Um hvað snýst veganúar?

Hér deili ég með ykkur minni túlkun og hugleiðingum um veganúar og veganisma.

Nú er Veganúar genginn í garð en allan janúar er vitundarvakning um veganisma út um allan heim. Fólk er hvatt til þess að taka þátt í veganúar og opna augun fyrir vegan mataræði og lífsstíl.

“Vegan” virðist hafa ólíka merkingu úti í samfélaginu og oft ekki skilningur um hvað veganismi snýst. Ýmsir heilsuáhugamenn og fleiri sem aðhyllast kjötisma gera óspart árás á veganismann eins og verið sé í heilsustríði eða keppni og þá eru unnar vegan matvörur og fræolíur auðvelt skotmark. Einhverjir gagnrýna grænkera fyrir að “herma” eftir kjötbragði eða útliti og nota samskonar heiti á mat þó maturinn sé ekki er eldaður úr holdi.

Það er auðveldlega hægt að detta í rökræður og benda á að líka séu til unnar kjötvörur eða að kleinuhringir séu fitusprengt þarmakítti sem bælir ónæmiskerfið en það nær sjaldan langt og í raun missir marks þar sem “veganismi” snýst í raun og veru ekki um heilsu í grunninn … en getur þó vissulega gert það.

“Vegan” er ekki það saman og “vegan”. Heilnæmt plöntumiðað mataræði flokkast sem vegan mataræði en vegan ruslfæði gerir það líka. Titillinn einn segir í raun ekkert til um það hvort þú lifir heilsusamlega eða ekki, sama má segja um alætuna.

Vegan er fyrst og fremst samheiti yfir lífstíl sem í grunninn byggir á siðferði.

En um hvað snýst veganismi?

  • Veganismi snýst fyrst og fremst um það að sýna öðrum jarðarbúum (lesist dýr) virðingu og sniðganga þar af leiðandi þjáningu dýra.
  • Veganismi snýst um að horfa á önnur jarðdýr sem jafningja en ekki sem dýr sem eru hér fyrir okkar hagsmuni. 
  • Veganismi snýst um að vera rödd þeirra dýra sem ekki hafa rödd.
  • Veganismi snýst um að vera meðvitaður um val sitt þegar það kemur að matvörum og velja matvörur sem styðja ekki þann iðnað sem stuðlar að ómanneskjulegri nýtingu og slátrun dýra í massavís.
  • Að stuðla ekki að ónáttúrulegri fjölgun dýra og trauma þegar afkvæmi eru tekin frá mæðrum sínum.
  • Að styðja ekki nauðungarvistun dýra eða þvinga traumatiseraðar kýr í mjaltarvélar fyrir hagsmuni, eigingirni, og sjálfhverfu manneskjunnar.

Við getum sagt að veganismi grundi sig á kærleika, virðingu og samkennd.

Mér finnst líka rétt að yfirfæra þessi gildi með okkar velferð í huga og skoða hvort lífstíllinn okkar sé í takt við þessi gildi í okkar garð, hvort við sýnum okkur virðinguna og kærleikann sem við viljum að dýrum séu sýnd. 

Hver og einn sýnir sér kærleika á ólíkan hátt en ég hef komist að því hvað það er fyrir mig að sýna mér virðingu og kærleika. Heilnæmt mataræði er eitt af því. Að næra mig með fjölbreyttri fæðu úr plönturíkinu, á sínu upprunalegu formi, með ávexti og grænmeti í forgrunni. Það hefur skilað sér til baka í vellíðan, heilun, aukinni orku og hefur einnig haft jákvæð áhrif á andlega þáttinn.

Veganismi snýst alls ekki um það að vera fullkominn og gera allt fullkomið.

Skítaskot um það að skordýraeitur við grænmetisræktun drepi snigla og pöddur og geri grænmeti þar af leiðandi ekki “vegan” eru afþökkuð enda er það bara lágkúrulegur leikur.

Við eigum það til að týna okkur í skilgreiningum. Sumir verða tregir við að kalla sig vegan. Þeim finnst þeir ekki vera að gera nóg eða ekki vissir um að veganisminn sé kominn til að vera.

Má borða þetta og má borða hitt? Má vera í leðri og má ganga um með perluhálsfesti? Síðan ég var lítil hef ég fengið spurninguna “máttu” borða þetta eða “máttu” borða hitt. Þetta snýst aldrei um að mega ekki eitthvað. Þetta snýst um það að kjósa að sneiða framhjá hlutum sem þú telur ekki vera rétt að neyta af siðferðislegum ástæðum.

Vegan lífstíll getur náð yfir enn fleira en mat en það á við um t.d. fatnað, snyrtivörur og jafnvel enn flóknari málefni eins og umhverfisvernd sem snertir okkur öll.

Ég kalla mig grænkera eða vegan þar sem ég neyti ekki kjöts, fisks, eggja eða mjólkur og þessi hugsjón skiptir mig máli. Hugtakið einfaldar samskipti við mötuneyti, veitingastaði eða við aðrar félagslegar samkomur o.fl. Ég lifi þó ófullkomnum grænkeralífstíl, ég myndi aldrei fá mér leðursófa eða pels en ég á samt leðurskó og ég nota ull. Það er sennilega raunveruleiki meðal grænkerans í nútíma samfélagi.

Allt eða ekkert hugsunin getur aftrað manni frá því að taka skrefið.

Fyrir suma er auðvelt að taka skrefið að taka út kjöt þegar þeir hafa gert ákveðna tengingu á milli dýra og kjöts til að afskrifa það sem mat. En svo getur tekið lengri tíma að afskrifa eitthvað annað ef maður hefur ekki gert nógu sterka tengingu við að framleiðslan sé siðferðislega röng. 

Að því sögðu þá hvet ég ykkur til að taka þátt í veganúar með ykkar eigin markmið. Veganúar snýst ekki endilega um “allt eða ekkert” og það þarf að reka sig á til að læra. Veganúar má líka nota sem hvatningu til að gera meðvitað val í vörukaupum og prófa sig áfram í eldhúsinu með hráefni úr jurtaríkinu. Ef kjötlaus mánudagur er fyrsta skrefið er það líka frábært.

Ég er hér ef ykkur vantar ráð og innblástur af heilnæmri fæðu úr plönturíkunu.

Kærleikur útí kosmosið.

Hildur Ómars

Related posts

Ást í teinum – Á reiðhjóli í gegnum lífið

Hugað að heilsunni um jólin

Jólahugvekja – Kerti og spil