Hvernig verða sjúkdómar umflúnir?

Það er einkennilegt og jafnvel hjákátlegt, hvað vér berum oft lítið skyn á þau störf, sem vér vinnum daglega. Þannig neytum vér fæðu oft á dag um marga tugi ára án þess að vita, hvað líkamanum er hollast. Vér, sem köllum oss homo sapiens, hinn vitra mann, og jafnvel þeir af oss, sem teljast bezt menntaðir og vitrastir, kunna ekki það, sem hver önnur skepna jarðarinnar kann, að velja sér þá fæðu, sem bezt er fallin til að varðveita dýrmætasta sjóð lífsins, heilsuna.

Hinar vestrænu þjóðir eru krankfelldustu verur jarðar. Um þær má segja með fullum rétti, að þær rækta sjúkdóma. Er það ekki veikleikamerki fremur en þroskamerki? Læknisfræðin hefir tekið feikna framförum síðasta mannsaldurinn. Læknum, sérfræðingum og sjúkrahúsum fjölgar. En sjúkdómum og sjúklingum fjölgar að sama skapi. Árlega bætast við ný lyf. Vér Íslendingar kaupum árlega lyf fyrir milljónir króna. En „cui bono“? Hverjum til gagns? Svar: Helzt þeim, sem lyfin framleiða og selja. En reynslan er stöðugt að sanna betur og betur, að heilsan verður ekki keypt í lyfjaglösum. Þau geyma ekki þá töfra, sem menn hafa trúað og trúa enn á, þrátt fyrir öll vonbrigði.

Suma menn hefir lengi órað fyrir því, og nú fyrst á 20. öld má það teljast sannað og almennt viðurkennt, þótt ekki sé farið eftir því, að heilnæm og náttúrleg og lifandi fæða ræður mestu um heilsu manna, meira en öll lyf veraldarinnar. Fyrir nærfellt hálfum þriðja tug alda voru uppi menn, sem sögðu, að náttúrleg fæða sé ykkar lyf, og ykkar lyf sé náttúrleg og lifandi næring. Læknar vitna í þessi spakmæli, en þeir hvorki lifa né breyta eftir þeim.

Fyrir einni öld fann þýzkur vísindamaður, Liebig, aðferð til þess að ákveða næringargildi fæðutegunda með því að mæla hitaframleiðslu þeirra, er þær voru brenndar. Þá og lengi síðan voru gerðar þær kröfur til hollrar fæðu, að hún hefði mikið næringargildi (hitaeiningar), skilaði litlum úrgangi og meltist helzt upp til agna. Eftir þessum kenningum voru kjöt, egg, feitmeti, sykur og fínt hveitimjöl kröftugar og hollar fæðutegundir, en grænmeti, kartöflur og aldin fremur lélegar manneldisvörur.

Nú hefir reynslan sýnt, að þessi mælikvarði er hvorki réttur né nákvæmur. Það er lífsorka eða sólarorka fæðunnar og magn hennar af steinefnum og fjörefnum, sem hefir mesta þýðingu, en ekki hitaorka hennar.

Hver dýrategund velur sér af eðlishvöt þá fæðu, sem henni er hollust. Ljónið, tígrisdýrið, kötturinn, úlfurinn og hundurinn eru kjötætur. Þessi dýr hafa stutta ristla og stutta þarma, svo að úrgangsefnin hafa þar skamma viðdvöl. Að öðrum kosti mundi verða þar svo mikil rotnun, að þau yrðu aldauða. Hinsvegar eru hesturinn, kýrin, kindin og svínið jurtaætur. Þarmar þeirra og ristill eru langir til þess að ná sem mestri næringu úr jurtafæðunni, en í hana kemur ekki rotnun. Hestur með meðalþungan mann á baki getur uppgefið ljón á fáum klukkutímum, og á honum getum við ferðast 100 til 120 km á dag. Engum hestamanni mundi koma til hugar að ala hestinn sinn á kjöti eða fiski til þess að auka þol hans og styrk.

