Þeim mönnum fer fjölgandi, sem kvarta undan bágu heilsufari og vanlíðan. Reynslan hefir sýnt, að heilsufari manna hefir hnignað 2 til 3 síðustu mannsaldrana. Ýmsir sjúkdómar hafa aukizt og nýir komið upp, og tekið við af þeim, sem áður voru tíðastir, en það voru hungurkvillar, óþrifnaðarkvillar og farsóttir. Áður dóu menn úr hungri. Nú deyja menn af ofáti og óhollri fæðu og ónáttúrlegri, og ofneyzlu skaðlegra nautnalyfja. Þetta sjá allir, sem hafa augun opin. En því miður virðast margir ekki skilja, að sjúkdómarnir eru bein afleiðing af yfirsjónum vor sjálfra, af röngum lífsvenjum, og fyrst og fremst af ónáttúrlegu fæði.
Fjöldi frjálshuga lækna og vísindamanna hafa á síðustu tímum bent á þessar orsakir sjúkdómanna. Meðal þeirra má nefna hinn heimsfræga franska vísindamann Alexis Carrel, sem nú er nýlátinn, enska skurðlækninn Sir Arbuthnot Lane, sem taldi krabbamein stafa af innvortis eitrun líkamans, aðallega frá rotnun í þörmum vegna langvarandi hægðatregðu, Kellogg í Ameríku og marga fleiri.
Robert MacCarrison, hinn heimsfrægi enski vísindamaður og læknir, sannaði með dýratilraunum, að hægt er að framleiða á dýrum alla þá sjúkdóma, sem herja mest á menningarþjóðirnar, með því einu að fóðra þau á svipuðu fæði og þessar þjóðir nota. Meðal þessara sjúkdóma má nefna efnaskiptasjúkdóma, magasár, botnlangabólgu og krabbamein. En með því að fóðra tilraunadýrin á sama fæði og hinn heilsuhrausti Húnzaþjóðflokkur notar, var heilsa þeirra með hinum mestu ágætum. (Sjá greinina „Heilbrigð þjóð“ í 3. hefti 1946). Þeir menn, sem taka ekki mark á slíkum tilraunum, er sanna, að sjúkdómarnir stafa af viðráðanlegum orsökum, geta aldrei lært af reynslunni.
Læknar þykjast enn ekkert vita með vissu um orsakir tannskemmda. Það verður að telja alveg furðulegan sljóleik af lærðum læknum að skilja ekki, að tannveiki kemur í kjölfar breyttra matarhátta og er því ekkert annað en afleiðing af rangri og ónáttúrlegri fæðu, sem ávant er um ýms efni, er tennurnar og önnur líffæri þurfa sér til uppbyggingar og viðhalds.
Hér á landi höfum vér dæmi um það, hvernig villast má út á refilstigu rangra lifnaðarhátta. Það urðu illar og örlagaþrungnar breytingar á heilsufari vor Íslendinga, er vér lögðum niður að mestu eða öllu leyti neyzlu á sauðamjólk, fjallagrösum, harðfiski og öðrum hollum fæðutegundum, en tókum upp hvítt, eiturbleikt hveiti, hvítan sykur, hýðissvipt rísgrjón, gamalt og hálffúið mjöl í stað hins nýja heimamalaða mjöls, sem áður var notað. Afleiðingar þessara breytinga hafa orðið oss þungar í skauti: vaxandi hrörnunarsjúkdómar, sem koma eins og hlekkir á festi, hver af öðrum, tannveiki, botnlangabólga, magasár, ristilbólga, efnaskiptasjúkdómar, taugaveiklun, sálsýki. Og krabbameinið er ekkert annað en síðasti hlekkurinn í keðjunni.
Læknar vorir og sérfræðingar virðast ekki skilja það, sem þó verður ekki um deilt, að líkami manna er ein samræmd lífheild. Þeir berjast við sjúkdómseinkenni, afleiðingar, hver á sínu sviði, án þess að reyna að koma í veg fyrir orsakirnar. Þannig er það með notkun flestra lyfja. Trúin á þau er „trúin á lygina“, eins og landlæknir segir.
Eg segi það ekki mér til hróss, heldur sem staðreynd, að til mín koma daglega menn eða konur, sem skýra mér frá því, að þeir séu orðnir aðrir menn og gerbreyttir til betri heilsu eftir að hafa farið að þeim ráðum, sem náttúrulækningastefnan kennir. En hún leggur aðaláherzluna á innvortis sem útvortis hreinlæti líkamans, sem leiðir einnig af sér hreint hugarfar og sálargöfgi og önnur mannbætandi áhrif.
