Heimagerð möndlumjólk

Besta jurtamjólkin? Þær eru orðnar nokkuð margar tegundirnar af tilbúinni jurtamjólk í dag sem vissulega getur komið sér vel m.t.t. þæginda. Flestir virðast finna eitthvað við sitt hæfi og veitingahús bjóða jafnvel uppá mismunandi tegundir af jurtamjólk útí kaffið sem er ágætis endurspeglun á aukinni eftirspurn.

Að mínu mati er þó engin jurtamjólk á markaðnum sem toppar heimagerða möndlumjólk og ef þú hefur gert hana einu sinni er mjög líklegt að þú gerir hana aftur… og aftur.

Það besta við heimagerða möndlumjólk er að þú veist nákvæmlega hvað er í henni, hún inniheldur engin óþarfa aukaefni og þú getur bragðbætt hana eins og þú vilt.

Hér deili ég með ykkur uppskrift að sætri möndlumjólk með kanil, vanillu og döðlum. Hún er æðisleg ein og sér, útá grautinn, í smoothie-inn, í „overnight oats“ eða útí te-ið.

Möndlurnar eru lagðar í bleyti yfir nótt og við það „vakna þær“ eða virkjast og næringarefnin verða aðgengilegri og auðveldari í upptöku. Hægt er að fjarlægja hýðið af möndlunum eftir að þær hafa legið í bleyti en það er ekki nauðsynlegt.

Það eina sem þú þarft er blender og sigtipoki. Ódýra og góða sigtipoka er hægt að kaupa í  Ljósinu en Ljósið eru styrktarsamtök sem halda utan um endurhæfingu fyrir þá sem greinast með krabbamein ásamt því að bjóða uppá gagnleg námskeið fyrir bæði sjúklinga og aðstandendur.

Þú þarft:

  • 2 dl lífrænar möndlur
  • 10 dl vatn
  • 2-3 ferskar döðlur (fer eftir hversu sæta þú vilt hafa mjólkina)
  • 1 tsk ceylon kanil
  • 1/2 tsk lífrænt vanilluduft
  • hnífsoddur salt

Aðferð:

  1. Byrjið á að leggja möndlur í bleyti yfir nótt (eða 12 klst).
  2. Hellið vatninu af og skolið þær. Hér er hægt að afhýða möndlurnar með því að klemma möndluna milli fingranna og hýðið ætti að losna nokkuð auðveldlega.
  3. Setjið 2 dl af blautlögðum möndlum í blandara ásamt vatni, steinhreinsuðum ferskum döðlum, vanillu og kanil og blandið vel.
  4. Takið fram skál sem rúmar alla mjólkina og komið sigtipoka fyrir yfir skálinni. Hellið mjólkinni í gegnum sigtipokann og notið hreinar hendur til að kreista allan vökvann úr pokanum í skálina.
  5. Geymið mjólkina í loftþéttu íláti og geymið í ísskáp. Hún geymist í 3 daga í ísskáp.

*Í sigtipokanum verður eftir möndluhrat sem hægt er að nota í hrákex, bakstur, hollar nammikúlur eða sem grunn í dressingar. Um að gera að leika sér með það.

Verði ykkur að góðu.

Related posts

Bleik október hugleiðing

Sæt dressing með kóríander og myntu

Náttúrulegur og nærandi hlaupadrykkur