Umræðan um viðbættan sykur í mataræði okkar og skaðsemi hans í miklu magni, hefur verið hávær undanfarin ár. Ófáir fyrirlestrar og ráðstefnur hafa verið haldnar og fjöldinn allur af greinum hefur verið skrifaður um óhóflega sykurneyslu.
Það sem fáir vita er að þessi umræða, og ráðleggingar um minni sykurneyslu er síður en svo ný af nálinni. Einn helsti frumkvöðull heilsueflingar á Íslandi og einn af stofnendum Náttúrulækningafélags Íslands; Jónas Kristjánsson læknir, hafði sig mikið í frammi um óhollustu viðbætta sykursins.
Því miður er ekki hægt að vera vitur eftir á en það væri óskandi að hlustað hefði verið betur á Jónas og ráðleggingar hans um minna sykurát.
Eitt er víst að við höfum meðtekið boðskap hans um skaðsemi reykinga en hvað ætli það taki langan tíma fyrir okkur (stjórnvöld, matvælaframleiðendur og neytendur) að átta okkur á því hversu mikill skaðvaldur viðbætti sykurinn er í mataræði okkar?
Jónas Kristjánsson fæddist fyrir 143 árum en sjaldan eða aldrei hefur boðskapur hans um skaðsemi viðbætts sykurs verið mikilvægri með aukinni offitu, sykursýki og skyndibitamat. Neysla okkar á viðbættum sykri er gríðarleg vegna óhóflegrar gosneyslu og mikillar neyslu á unnum matvörum.
Hér eru nokkur dæmi um það sem Jónas skrifaði um sykur og óheilbrigða lifnaðarhætti. Þessi skrif hans eru enn í fullu gildi en nú er kominn tími til að við förum að hlusta á boðskapinn og fylgja honum, því ekki er vanþörf á.
„ Margir læknar telja hina miklu sykurnautn orsökina til sykursýki, og færa það til að sykursýkin hefur vaxið hlutfallslega við sykurnautina. Það munu margir hafa veitt því eftirtekt, að ef þeir neyta meiri sykurs eða sætinda í eitt skifti en annað, þá missa þeir matarlyst, ennfremur að kaupstaðarbörn sem borða mikið af brjóstsykri og öðrum sætindum eru föl, veikluleg og blóðlítil. Foreldrar þeirra kvarta jafnan um að þau sjeu ónýt að borða.“
Fyrirlestur Jónasar Kristjánssonar um lifnaðarhætti og heilsufar fluttur 10. mars 1923. Seinni hluti.
Sjá erindið hér: https://nlfi.is/fyrirlestur-jonasar-laeknis-kristjanssonar-um-lifnadarhaetti-og-heilsufar-seinni-hluti#sthash.NoobDhW7.dpuf
Þessi fyrirlestur var fluttur fyrir 90 árum! Hvað ætli Jónas segði um óhófið í sælgætisneyslunni sem á sér stað á nammidögum á Íslandi í dag? Börn og unglingar eru að neyta mjög óhóflegs magns af sælgæti á nammidögum. Því er mikil þörf á að við Íslendingar tökum þessa nammidaga til endurskoðunar. Þegar mikils magns af sælgæti er neytt er síður pláss fyrir holla og næringarríka fæðu, sem börn og unglingar hafa mikla þörf fyrir.
