif munnvatnsins á meltinguna, og af því leiðir margvíslegar meltingartruflanir og meltingarsjúkdóma.

Drekka með mat
Það gera dýrin ekki, jafnvel ekki húsdýrin, sem fóðruð eru með þurrkuðu heyi. Sá ávani að drekka með mat dregur úr eðlilegri tyggingu og framleiðslu munnvatns. Líkaminn þarf mikið vatn, en þess á að neyta á milli máltíða, og veitir ekki af einum til hálfum öðrum lítra á dag.

Hvíld eftir mat
Dýrin leggjast til hvíldar að lokinni máltíð. Þetta er einnig gamall siður víða um lönd, þ.e. eftir aðalmáltíð dagsins, miðdegisverðinn. Eftir stóra máltíð á maginn mikið starf fyrir höndum. Hann framleiðir nokkrar tegundir meltingarsafa, og ennfremur taka sterkir vöðvar hans til starfa til að blanda þessum vökvum saman við fæðuna og ýta henni rétta boðleið niður í gegnum neðra magaopið og niður í skeifugörn. Til þessa starfs er mikil blóðsókn nauðsynleg til magans, og raunar einnig til annarra meltingarfæra. Fer því bezt á því, að maður hvíli sig góða stund, því að líkamleg vinna dregur blóð til ytri vöðva, ef á þá er reynt, og að sama skapi minnkar blóðsóknin til innri líffæra, og hlýtur þetta að tefja meltingarstarfið.

Björn L. Jónsson 
Heilsuvernd 1. tbl. 1969, bls. 10-13

 

 

Related posts

Einföld ráð að hollari næringu og bættri heilsu

Lífræn ræktun – Framtíð okkar allra

Tyggjum matinn vel