Maðurinn er upphaflega jurtaæta eins og m.a. má marka á því, að hann hefir langa þarma og langan ristil. En hann hefir gert sig að alætu og um leið að krankfelldasta dýri jarðar. Það er oft vitnað í Eskimóa. Þeir hafa lifað aðallega á dýrafæðu, en þeir ná heldur ekki nema hálfum aldri og naumast það. Á fimmtugs aldri eru þeir orðnir örvasa gamalmenni.

Sjúkdómar eins og tannskemmdir og tregar hægðir eru orðnir svo tíðir, að nærri liggur, að hætt sé að líta á þá sem sjúkdóma, heldur sem eðlilegt ástand. En báðir þessir kvillar eru sýnilegir vottar sjúklegra breytinga, sem verða hvarvetna í líkamanum og stafa aðallega af óhollu fæði og skaðlegum lífsvenjum. Og víst er það, að ónáttúrlegar og skemmdar fæðutegundir eins og hvítt hveiti, eiturblásið og svipt öllum beztu efnum sínum, er og verður aldrei annað en óhæf matvara, hversu glæst og ginnandi sem hún er gerð. Sama er að segja um verksmiðjusykur og sælgæti framleitt úr honum. Ætti að banna með öllu innflutning og sölu á slíkum skaðræðisvörum, sem stórspilla heilsu barnanna.

Yfirleitt er alþýðu manna og jafnvel læknum of ókunnugt um kosti hráfæðis úr jurtaríkinu og skaðlegar verkanir margra algengra matvæla. Það er fullvíst, að ósoðin og náttúrleg jurtafæða kemur í veg fyrir flesta hina svokölluðu hrörnunarsjúkdóma og skapar mönnum aukið vinnuþol og betri heilsu. Með þessu er þó ekki sagt, að menn geti ekki sér að skaðlausu neytt í hófi vægt soðinnar fæðu. Og á ósoðinni jurtafæðu með mjólk einni úr dýraríkinu geta menn lifað sældarlífi og sjúkdómalausir.

Eg gat þess áðan, að hitaeiningar væru ekki hinn rétti mælikvarði á fæðuþörfina. Og það er þegar sannað, að af ósoðinni jurtafæðu þurfa menn og dýr minna að borða en ef neytt er soðinnar fæðu. Hér segir frá einni tilraun, sem dr. E. Friedberger í Berlín gerði. Hann tók allmargar rottur, jafnar að aldri og jafnþungar, 20 gr., skipti þeim í 3 flokka og fóðraði hvern flokk á sérstakan hátt, en lét þær að öðru leyti lifa við sömu kjör. Einn flokkurinn fékk ósoðna fæðu, annar flokkurinn samskonar fæðu hóflega soðna, og sá þriðji fékk fæðuna mauksoðna eða fjórum klukkutímum lengur en rotturnar í öðrum flokki. Eftir 50 daga voru rotturnar vegnar, og reyndist meðalþungi þeirra sem hér segir: I. fl. (hráfæði) 102 gr.; II. fl. (hóflega soðið) 75 gr.; III. fl. (mauksoðið) 50 gr.

Rotturnar í I. flokki þyngdust því langsamlega mest, og þó þurftu þær minni mat en hinar. Þetta sýnir, að suðan rýrir stórlega næringargildi matarins, hann verður fyrir orkutapi, þótt hitaeiningunum fækki ekki. Reynslan hefir ennfremur sýnt, að suðan breytir samsetningu eggjahvítuefnanna og rýrir á þann hátt næringargildið.

Þegar fæðan er soðin, fær hún sérstakt keimlaust bragð, deyfubragð, sem flestum er ógeðfellt. Verður þá að salta hana. Þetta á þátt í að raska hlutföllunum milli sýru og lútar í líkamanum, en til þess að halda réttu jafnvægi, þurfa 80% fæðunnar að vera lútargæf matvæli (mjólk, kartöflur og aðrir rótarávextir, grænmeti, aldin), en aðeins 20% sýrugæf (kornmatur, kjöt, fiskur, egg). Ofsýring veldur þreytu og þolleysi, og gegn því er hin lútargæfa jurtafæða hin bezta vörn, svo og gegn þeim mörgu sjúkdómum og truflunum, sem af ofsýringu stafa.