„Þetta talar sínu máli um orsakir hrörnunar og úrkynjunar. Og meðan vér ekki snúum oss að því að útrýma þeim (hrörnarsjúkdómunum), erum vér að berjast við sjálfa oss, eyðileggja með vinstri hendinni, þar sem hin hægri vinnur. Þetta gerum vér með því að berjast við afleiðingar einar, en höldum jafnframt áfram að framleiða orsakirnar. Vér höldum áfram neyzlu dauðrar og deyðandi fæðu, byrlum oss eitur með tóbaki, áfengi, kaffi, coca-cola o.s.frv., og svo taka sjúkrahúsin og læknarnir við þeim, sem falla óvígir í valinn, en ekkert er hirt um að koma í veg fyrir, að leikurinn endurtaki sig. Með slíkum starfsaðferðum er það gefinn hlutur, að hrörnunarsjúkdómarnir vaxa eins og til þeirra væri sáð. Hve lengi á þetta svo til að ganga? Hvernig verður heilsufar þjóðarinnar eftir 50 eða 100 ár með sama áframhaldi niður á við, og verið hefir frá því t.d. um 1890, þegar sykursýki, botnlangabólga og skjaldkirtilbólga þekktust varla eða ekki og krabbamein, heilablóðfall, hjartasjúkdómar, tannveiki og ýmsir aðrir hrörnunarsjúkdómar voru hlutfallslega miklu fátíðari en nú? Mér ægir við að hugsa þá hugsun til enda.“
Þessi grein birtist í 4. tbl. Heilsuverndar 1948.
Sjá greinina hér: https://nlfi.is/litid-um-oxl-og-fram-a-leid#sthash.fCF3E3q4.dpuf
Jónas hefur greinilega verið mikill hugsjónamaður í lækningum og hugsað hlutina til enda. Oft hefur vantað í læknastéttina að menn hugsi um forvarnir en ekki bara að lækna sjúkdóma. Það væri áhugavert ef Jónas væri uppi núna og yrði vitni að því hvað hrönunarsjúkdómar (lífsstílssjúkdómar) hafa aukist. Lífsstílssjúkdómarnir eru það helsta sem heilbrigðiskerfið þarf að kljást við á okkar tímum, og þeir munu bara aukast nema við förum að breyta háttum okkar.
„Fullkomin heilbrigði verður ekki fengin með byggingu fleiri og stærri sjúkrahúsa, og ekki með lyfjaáti, heldur með því einu að gera mönnum kleift að lifa heilbrigðu lífi og varðveita náttúrlega heilbrigði, og til þess er sterkasta vopnið og meginþátturinn náttúrleg og lifandi fæða. En mikið af þeim matvörum, sem fluttar eru landsmönnum, eru með þeim annmarka að skapa sjúkdóma, frekar en heilbrigði. Svo er um hvítt hveiti, hvítan sykur og hvít hrísgrjón, ennfremur eitraðar nautnavörur, svo sem áfengi, tóbak, kaffi, sælgætisvörur og kólavörur. Sala á þessum vörum er bein og óbein sjúkdómaræktun. Líkt má segja um gervifæðutegundir og niðursuðuvörur. Sannarlega lýsir það mikilli vanþekkingu, að ekki skuli vera meira eftirlit haft með hollustusemi þeirrar matvöru, sem börnum lands vors er fengin til neyzlu.“
Þessi grein birtist í 1. tbl. Heilsuverndar 1951.
Sjá greinina hér: https://nlfi.is/hversvegna-vaxa-hrornunarkvillar#sthash.XZcxE3dz.dpuf
Enn og aftur sýnir Jónas hvað hann er langt á undan sinni samtíð í ráðleggingum til bættrar lýðheilsu.
„Vér höfum verið á refilstigum sjúkdómsræktar. Þaðan verðum vér að hverfa. Þessvegna segjum vér: Burt með allt, sem veldur sjúkdómum og vanheilsu. Burt með orsakirnar. Burt með hvíta hveitið og hvíta sykurinn, sem hafa valdið oss meira tjóni á heilsu og efnahag en nokkur harðindi eða hafísar á jafnlöngum tíma. Burt með sætindin, sem ræna börnin heilsunni þegar á fyrstu aldursárum. Burt með áfengið, tóbakið, kóka-kóla og kaffi, að ógleymdum læknislyfjunum, sem flest eru gagnslaus, auk þess að vera beinlínis skaðleg.“
Þessi grein birtist í 1. tbl. Heilsuverndar 1951.
