Kínóaborgari

Dóri kokkur á Heilsustofnun deilir hér einum vinsælasta rétti sínum, kínóaborgara. Það eru ófáir dvalargestirnir á Heilsustofnun sem hafa beðið eftir því að geta matreitt þennan dýrindis borgara þegar heim er komið.

Kínóa er einstaklega næringarríkt og eitt af fáum plöntutegnundum sem inniheldur allar níu nauðsynlegu amínósýrurnar, sem eru byggingareiningar próteina.
Auk þess er kínóa mjög ríkt af trefjum, B-vítamínum (46% af ráðlögðum dagskammti af fólati í 100g), járni, magnesíum og sinki.
Kínóa er glútenlaust og hentar því vel sem valkostur í kornvörum fyrir þá sem eru með glútenóþol.

Innihald

400 gr rautt kínóa
1 meðalstór laukur, saxaður
2 tsk fennelduft
1 tsk chiliduft
1 dós svartar baunir, sirka 300 gr
150 gr gulrót skorin í litla teninga
70 gr brauðrasp
100 gr ristaðar og muldnar valhnetur
Safi úr einni sítrónu
1 msk söxuð steinselja
1 msk sriracha chilisósa eða tómatpúrra
2 msk kartöflumjöl
Salt og pipar

Aðferð

Við byrjum á að sjóða kínóað í 1 L af vatni í sirka 40 mínútur, sigta það og kæla.
Svo steikjum við lauk á  pönnu þangað til hann verður fallega brúnn og kryddum hann svo með fennel og chilli. Því næst er baununum bætt við og steikt saman í 5 – 10 mín, muna að hræra vel í á meðan. Að lokum er svo öllu stappað saman með kartöflupressu og blandað saman við kínóað.
Gulræturnar eru steiktar sér á pönnu í smá olíu og kryddaðar með salti og pipar svo er þeim hrært saman við kínóadeigið.
Næst er brauðraspi, valhnetum, sítrónusafa, steinselju og chilisósu hrært saman við og smakkað til með salt og pipar.
Að lokum er kartöflumjölinu blandað saman við 2 msk af vatni og hnoðað vel saman við deigið.

8-10 borgarar eru mótaðir og steiktir á pönnu í 3 – 4 mín á hvorri hlið.

Halldór Steinsson, matreiðslumeistari á Heilsustofnun NLFÍ

Related posts

Bleik október hugleiðing

Sæt dressing með kóríander og myntu

Náttúrulegur og nærandi hlaupadrykkur