Vér höfum verið á refilstigum sjúkdómsræktar. Þaðan verðum vér að hverfa. Þessvegna segjum vér: Burt með allt, sem veldur sjúkdómum og vanheilsu. Burt með orsakirnar. Burt með hvíta hveitið og hvíta sykurinn, sem hafa valdið oss meira tjóni á heilsu og efnahag en nokkur harðindi eða hafísar á jafnlöngum tíma. Burt með sætindin, sem ræna börnin heilsunni þegar á fyrstu aldursárum. Burt með áfengið, tóbakið, kóka-kóla og kaffi, að ógleymdum læknislyfjunum, sem flest eru gagnslaus, auk þess að vera beinlínis skaðleg.
Krabbameinið er nú orðinn mannskæðasti sjúkdómur hér á landi (varð um 180 manns að bana árið 1944), ef frá eru skildir allir sjúkdómar í hjarta og æðum, þar með talið heilablóðfall (úr þeim dóu 280 manns sama ár). Fjöldi fremstu vísindamanna um heim allan hafa gert krabbameinsrannsóknir að ævistarfi sínu og ráðið yfir ótakmörkuðu fjármagni og fullkomnum rannsóknartækjum, en því miður hefir þeim lítið orðið ágengt. Er jafnan talað um þennan sjúkdóm sem hinn dularfyllsta og órannsakanlegasta allra sjúkdóma, og læknar almennt þekkja ekki nein ráð við honum önnur en hnífinn og geislalækningar, og er árangurinn raunalega lítill. Er því eðlilegt, að almenningur óttist hann meira en flesta aðra sjúkdóma.
Um orsakir krabbameins eru læknar fáorðir. Þekktar eru þó með vissu orsakir sumra krabbameinstegunda, svo sem pípukrabba í vör, sótarakrabba, arsenikkrabba í lungum, anelínkrabba í blöðru, röntgen- og radíumkrabba í höndum, „kangri“krabba í húð, tilraunakrabba í dýrum af völdum tjöru, tóbaksreyks og fleiri eiturefna. Þá telja margir læknar líklegt, þeirra á meðal formaður hins nýstofnaða krabbameinsfélags, próf. Níels Dungal, að reykingar eigi mesta sök á hinni geysilegu aukningu, sem orðið hefir á lungnakrabba undanfarna áratugi víða erlendis. Og fyrir stuttu skýrði dr. Halldór Hansen frá því í útvarpserindi, að krabbamein í maga kæmi upp úr slímhúðarbólgum, sem stöfuðu m.a. af óhollum mat og drykk. Hér er með öðrum orðum viðurkennt, að magakrabbi, sem er algengasta tegund krabbameina, og lungnakrabbi, sem víða er hin næsttíðasta, auk margra sjaldgæfari tegunda, stafi af óheppilegum og óhollum lífsvenjum. En eigi að síður staðhæfa læknar oft, þegar þeir ræða um þessi mál, að orsakir krabbameins séu óþekktar. Það sagði Alfreð Gíslason, læknir, í útvarpserindi í vetur, og á svipaða leið fórust dr. Hansen orð í útvarpserindi sínu, nokkrum mínútum áður en hann fræddi áheyrendur sína á því, að magakrabbi kæmi af bólgum, sem stöfuðu af óhollum mat og drykk.
Krabbameinið er, eins og sjúkdómar yfirleitt, ekkert annað en afleiðing rangra lifnaðarhátta. Og ástæðan til þess, að það leggst aðallega á eldra fólk og að erfiðara er að lækna það en flesta aðra sjúkdóma, er engin önnur en sú, að það er lokastigið í hrörnun líkamans. Þessvegna gildir það um krabbameinið fremur en nokkurn annan sjúkdóm, að fyrsta sporið og hið þýðingarmesta í baráttunni gegn því er að koma í veg fyrir það, kenna fólki að verjast því.
Í ritum NLFÍ hefir oft verið drepið á þennan sjúkdóm og orsakir hans, án þess að efninu hafi verið gerð rækileg skil. En til þess að hægt sé að gera almenningi ljósa grein fyrir eðli og orsökum krabbameins, verður að rita um það allítarlegt mál. Hefst nú hér í heftinu greinaflokkur um þetta efni, og munu lesendur sannfærast um, að lestri þeirra loknum, að krabbameinið er sízt dularfyllra en aðrir sjúkdómar, að orsakir þess eru augljósar og viðráðanlegar og hverjum manni í sjálfsvald sett að sneiða hjá þeim. Það er eðlilegt, að menn óttist það, sem þeir skilja ekki og fá ekki við ráðið. Þessar greinar ættu því að létta þungu fargi af hugum manna, og mönnum ætti að verða ljóst, að það er undir hverjum einum komið, hvort hann á að geta tekið undir með enska skurðlækninum Lane (sjá 1.-2. hefti 1948) og sagt:
„Ég mun ekki deyja úr krabba.“
Þessi grein birtist í 1. tbl. Heilsuverndar 1949