Hvað segja nútíma vísindi um jurtaneyzlu?


Í grein í 1. hefti Heilsuverndar þessa árs um sögu jurtaneyzlunnar var tekið fram, að formælendur náttúrulækningastefnunnar teldu manninn jurtaætu frá náttúrunnar hendi og honum fyrir beztu að neyta ekki kjöts eða fisks.
Á hinn bóginn hafa margir jurtaneytendur eyðilagt heilsu sína með neyzlu einhæfra og skaðlegra matvæla og nautnalyfja, sem eru miklu hættulegri en hófleg kjöt- og fiskneyzla. Kjöt- og fiskbindindi út af fyrir sig er því engin lausn á vandamálinu um útrýmingu sjúkdóma, og enginn lætur sér til hugar koma, að neyzla þeirra matvæla verði lögð niður, a.m.k. ekki í náinni framtíð, þó að eitthvað kunni að draga úr henni. En eigi að síður er nauðsynlegt, að menn geri sér ljóst, að þessar fæðutegundir eru á engan hátt nauðsynlegar, eins og sumir virðast trúa, og að hver maður geti óhræddur horfið frá þeim með öllu án nokkurrar áhættu, ekki sízt ef einhvers er neytt af mjólkurmat. Þetta hefir reynsla þjóða víða um heim sannað, svo að ekki verður véfengt, og nýlegar rannsóknir staðfest. Verður hér á eftir sagt frá nokkrum athugunum frá síðari árum, og eru þær teknar úr grein eftir bandarískan lækni, Mervyn G. Hardinge að nafni, í “Journal of the American Dietetic Association” 1963 og 1964.

Það skal tekið fram, að margir óttast, að án kjöt- og fiskneyzlu sé hætta á, að líkaminn fái ekki nægilegt magn eggjahvítu. Varla þarf þó að geta þess, að með neyzlu mjólkur er sú hætta með öllu útilokuð.

Athuganir frá ýmsum löndum
Eftir síðari heimsstyrjöldina var matur mjög af skornum skammti í sumum Evrópulöndum, og þúsundir manna nærðust svo til eingöngu á kartöflum og kornmat og sultu heilu og hálfu hungri tímunum saman. Eigi að síður var mjög sjaldgæft að finna sjúklinga með einkenni um eggjahvítuskort, hvorki við venjulega skoðun eða blóðrannsóknir. Og þegar svo bar við, læknuðust þeir fljótt, ef þeir fengu nóg að borða af brauði og kartöflum. Og munaðarlaus börn, sem höfðu búið við sultarfæði, tóku góðum framförum á svo til hreinu jurtafæði, ef þau fengu nóg af brauði. Þótt það sé ekki tekið sérstaklega fram, hefir hér verið um ósigtað brauð að ræða, ekki hvítt brauð.

Íbúar Okinawa (eyja í Japan) lifa aðallega á jurtafæðu. Þeir eru frjósamir og verða langlífir. Krufningar gerðar á þeim í heimsstyrjöldinni síðari sýndu, að næringarsjúkdómar voru mjög sjaldgæfir þeirra á meðal.
Rannsóknir á rétti, sem var aðalfæða bænda í Norður-Kína fyrir stríð og samanstendur af hirsikorni, maís og sojabaunum, sýndi, að hann er mjög efnaauðugur.
Þá hafa athuganir verið gerðar meðal Indíána, sem búa á hásléttum í Mið-Mexíkó og lifa aðallega á maískökum, baunum og ýmsu grænmeti. Þar sáust mjög óvíða nokkur merki um næringarskort, offita var óþekkt og hár blóðþrýstingur mjög sjaldgæfur.

Á árunum 1950 og 1954 segir einn vísindamaður frá rækilegri rannsókn á íbúum sveitarfélags, sem neyttu alls ekki kjöts, og mjólkur af skornum skammti. Blóðrannsóknir sýndu ekkert athugavert, eggjahvíta í blóði var eðlileg, og heilsufar virtist í bezta lagi.