Sumir læknar hafa fundið hráfæði það til foráttu, að það truflaði saltsýrumyndun í maganum, en það hefir ekki við rök að styðjast. Og það er einn kostur hráfæðu, að hún gerir alla saltnotkun óþarfa, og hún kemur einmitt jafnvægi á saltsýruframleiðslu magans. — Vilhjálmur Stefánsson telur saltið eitur, sem menn venji sig á líkt og tóbak og eigi erfitt með að venja sig af aftur.

Þegar fjörefnin fundust, tóku efnafræðingar brátt að einangra þau og framleiða í stórum stíl, og þannig varð þessi merkilega uppgötvun einstökum mönnum að féþúfu, en almenningi ekki að sama skapi heilsubót. Tilbúin fjörefni geta ekki að fullu komið í stað náttúrlegra fjörefna í lifandi fæðu. Lífið sjálft verður ekki sett í gervilyf, og að því leyti hafa þau gert tjón, að þau hafa tafið fyrir útrýmingu ónáttúrlegra fæðutegunda.

Fjöldi fólks gengur til lækna til þess að fá fjörefni, insúlín, hormóna og allskonar önnur lyf í sprautum eða inntökum. Öll þessi lyf kosta feikna fé en ráða þó ekki varanlega bót á sjúkdómunum. Og fullkomin heilsa er að verða fágæt, jafnvel meðal yngra fólks. Hinsvegar fjölgar þeim mönnum, sem búa við kúnstheilsu, er þarfnast sífellt aðgerða og eftirlits. Um þetta segir hinn heimskunni vísindamaður Alexis Carrel: „Svo lítur út sem vér séum endurkrafðir með okurvöxtum um þau mannslíf, sem læknisfræðinni hefir tekizt að hrífa úr höndum næmra sjúkdóma, með margföldum skatti í mannslífum vegna langvinnra hrörnunarkvilla.“ Alger neyzla náttúrlegrar fæðu mundi að mestu leyti stöðva þessi manngjöld, sem minna á óvættirnar, er kröfðust mannfórna.

Sálsýki, hjartakvillar, æðakölkun og krabbamein eru alvarlegustu og algengustu sjúkdómar meðal vestrænna þjóða. Venjulegar lækningaaðferðir reynast næsta lélegar, og með þeim verður þessum sjúkdómum aldrei útrýmt. Vænlegasta leiðin er breyting lifnaðarháttanna, m.a. náttúrleg, lifandi og lífskröftug næring, sem einnig mundi auka viðnámsþrótt manna gegn berklaveikinni og öðrum næmum sjúkdómum.

Alexis Carrel talar um nauðsyn þess að endurskapa heilsu manna, gefa mönnum fullkomna heilbrigði í stað kúnstheilsu. En hér er við ramman reip að draga: rótgróna efnishyggju, vanafestu og kyrrstæðuhneigð. Þessi öfl halda mönnum hlekkjuðum á bási heimsku og hjátrúar. „En jafnvel úr hlekkjunum sjóða má sverð í sannleiks og frelsisins þjónustugerð“. Eigum vér að bíða eftir því? Eða eigum vér að beita sameinuðum átökum til þess að svipta af oss þessum stakk, sem heimska, vanþekking og vani hafa fellt að höndum og höfði ungra sem gamalla í mynd sjúkdóma og úrkynjunar? Eigum vér að sameinast um að reka á flótta skæðasta óvin vorn í mynd spilltrar fæðu, áfengis, tóbaks, eitraðra lyfja, kóka-kóla og kaffis? Hvar er hin marglofaða frelsishneigð og allar menningarframfarir, ef vér höfum ekki framtak til þess að losa oss við óþarfa kúgara eins og flestir hrörnunarsjúkdómar eru?

Í raun og veru þarf ekki nema nokkur pennastrik til þess að gera þessa sjúkdóma landræka. En hvar er sá penni, og hvar er sú hönd, sem vill taka það að sér?

Þessi grein birtist í 3. tbl. Heilsuverndar 1951.

Related posts

Bleik október hugleiðing

Snyrtivörur og aðrar eitraðar vörur í umhverfi okkar

Forvarnir okkar eru að falla – Fljótum sofandi að feigðarósi