Lífrænt salat Rögnu Ingólfsdóttur

Ég hef mikinn áhuga á heilsu. Sem íþróttamaður í fremstu röð í minni grein í heiminum þarf ég óhjákvæmilega að hugsa um hvað er í matnum sem ég borða.
Ég hef reynt að gefa líkamanum mínum það besta sem hann getur fengið svo að ég geti orðið eins góð og ég get í minni íþrótt. Ég vil að líkaminn minn fái þau næringarefni sem hann þarfnast, en aftur á móti vil ég forðast öll aukaefni.

Á síðastliðnum árum hef ég verið að lesa mér til um aukaefni sem verið er að bæta í matinn okkar. Ég hef borðað eins mikið lífrænt og ég get og þá sérstaklega lífrænt grænmeti og ávexti. Með því að borða lífrænt grænmeti og ávexti kem ég í veg fyrir að alls konar ónáttúruleg efni fari inn í líkamann minn. Ég vil miklu frekar að líkaminn minn sé að einbeita sér að því að byggja sig upp, heldur en að hann þurfi að einbeita sér að því að koma ónáttúrulegum aukaefnum út.

Ég bý mér til salat úr lífrænu grænmeti og ávöxtum á hverjum einasta degi. Mig langar að deila einni uppskrift með ykkur.

Lífrænt salat:
Magn af hverju og einu er smekksatriði.
Salatblanda (Grunnurinn má vera hvaða lífræna salat sem þér finnst gott)
Gúrka
Kirsuberjatómatar
Paprika
Avókadó
Vínber skorin í tvennt
Harðsoðin egg skorin í tvennt
Baunaspírur (mung)
Radísur
Sólkjarnafræ
Fetaostur og smá af olíunni líka

Hvort sem að æfingaálag er mikið eða ekki þarf líkaminn að fá ákveðin næringarefni til þess að geta starfað vel. Skilaboðin mín eru að við gerum okkar besta í borða eins mikið lífrænt og við eigum kost á, en reynum að komast hjá því að borða mat með mikið af aukaefnum.

Related posts

Bleik október hugleiðing

Sæt dressing með kóríander og myntu

Náttúrulegur og nærandi hlaupadrykkur