Sérstök rannsókn á þunguðum konum leiddi ekki í ljós neinn mun á næringarástandi þeirra, hvort heldur þær lifðu á venjulegu blönduðu fæði eða mjólkur- og jurtafæði með eggjum.

Tveir vísindamenn gerðu samanburð á þremur flokkum karla og kvenna. Einn hópurinn nærðist á almennu blönduðu fæði, annar á mjólkur- og jurtafæði með eggjum, hinn þriðji á hreinu jurtafæði. Ekki fundust nein merki um efnavöntun og enginn teljandi munur annar en sá, að í tveimur fyrrnefndu flokkunum var meðalþyngd 5 til 7 kg yfir meðallagi, en í hinum síðastnefnda 9 kg undir meðallagi.

B12-fjörefni og jurtaneyzla

Skortur á þessu fjörefni veldur sérstakri illkynjaðri tegund af blóðleysi. Meðal sjúkdómseinkenna má nefna dofa í höndum og fótum, sviða og sárindi í tungu, truflanir á tíðum hjá ungum konum, ýmsar taugatruflanir, verki og stirðleika í baki. Og með blóðrannsókn má fá staðfestingu á því, hvort um þennan sjúkdóm er að ræða eða ekki.

Fjörefnið B12 er að finna í ríkum mæli í kjötmat og sérstaklega í lifur. Ennfremur í mjólk, eggjum og geri. Áður en hægt var að framleiða það sem lyf, urðu sjúklingar að eta ókjörin öll af ósoðinni lifur, og var þetta lifrarát kvalræði hið mesta. Jurtaneytendum, sem nota mjólk, er ekki hætta búin af þessum sjúkdómi öðrum fremur. Og það hefir ekki verið sýnt fram á, að hann sé tíðari meðal jurtaneytenda en þeirra, sem lifa á venjulegu blönduðu fæði. Hinsvegar mætti ætla, að þeir, sem nærast á hreinni jurtafæðu, án mjólkur og eggja, ættu á hættu að sýkjast af skorti á B12, því að í matvælum úr jurtaríkinu er þetta fjörefni af skornum skammti. En líkaminn þarf mjög lítið af því, ekki nema um einn þúsundasta úr millígrammi á dag.
Fyrir nokkrum árum gerðu vísindamenn í Bandaríkjunum athugun á hópum manna í Englandi, Hollandi og Ameríku, sem lifðu á hreinu jurtafæði. Meðal Ameríkananna fundust engin merki um sjúkdóminn, en hjá sumum Hollendingunum og Englendingunum, enda virðist fæði þeirra ekki hafa verið eins fjölbreytt og hinna. Eftir þessu að dæma virðist hrein jurtafæða í hæfilegri fjölbreytni innihalda nægilegt magn af B12 til að koma í veg fyrir þennan hættulega sjúkdóm, og ýmsar aðrar athuganir benda til þess sama.

Jurtaneyzla, blóðfita og kransæðasjúkdómar
Fjölmargar athuganir hafa verið gerðar til samanburðar á blóðfitumagni, aðallega hinu svonefnda kólesteróli, og kransæðasjúkdómum meðal fólks, sem lifir annaðhvort á almennu blönduðu fæði, mjólkur- og jurtafæði eða hreinu jurtafæði. Ber flestum þessum athugunum saman um það, að blóðfita sé mest og kransæðasjúkdómar tíðastir hjá hinum fyrstnefndu, en sjaldgæfastir hjá hreinum jurtaneytendum.

Niðurstöður
Framangreindar athuganir virðast benda eindregið til þess, að hrein jurtafæða innihaldi öll þau næringarefni, sem mannslíkaminn þarf á að halda sér til vaxtar og viðhalds og til varðveizlu fullkominni heilbrigði, að sjálfsögðu með því skilyrði, sem gildir almennt um fæðuval, að fæðan sé rétt valin og nægilega fjölbreytt. Þeir sem neyta einnig mjólkur, með eða án eggja, þurfa enn síður að kvíða neinu um efnaskort.

