Sex ár á Heilsu„hælinu“ – Reynslusaga

Undanfarin sex ár hefur undirritaður starfað sem næringarfræðingur á Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands í Hveragerði. Ég nefni það Heilsuhælið, eins og það hét lengi framan af.
Þetta starf er líklega með þeim erfiðari, en um leið mest gefandi ,störfum sem ég hef sinnt síðan ég byrjaði að bera út Morgunblaðið 11 ára gamall.
Frá því að ég var ungur drengur hef ég haft áhuga á næringu og heilsu en störf mín á Heilsustofnun hafa aukið enn frekar áhuga minn. Mig langar að deila með ykkur lesendum því sem ég hef lært á þessum árum og vona að það vekji ykkur til umhugsunar um mikilvægi heilsu okkar.

Á þessum sex árum hef ég séð ótrúlega mörg afbrigði sjúkdóma, frá sykursýki upp í fjölblöðrueggjastokkaheilkenni (PolyCystic Ovary Syndrome/ PCOS). Algengustu sjúkdómarnir eru lífsstílssjúkdómar, s.s. offita, háþrýstingur, sykursýki, stoðkerfisvandamál, geðrænir sjúkdómar og hjarta- og æðasjúkdómar. Um 80% af öllum mínum skjólstæðingum hafa viljað fá leiðbeiningar um það hvernig þeir geti lést líkamlega (margir  þeirra höfðu reyndar líka þörf á því að létta sig andlega).

Ég hef haldið hundruð heilsu- og næringarfyrirlestra á þessum árum og leiðbeint þúsundum einstaklinga með mataræði sitt og lífsstíl. Í næringarráðgjöf á Heilsustofnun hafa komið til mín karlmenn og kvenmenn á aldrinum 18-94 ára, úr öllum landshlutum og stéttum, ríkir og fátækir þannig að ég tel mig hafa nokkuð góða mynd af Íslendingum  (þó auðvitað hafi ég ekki hitt allar 350.000 sálirnar).

Eftir kynni mín af þessum einstaklingum sem hafa komið til mín til að bæta heilsu sína langar mig að deila með ykkur nokkrum atriðum. Þau getur hinn venjulegi Íslendingur nýtt sér til að bæta heilsu sína dagsdaglega án einhverra öfga. Mörg þessara atriða hafið þið heyrt oft áður og þúsundir vísindarannsókna geta líka bakkað þetta upp en góð vísa er aldrei of oft kveðin.

Takmarkið gosdrykki og orkudrykki (sykurdrykki og sykurlausa) eins mikið og þið getið
Ég var lítið fyrir gosdrykki áður en ég hóf störf á Heilsustofnun en hef elfst mikið í andstöðunni, jafnvel svo mikið að sumir eru farnir að kalla mig fasista í þeim efnum. En eftir að hafa horft upp á fjöldann allan af mínum skjólstæðingum stuðla að enn verri heilsu með sinni með gosdrykkjaþambi hef ég algjörlega sannfærst um að þetta séu með verstu drykkjum sem við getum innbyrt. Annað hvort eru þeir óhóflega mettaðir af viðbættum sykri (oft 26 sykurmolar í 500 ml) eða með gervisætuefni sem líkaminn þekkir illa. Ég hef t.d. fengið til mín of margar ungar konur (aðallega), milli 20-50 ára, sem margar hverjar drekka daglega nokkra lítra (1-4L) af sykurlausum gosdrykkjum  en eru samt velflestar að berjast við aukakíló (oft í tugatali) og marga aðra heilsukvilla!

Heilsan hefst á unga aldri – Gætum að heilsu barna okkar
Í næringarráðgjöf þegar ég spyr fólk um heilsuna, lífsstílinn og venjur koma alltof oft upp gömul vandamál sem eiga sér uppruna í uppvexti viðkomandi. Alltof margir skjólstæðinga minna á Heilsustofnun byrjuðu að þróa með sér sjúkdóma og slæmar matarvenjur á unga aldri sem hafa m.a. leitt til átröskunar, matarfíknar og offitu.

Ekki fara á megrunarkúr – ALDREI
Þetta hafa allir landsmenn heyrt nokkrum sinnum en nú er kominn tími til að hlusta. Af öllum þeim þúsundum skjólstæðinga sem ég hef hitt á undanförnum sex árum hefur ENGINN komið til mín sem náði að viðhalda þyngdartapi eftir megrunarkúr, alveg sama hvaða nöfnum þeir heita. Fólk er jú duglegt að ná af sér þyngdinni á kúrunum en enginn þeirra virðist duga til að halda þyngdartapinu (enda eru þeir svo öfgakenndir), því það gleymist að koma inn góðum lífsstílsvenjum.

Lærðu grunnatriði næringarfræði
Við lifum í miklu upplýsinga- og markaðssamfélagi og það sérstaklega þegar kemur að næringu og heilsu. En því miður er næringafræðileg grunnþekking alltof margra sem ég hitti mjög stopul. Fólk vill fræðast um föstur, bætiefni og alls kyns kúra en gerir sér oft litla grein fyrir því hvað fjölbreytt og næringarríkt fæði er gott fyrir það og heilsu þess. Alltof margir eru farnir að útiloka úr mataræði sínu næringarríkar vörur eins og grófkorna vörur, ávexti, mjólkurvörur og jafnvel kjöt eftir að hafa farið á einn fyrirlestur hjá nýjasta heilsu“gúrúnum“ eða lesið bókina hans. Ósjaldan glymur hæst í tómri tunnu þegar kemur að réttum upplýsingum í næringarfræði. Gamli heimilsfræðikennarinn minn úr grunnskóla hafði betri þekkingu á gildi góðrar og fjölbreyttar fæðu en margir höfundar megrunar- og heilsubóka nútímans.