Sjá greinina hér: https://nlfi.is/a-refilstigum#sthash.mm3xaatC.dpuf
Jónas er harðorður í þessum pistli en hefur líklega þurft að vera það til að vekja athygli á málstað sínum.
„Sjúkdómar eins og tannskemmdir og tregar hægðir eru orðnir svo tíðir, að nærri liggur, að hætt sé að líta á þá sem sjúkdóma, heldur sem eðlilegt ástand. En báðir þessir kvillar eru sýnilegir vottar sjúklegra breytinga, sem verða hvarvetna í líkamanum og stafa aðallega af óhollu fæði og skaðlegum lífsvenjum. Og víst er það, að ónáttúrlegar og skemmdar fæðutegundir eins og hvítt hveiti, eiturblásið og svipt öllum beztu efnum sínum, er og verður aldrei annað en óhæf matvara, hversu glæst og ginnandi sem hún er gerð. Sama er að segja um verksmiðjusykur og sælgæti framleitt úr honum. Ætti að banna með öllu innflutning og sölu á slíkum skaðræðisvörum, sem stórspilla heilsu barnanna.“
Þessi grein birtist í 3. tbl. Heilsuverndar 1951.
Sjá greinina hér: https://nlfi.is/hvernig-verda-sjukdomar-umflunir#sthash.EEFnNQ38.dpuf
Hérna sendir Jónas yfirvöldum sneið og vill að þau beiti sér fyrir því að takmarka innflutning á sætindum. Matvælaframleiðendur og innflytjendur hafa heilmikið um það segja hversu hollur sá matur er sem við neytum. Þeir markaðssetja gervimat sem er síður en svo góð næring fyrir okkur eða börnin okkar.
„Nú er svo komið að því nær öll fæða, sem mönnum er gefin, er ekki aðeins óholl, heldur fæða sem beinlínis framkallar sjúkdóma. Nú er svo komið hér á Íslandi að mikill hluti aðfluttrar fæðu er svipt mestöllum lífefnum. Þannig er það með hið hvíta hveiti, hvíta sykurinn og allar sætinda vörur, hrísgrjónin eru svipt hýði sínu og völsuð hafragrjónin eru svipt sínum beztu efnum. Þau eru eldhituð til þess að drepa kímið og ná í burtu fitunni sem er fyrsta næring kímsins þegar það spírar, þannig er þessi fæðutegund svipt öllum sínum beztu kostum og lítils virði sem fæðutegund.
Sætindaframleiðslan hefur tekið geysilegum vexti, þessi sætindi eru steindauð og stórlega heilsuspillandi, sjúkdómarnir koma að vísu ekki strax í ljós, en þeir koma fram síðar, svo sem sykursýki, meltingartruflanir, magasár, tregar hægðir. Og þeir menn, sem neyta mikið sætinda á æskuárunum eiga eftir að taka út syndagjöldin þó síðar verði, það er ómögulegt að sleppa undan því“.
Þessi grein birtist í 2. tbl. Heilsuverndar árið 1958.
Sjá greinina hér: https://nlfi.is/natturulaekningar-eru-heilsuraektunarstefna#sthash.wXaC7nHq.dpuf
Jónas kemur með frábæra ábendingu í lok þessa pistils. Óhollt mataræði mun alltaf ná í skottið á okkur á endanum. Óhollt mataræði hefur ekki áhrif í dag eða á morgun en við munum þurfa að borga fyrir það eftir ár eða áratugi.
Við hvetjum lesendur til að slá inn leitarorðið; Jónas Kristjánsson eða sykur á síðunni okkar www.nlfi.is , til að fræðast enn frekar um skaðsemi óhóflegrar sykurneyslu. NLFÍ hefur m.a. haldið málþing um sykur, þar voru flutt erindi sem eiga alltaf við.
Skrifað af Geir Gunnari Markússyni ritstjóra NLFÍ ritstjori@nlfi.is