Í framangreindri heimild er að lokum á það bent, að framleiðsla eggjahvítu og annarra matvæla úr jurtaríkinu krefst margfalt minna landrýmis heldur en framleiðsla kjöts og mjólkur, þannig að leysa mætti vandamálið um fæðuskort í heiminum að miklu leyti með því að nota jarðarafurðirnar í stórauknum mæli til manneldis í stað þess að nota þær sem skepnufóður og breyta þeim á þann veg í kjöt og mjólk.

Heilsuvernd 4. tbl. 1969 bls. 102-106, og 5. tbl. 1969 bls. 134-136


Árni Ásbjarnarson forstjóri: Hugleiðingar um starf og stefnu NLFÍ

Erindi flutt á fundi í NLFR 30. apríl 1969.

Það sem ég kem til með að segja í þessu stutta erindi, verða einskonar skriftamál: Viðhorf mitt til náttúrulækningastefnunnar, kynni mín af henni og hugmyndir um, hvaða verkefni hún muni fást við í framtíðinni.

Fyrstu kynni mín af náttúrulækningastefnunni

Það var á þorranum 1925, að bændanámskeið var haldið að Hólum í Hjaltadal, en þar var ég þá nemandi. Mörg erindi voru flutt þar af búnaðarfrömuðum og bændum, og er það ekki í frásögur færandi. En eitt erindi var flutt af Jónasi Kristjánssyni, þá héraðslækni á Sauðárkróki. Erindi Jónasar fjallaði um heilbrigða lifnaðarhætti og nauðsyn þess, að fólk hagaði lífi sínu þannig, að komið yrði í veg fyrir marga þá sjúkdóma, sem í vaxandi mæli þjökuðu þjóðinni. Kenning sú, sem Jónas læknir setti fram í þessu erindi, virtist koma ýmsum á óvart og varð til þess, að ýmsir hagorðir Skagfirðingar hleyptu skáldfáknum á sprett, og til urðu nokkrar snjallar vísur um hina nýju kenningu Jónasar. Þetta erindi var fyrstu kynni mín af hugsjón náttúrulækningamanna. Ég var tæpt tvítugur, þegar þetta gerðist, hafði þó kynnzt heilsuleysi óþarflega mikið, t.d. fengið lungnabólgu þrisvar og slæmt liðagigtarkast þar á eftir, en þarna var ég víst það vel frískur, að ég lét varnaðarorð Jónasar læknis sem vind um eyrun þjóta.

Svo liðu 22 ár, án þess að ég kynntist að ráði kenningum Jónasar. En sumarið 1947 fór Jónas, ásamt Birni L. Jónssyni og fleirum, í leiðangur norður og austur um land. Í fylgd með þeim var Ari Waerland, hinn sænski náttúrulækningafrömuður. Fluttu þeir erindi á ýmsum stöðum, þar á meðal á Siglufirði, en þar var ég þá búsettur. Hlýddum við hjónin á þá félaga og gengum síðar í Náttúrulækningafélag Siglufjarðar, sem var stofnað í september sama ár. Nokkru seinna fluttum við til Eyjafjarðar, og var ég félagi í Náttúrulækningafélagi Akureyrar, meðan við bjuggum í Kaupangi.

Stutt sjúkrasaga
Á þessum árum hafði gigtin sorfið að mér með vaxandi þjáningum og vanlíðan, eftir því sem árin liðu. Ég var hjá ýmsum læknum, sem auðvitað gerðu sitt bezta, en árangurinn varð enginn, ástand mitt hrörnaði.

Árið 1948 ákvað ég að breyta til um fæði og aðra lifnaðarhætti, eftir því sem ég taldi mér fært sem sveitabóndi norður í landi, og lifa að mestu leyti eftir kenningum náttúrulækningamanna.