Þú kaupir ekki góða heilsu
Til mín í næringar- og heilsuráðgjöf hafa komið bæði mjög ríkir einstaklingar og einnig virkilega fátækt fólk. En ég hef ekki getað séð að þeir ríku eigi eitthvað við minni heilsufarsleg vandamál að stríða. Því það er margsannað að þú getur keypt ýmis veraldleg gæði en þú kaupir ekki hamingju, ást eða góða heilsu.
Þessu atriði tengt reyna einnig margir að kaupa sér betri heilsu í formi hinna ýmsu „töfra“bætiefna. En heilsan fæst ekki  með notkun á mýgrút á næringu í formi pilla eða dufts, það hef ég margsinnis séð í minni ráðgjöf.

Minnkum notkun lyfseðilsskyldra lyfja (í samráði við lækni okkar)
Lyfjakokteilar of margra minna skjólstæðinga eru stjarnfræðilega stórir. Með þessu atriði er ég einnig að biðla til lækna landsins að huga að því að hvetja skjóstæðinga sína til að betrumbæta lífsstíl sinn með hollara mataræði, meiri hreyfingu, andlegri næringu og meiri gæðasvefni í stað þess að ávísa bara lyfjum til að halda niðri einkennum slæmra lífshátta.

Sigraðu sjálfa/n þig
Allar mannverur eru ótrúleg kraftaverk en jafnframt gallagripir að einhverju leyti. Við höfum öll okkar kosti og ókosti, enginn er fullkominn eða alheilbrigður. Gerum aldrei þá skyssu að bera okkur saman við einhverja aðra þegar kemur að heilsu, sigrum okkur sjálf, hugum vel að okkar eigin garði  og verum besta útgáfan af okkur sjálfum. Það mun koma hinum venjulega borgara mjög á óvart hversu miklir gallagripir margar af þeim fyrirmyndum sem fók ber sig saman við eru.

Hafðu hægðir reglulega
Hægðarvandamál eru ótrúlega algeng en alltof fáir þora að tala um þau. Að hafa hægðir einu sinni á dag er merki um góða meltingu, ekki of harðar eða linar. Alltof margir af mínum skjólstæðngum eru með hægðavandamál sem fylgja oft mjög slæmum lífsháttum með lélegu fæði, ónægum vökva, lítilli hreyfingu, svefnleysi og næstum alltaf andlegu álagi og stressi. Þannig að ef að lífsstíllinn er í góðu lagi sést það vel á hægðunum.

Stundaðu jóga
Nýlega kom til mín háaldraður maður og  ég spurði hann hverju hann þakkaði langlífið og heilsuna. Hann sagði „með því að stunda jóga.“ Þetta er eitthvað sem allir landsmenn mættu taka til sín frá þessum háaldraða snillingi, enda er jóga frábær íþrótt fyrir líkama og sál.

Öll þessi atriði hér að ofan reyni ég að tileinka mér á hverjum einasta degi. Það er von mín að þið Íslendingar lærið líka af minni reynslu, „því ef þú hefur ekki tíma fyrir heilsuna í dag, þá hefur heilsan ekki tíma fyrir þig á morgun.“
Það hefði frábært forvarnargildi ef ég gæti boðið Íslendingum að sitja og horfa á næringarráðgjöf í nokkra tíma á dag og lært þannig um heilsusamlegra líferni.  Það hefði þúsund sinnum betra forvarnargildi að gera raunveruleikasjónvarpsefni úr næringarráðgjöf á Hælinu en að framleiða enn eina seríu af Biggest Loser.

Að lokum vill ég þakka öllum skjólstæðingum mínum og starfsfólki Heilsustofnunar innilega fyrir undanfarin  sex ár, þau hafa verið bæði ánægjuleg og lærdómsrík.

Geir Gunnar Markússon
ritstjori@nlfi.is

Related posts

Forvarnir okkar eru að falla – Fljótum sofandi að feigðarósi

Villtir matsveppir á Íslandi – Sveppamó

Sterkur matur getur aukið lífslíkur

3 Ummæli

Eggert Kristinsson 10. febrúar, 2019 - 10:39

Frábær grein ,sem getur hjálpað fjölda mans við að borða hollan mat og hreinan ,sikur og mikið unnin matur er að fara með heilsu fólks . Takk fyrir þessa grein . Geir Gunnar

Kristin Steingrimsdottir 10. febrúar, 2019 - 12:33

Mjög god grein. Kærar þakkir?

Sigríður Gunnarsdóttir 10. febrúar, 2019 - 14:45

Ég myndi segja: Borðum franskan sælkeramat til að grennast og vera við góða heilsu. Franskur matur er svo góður að engum dettur í hug að vera í snakkáti á milli mála. Frakkar borða best af Evrópubúum, eru grennsta þjóð Evrópu, og hafa ekkert fyrir því.

Comments are closed.

Add Comment