Málþing Náttúrulækningafélags Íslands um lífsstíl barna. Fundarstjóri var Árni Gunnarsson.
Inngangur fundarstjóra:
Gífurlegar þjóðfélagsbreytingar síðustu áratugi hafa ekki verið mjög barnvænar. Þær hafa fyrst og fremst snúist um hagfræðilegar stærðir, fjárhagslega afkomu þjóðar og heimila, og margt bendir til þess að mannlegi þátturinn og andlegar þarfir einstaklingsins hafi orðið útundan og gleymst.
Stórfjölskyldan er úr sögunni, pabbi og mamma vinna myrkranna á milli til að uppfylla neyslukröfur samfélagsins, skuldir heimilanna hafa aldrei verið meiri, hjónaskilnaðir aldrei fleiri.
Ofbeldi eykst enda kennt í kvikmyndum, sjónvarpi og tölvuleikjum. Einelti orðið að viðvarandi vandamáli og farsímar hjálpartæki í þeim ljóta leik. Þrælahald tískunnar, látlaust auglýsingaáreiti og skrumskæld mynd af veruleikanum í lífi fyrirmynda barna og unglinga, mál vegna kynferðislegrar misnotkunar, skelfileg aukning á sjálfsvígum ungs fólks og gjörbreytt mataræði sem veldur vaxandi heilbrigðisvanda.
Svo ekki sé nú minnst á eiturlyfjaskrímslið. Við hljótum í framhaldi af þessu að velta því fyrir okkur hvort ekki hafi eitthvað gleymst í markmiðssetningu þjóðar á framfarabraut og um það ætlum við að fjalla örlítið hér í kvöld. Til þess höfum við fengið margt ágætisfólk og ég ætla að telja það upp:
– Svava O. Ásgeirsdóttir, íþróttakennari hjá ÍBR
– Kristbjörg Hjaltadóttir, framkvæmdastjóri Heimilis og skóla
– Ingibjörg Gunnarsdóttir, næringarfræðingur
– Hugo Þórisson, sálfræðingur
Síðan verður hér á eftir pallborð og þá bætast við Alda Baldursdóttir rannsóknarlögreglumaður sem er í forvarnadeild lögreglunnar í Reykjavík, Ágústa Johnson framkvæmdastjóri hjá Hreyfingu, og Una Björg Bjarnadóttir aðstoðarskólastjóri Árbæjarskóla.
Ég býð allt þetta góða fólk hjartanlega velkomið til þessa málþings og ég vona að við eigum hér góðar og uppbyggilegar umræður.
Eftir að framsöguerindi hafa verið flutt gerum við að jafnaði stutt hlé, síðan hefst pallborðið og þið getið beint spurningum til framsögumanna.
Svava Oddný Ásgeirsdóttir er fyrst á dagskrá og hún segir um sjálfa sig: Ég er kennari og íþróttakennari að mennt. Starfa hjá Íþróttabandalagi Reykjavíkur, þar m.a. unnið með sameiginlegt skipulag og uppbyggingu íþróttaskóla. Hef starfað sem kennari við Grunnskóla Reykjavíkur og við þjálfun hjá Íþróttafélagi Reykjavíkur. Ég á þrjú börn.
Gjörðu svo vel, Svava.