Næstu árin gekk þó á ýmsu með heilsuna, enda þurfti ég mikið að leggja að mér, og erfiðleikar af ýmsu tagi steðjuðu að. Um skeið var ég kominn með magasár, og byrjuðu einkenni þess snögglega. Ég lá nokkrar vikur í sjúkrahúsi, án þess að sárið greri til fulls, dvaldi síðan um tíma í Heilsuhæli NLFÍ undir handleiðslu Jónasar Kristjánssonar. Varð þá mikil breyting á líðan minni, og eftir að ég flutti þangað alfarinn, hélt sá bati áfram. Gigtin hafði farið minnkandi ár frá ári, þrátt fyrir erfið búskaparstörf og húsabyggingar. Og síðastliðin 10 ár hefir heilsa mín í hvívetna farið batnandi.

Nú á árinu 1969 er ég sannarlega við góða heilsu, og þegar ég hugsa til alls hins fatlaða fólks í Heilsuhæli NLFÍ, með öll þau örkuml og alla þá hrörnun, sem það ber eftir gigt og annan krankleika, svipað því sem þjáði mig áður, hlýtur hugur minn að fyllast þakklæti til alls og allra, sem að því hafa stutt, að ég er nú laus úr þeim vítahring, sem langvinnir sjúkdómar skapa fórnarlömbum sínum.

Tilgangur minn með því að segja hér þessa sjúkrasögu er sá að gera ykkur ljóst, hvers vegna ég hefi fylkt mér undir merki náttúrulækningastefnunnar og er ákveðinn í að hvika ekki þaðan, á meðan líf endist.

Náttúrlegir lifnaðarhættir

Í hverju eru þá náttúrlegir lifnaðarhættir fólgnir? Ýmsir sem gagnrýna kenningar okkar telja, að allt snúist um mat hjá okkur, hin andlega hlið lífsins sé fyrir utan og ofan okkar sjóndeildarhring. Þetta er mikil rangtúlkun. Náttúrlegir lifnaðarhættir eru einmitt undirstaðan undir friðsamlegu og fögru lífi, þar sem bræðralagshugsjónin getur þrifizt. Og til sönnunar því, að þetta hefir frá öndverðu verið hugsjón frumherja náttúrulækningastefnunnar hér á landi, vil ég lesa kafla úr ávarpi Jónasar Kristjánssonar læknis til lesenda Heilsuverndar, sem hann ritar í fyrsta hefti hennar, er hún hóf göngu sína 1946. Þar segir orðrétt:

“Oss náttúrulækningamönnum er iðulega borið það á brýn, að starf vort sé trúboð. Þetta er sannara en þeir vita, er svo mæla. Náttúrulækningastefnan, eins og ég lít á hana, boðar trú á lífið og heilbrigðina, á andlega og líkamlega heilbrigði, jafnvægi og lífsgleði, en afneitar trúnni á sjúkdómana. Og ég trúi því, að þar sem ríkir friður og samræmi og heilbrigði, þar séu Guðs vegir.

Til þess að skapa heilbrigt og dugandi þjóðfélag, þarf andlega og líkamlega heilbrigða þegna. Undirstaða heilbrigðinnar er réttir lifnaðarhættir og rétt fræðsla. En heilsurækt og heilsuvernd þarf að byrja, áður en til sjúkdóma kemur, áður en menn verða veikir. Í þessu starfi þurfa allir hugsandi menn að taka þátt, allir góðir synir og dætur fósturjarðar vorrar verða að telja það sína helgustu skyldu að vernda heilsu sína ættjörðinni til handa. Og takmark allra þarf að vera það, að deyja frá betri heimi en þeir fæddust í.”

Þannig lýsir hinn mikli frumherji og mannvinur Jónas Kristjánsson þeim grunntóni sálar sinnar, sem veitti honum þann áhuga og þá lífsorku, er entist til að byggja óbrotgjarnan minnisvarða um líf hans og störf. Tökum aðeins til athugunar síðustu setninguna í þessu ávarpi Jónasar, að deyja frá betri heimi en við fæðumst í. Hvílíkur reginmunur yrði á lífi okkar og allra, sem með okkur eru á veginum, ef við gætum skilið, betur en við gerum, að mesta hamingja lífsins felst í því að hjálpa þeim, sem verr eru staddir en við, án þess að hugsa til annars endurgjalds en þess, sem í verknaðinum sjálfum felst og hlýtur því, samkvæmt óbreytanlegu lögmáli lífsins, að koma til okkar.

Mataræðið
En víkjum aftur að þeirri hlið náttúrulækningastefnunnar, sem að líkamanum snýr. Eins og “traustir skulu hornsteinar hárra sala”, þannig er nauðsynlegt, að hið dásamlega tæki, líkami okkar, njóti eðlilegs þroska og viðhalds, svo að hann geti sem bezt fullnægt því hlutverki sínu að vera bústaður sálarinnar og varðveita hana, að vera musteri Guðs neistans í okkur.

Viðvíkjandi ástandi þeirra matvæla, sem daglegt fæði okkar er gert úr, þá leggja náttúrulækningamenn mesta áherzlu á, að þau séu ný og sem mest í upprunalegu formi. Þess vegna er fyrst og fremst ráðizt gegn neyzlu sykurs, hvíts hveitis, ýmsra kryddefna, tóbaks, áfengis og annarra nautnalyfja.

Mikið er um það deilt, hvort við mennirnir eigum að neyta dýrafæðu, kjöts og fisks. Og um það atriði vil ég eyða nokkrum orðum. Svo lengi sem við neytum kjöts og fisks, verðum við að taka þátt í því að aflífa þau dýr, sem við notum til fæðu. Flest erum við alin upp við þann hugsunarhátt, sem fylgir því að taka þátt í drápi dýra. Og einmitt það, hvað við erum þessu vön, gerir það að verkum, að okkur finnst ekki mikið til um það. Ef lifnaðarhættir okkar breytast, þannig að við venjumst af að taka þátt í slíkum verknaði, þá mun flestum falla illa að vera viðstaddir aflífun dýra. Einmitt þetta finnst mér benda greinilega til þess, að það sé ekki upprunalegt eðli okkar að drepa dýr okkur til matar. Þá vil ég í þessu sambandi benda á, að dýradráp er það hroðalegur verknaður, að aðeins er stigsmunur á honum og því að taka þátt í manndrápum. Og drápstækin eru oft hin sömu eða svipuð, svo sem ýmis skotvopn. Ef við lítum nánar á þessa hlið málsins, þá finnst mér líklegt, að minnkandi dýradráp, og þar af leiðandi minnkandi neyzla kjöts og fisks, muni þegar fram líða stundir draga úr áhuga okkar mannanna á stríði, tortímingu og ótímabærum dauða meðbræðra okkar. Þetta atriði tel ég að skipti meginmáli, þegar um það er að ræða, hvort við mennirnir eigum í framtíðinni að lifa á dýrafæðu að einhverju leyti, eða jurtafæðu eingöngu.

Fólksfjölgun og matvælaframleiðsla
Ýmis fleiri atriði koma þó til greina og mæla með minnkandi neyzlu dýrafæðu, og vil ég víkja að tveimur.

Nú á tímum er mikið rætt um öra fólksfjölgun og þau vandamál, sem af henni muni stafa í framtíðinni, og helzta ráðið virðist vera í dag að stuðla að fækkandi barnsfæðingum. Þó virðist, að öllum eigi að vera það ljóst, að ekkert verður við slíkt ráðið hjá frumstæðum þjóðum. Slíkar ráðstafanir munu fyrst og fremst verða til þess að raska því hlutfalli, sem nú er á milli siðaðra og lítið siðaðra þjóðflokka, á þann veg að draga úr fjölgun hvíta kynstofnsins, og hljótum við hvítir menn að telja það óæskilega þróun.

Í öðru lagi vil ég benda á það, að eftir því sem húsdýrum og öðrum landdýrum fækkar við minnkaða kjötneyzlu, þá stækkar það ræktanlega land, sem nota má til matjurtaframleiðslu. Mun ekki fjarri lagi, að það land, sem þarf til að framfleyta einni sauðkind, nægi til matvælaframleiðslu handa einni mannveru, eða að tuttugu manns geti lifað af sömu landstærð, sem þarf til að framfleyta einum nautgrip. Í þessu sambandi skulum við muna jarðhitann á Íslandi og þá nær ótæmandi möguleika, sem hann gefur, varðandi matjurtarækt, hér á okkar kalda landi.

Ef við svo berum saman kostnaðarhliðina á hráefni í matinn, þá vil ég fullyrða, miðað við þá reynslu, sem fengin er í Heilsuhæli NLFÍ í Hveragerði, að jurtafæða er mun ódýrari, sé miðað við núverandi verðlag.

Stærsti áfanginn
Að þessum hugleiðingum loknum er ekki úr vegi að hyggja að þeim leiðum, sem Jónas Kristjánsson og aðrir frumherjar félagssamtaka okkar hugðust fara til að hafa áhrif á fólkið. Starfið átti að vera tvíþætt: Í fyrsta lagi fræðsla um heilsugæzlu og heilbrigða lifnaðarhætti og í öðru lagi að bæta heilsu þeirra, sem eru orðnir lasnir og bugaðir undan oki sjúkdóma og erfiðis.

Þegar við í dag lítum yfir gengin spor, hvort sem við afmörkum tímann við þau 47 ár, sem liðin eru frá því Jónas Kristjánsson hóf upp raust sína í Skagafirði um heilbrigðismál, eða miðum við 30 ár, sem liðin eru síðan Náttúrulækningafélag Íslands var stofnað í Reykjavík, þá hljótum við að viðurkenna, að ýmsu hefir þokað í rétta átt og að sú stefnubreyting á upptök í þeirri hrifningaröldu, sem reis fyrir áhrif Jónasar og samstarfsmanna hans. Bygging Heilsuhælis NLFÍ í Hveragerði er stærsti áfanginn í þessu starfi. Heilsuhælið var opnað í júlímánuði 1955 og hafði þá á að skipa 40 sjúkrarúmum. Síðan hefir uppbygging þess haldið áfram nær óslitið, árlega eitthvað byggt, og nú rúmar það 110-120 sjúklinga. Þótt telja megi, að hælið sé nú fullbyggt, þá eru enn, og munu verða, ýmsar óskir um breytingar og endurbætur. Í því sambandi má geta þess, að í ár er verið að undirbúa byggingu nýrrar sjúkraþjálfunardeildar, þar sem núverandi húsnæði deildarinnar er orðið of þröngt og ófullkomið.

Óhætt mun að segja, að rekstur heilsuhælisins hafi gefizt svo vel, að æskilegt hljóti að teljast, að Náttúrulækningafélag Íslands haldi áfram á þeirri braut að hjálpa sjúkum til heilbrigði. Komið gæti til mála bygging fleiri heilsuhæla, því að alltaf virðist vanta rúm fyrir þá sjúku, en það er ekki talið æskilegt að stækka heilsuhælið í Hveragerði frá því sem nú er. Hætt er við, að slíkar stofnanir verði minna heimilislegar, ef þær eru stærri en góðu hófi gegnir. Hinsvegar verða þær að ná þeirri stærð, að hagkvæmur rekstur fáist, og heilsuhælið í Hveragerði virðist einmitt vera af þeirri stærð.

Eins og ég minntist á áður, þá hugsuðu frumherjar náttúrulækningastefnunnar sér, að sótt yrði fram eftir tveimur leiðum, sem þó má segja, að hljóti alltaf að fara saman að nokkru leyti: Leið fræðslu og leið lækninga. Starf heilsuhælisins hefir fyrst og fremst verið lækningastarf, þó að alltaf hafi verið leitazt við að halda þar uppi nokkurri fræðslustarfsemi, með erindaflutningi, bæði af starfandi læknum hælisins og einnig ýmsum gestum, sem þangað hafa komið. Einnig hefir Náttúrulækningafélag Íslands gefið út nokkrar fræðandi bækur og tímaritið heilsuvernd sem komið hefir út fjórum og síðar sex sinnum á ári síðan 1946.

Ný verkefni

Eins og að líkum lætur, er meiri hluti þeirra sjúklinga, sem í heilsuhælinu dvelja, fólk fyrir ofan miðjan aldur, og því ekki lengur áhrifamikið um uppeldismál þjóðarinnar. Ef fræðsla okkar um heilbrigði og náttúrlega lifnaðarhætti á að koma að góðu gagni, þarf hún að ná til æskunnar og ungra foreldra og annarra, sem við barnauppeldi fást. Bezta aðstöðu til þess tel ég okkur fá með því að koma á fót og reka barnaheimili. Finnst mér að Náttúrulækningafélag Íslands eða Náttúrulækningafélag Reykjavíkur eigi að setja sér það mark að koma upp slíkri stofnun á næstunni. Við höfum innan vébanda okkar fólk með sérþekkingu í uppeldismálum, í heilbrigðismálum, í íþróttum o.fl. Þessi öfl þurfum við að virkja og skapa þeim starfsskilyrði á þeim leiðum, sem við viljum fara. Æskulýðsstarfsemi okkar þarf að vera framkvæmd sem raunhæf mannbótastarfsemi, þar sem engum eðlisþætti sálar eða líkama mannsins sé gleymt. Við viljum ala upp líkamlega hraust og fallegt fólk, í umhverfi sem mótar ungar sálir jákvæðum hugsunum, gleði og kærleika.

Ég hugsa mér, að okkar fyrsta barnaheimili yrði valinn staður í fögru og hentugu umhverfi sunnanlands, ef til vill aðeins sem sumardvalarheimili fyrst í stað. Ef rekstur þess gengi vel, yrði síðar komið upp fleiri slíkum og þá í öðrum landshlutum, og félagsdeildum NLFÍ falinn rekstur þeirra. Ég hefi trú á því, að þetta viðfangsefni muni hleypa fjöri í félagsstarfsemina, um leið og það kemur þjóðinni allri að gagni. Stofnun svona heimilis eða heimila kostar að vísu mikið fé, en ég kvíði engu um öflun þess. Við eigum innan félagssamtaka okkar margt af efnalega vel stæðu fólki, sem leggja mun fram fjárhagslega aðstoð. Við sem málefnin leiðum verðum að leggja okkur betur fram en við höfum gert, til að skapa trú fjöldans á það, sem við erum að gera. Það er ekki nóg að vera skráður félagi og greiða félagsgjaldið skilvíslega, þótt það sé að vísu góðra gjalda vert. Við þurfum að hafa þrek og þor til að segja skilið við neikvæðar venjur tíðarandans, þrek og þor til að lifa sjálf kenningar okkar meira og almennara en við gerum nú. Upphaflega var hugsjón félags okkar byggð á bjartsýni og trú á sigur hins góða. Gerum tilraun til að endurvekja þann eldmóð, og byggjum vonir okkar og framkvæmdir á því leiðarljósi, þá mun okkur vel farnast.

Björn L. Jónsson 
Heilsuvernd 3. tbl. 1969, bls. 70-73

Related posts

Tyggjum matinn vel

Góð heilsa alla ævi án öfga

Getum við fengið árið 1983 aftur?