Ofurskammtar fæðubótarefna og jafnvægi líkamans

Við sem mannvera ”homo sapiens” fæðumst með munn, tennur og meltingarveg til að melta fæðu og taka upp nærinar- og orkuefni og því ættum við því alltaf að leitast við að neyta fastrar fæðu í stað fæðubótarefna. Ef við ættum bara að fá næringu í gegnum töflur eða safa þá værum við með trekt í stað munns og tanna.

Mun betra frásog er á næringarefnum ef við neytum matar í stað þess að neyta fæðubótarefna. Fæðubótarefnin eru oft með skammtastærðir af næringarefnum sem ómögulegt væri að neyta í formi fastrar fæðu. Því eru minni líkur á eitrunum og öðrum neikvæðum áhrifum stórra skammta af næringarefnum ef fastrar fæðu er neytt.

Þegar komið er inn í heilsubúðir í dag blasa við fullir rekkar af ýmsum fæðubótarefnum sem eiga að vera allra meina bót. Yfirlýsingarnar á umbúðum fæðubótarefnanna eru oft miklar og gífuryrtar. Það er margt satt sem stendur skrifað um þessi fæðubótarefni og virkini þeirra en það gleymist að horfa á heildarmyndina, í stað þess er bara horft á eitt einangrað næringarefni og virkni þess.
Þeir sem markaðssetja þessar vörur horfa auðvitað bara á kosti  fæðubótarefnisins en huga ekki að því jafnvægi sem líkaminn þarf til að starfa eðlilega. Máltækið ”Minna er meira (less is more)” á vel við þegar kemur að næringu líkamans.

Það er staðreynd að við þurfum vatn, næringar- og orkuefni til að líkaminn virki á sem bestan hátt en við verðum að gæta að því að taka ekki of mikið af einhverju einu efni og rugla þessu mikilvæga jafnvægi.
Í sambandi við þetta jafnvægi má nefna vatnið, sem reyndar er ekki fæðubótarefni. Vatn er okkur lífsnauðsynlegt og án þess mundum við deyja innan fárra daga. Margir taka hollustu vatns of bókstaflega og drekka 3-4 lítra af  vatni á dag og jafnvel meira, en með því móti er verið að rugla saltjafnvægi líkamans og líkaminn skolar út nauðsynlegum söltum. Ekki er ráðlegt að drekka mikið meira en 2 lítra af vatni á dag, nema að svitnað sé mjög mikið eða erfiðar líkamsæfingar stundaðar.

Það á  líka við um flest vítamín og steinefni  að það er hægt að taka of mikið af þeim.
Hér er yfirlit yfir það hvað þarf að neyta mikils matar til að fá skammta sem fást oft úr fæðubótarefnum og mögulegar eiturverkanir af of stórum skömmtum. Matvörur sem eru ríkar af viðkomandi fæðubótarefni eru valdar í þennan samanburð.

Algengar skammtastærðir á fæðubótarefnum og samsvarandi magn í matvörum:

  • C-vítamín 1000 mg – Það þarf um 13 stykki af meðalstórum appelsínum til að ná þessum 1000 mg. af C-vítamíni.
  • D-vítamín 5000 AE. (alþjóðaeiningar) = 125 míkrógrömm – Til að fá þennan ofurskammt af D-vítamíni þarf tæpleg 5 msk. (15 ml/msk.) af lýsi (sem reyndr er líka fæðubótarefni) . Lax er ein D-vítamínríkasta matvara sem við getum neytt og til að fá 5000 AE af D-vítamíni þurfum við að neyta tæplega 1.7 kg. af laxi.  
  • Kalk 1000 mg –  Til að fá þennan skammt  þurfum við að hesthúsa tæplega einum lítra af nýmjólk.
  • Magnesíum 400 mg –  Við þurfum tæplega 13 banana til að fá þetta magn af magnesíum úr matvöru.

Eituráhrif:

  • C-vítamín: Þar sem C-vítamín er vatnsleysanlegt og of mikið magn í líkamanum er losað út með þvagi eru eituráhrif af C-vítamíni ekki algeng en þau geta m.a. lýst sér í: Flögurleika, kviðverk, magakrampum, niðurgangi, hausverk, þreytu, svefnleysi og útbrotum á húð.
  • D-vítamin:  Er fituleysanlegt og því meiri líkur á eitrunum en af vatnsleysanlegum vítamínum, það getur safnast fyrir í líkamanum og valdið eituráhrifum sem eru m.a.: Aukinn útskilnaður af kalki, flögurleiki, uppköst, aukin styrkur kalks og fosfórs í blóði, lystarleysi, hausverkur, vöðvaslappleiki, liðverkir, aukinn þorsti, óróleiki, nýrnasteinar og tíð þvaglát.
  • Kalk: Eituráhrif eru harðlífi, aukin hætta á nýrnasteinum og vanvirkni nýrna.
  • Magnesíum: Eituráhrif eru ekki  þekkt þó hafa stórir skammtar valdið niðurgangi.

Þessir ofurskammtar af vítamínum og steinefnum verða hjákátlegir þegar við sjáum þetta í samræmi við magnið í matvörum,  því við gætum aldrei fengið þessa ofurskammta úr matvörum. Það ætti að vera ágætis áminning fyrir okkur hversu ónáttúrulegt það er fyrir okkur að neyta  ofurskammta af vítamínum og steinefnum.

Vert er að taka fram í lokin að sumir útsettir hópar s.s. þungaðar konur, konur með barn á brjósti, íþróttafólk,  þeir sem eru að kjást við sjúkdóma og þeir sem eru komnir á efri ári, gætu haft þörf fyrir fæðubótarefni. Ef fólk almennt telur sig vera í skorti á vítamínum eða steinefnum er hægt að fá það greint í blóðprufu á heilsugæslustöð.

Munið að ofurskammtar af vítamínum og steinefnum geta gert meiri skaða en gagn og ekkert kemur í stað reglulegs og næringaríks mataræðis.

Berum ábyrð á eigin heilsu.

Hér má sjá linka á algeng fæðubótarefni sem talað er um í greininni:
http://www.heilsa.is/verslun/product.asp?cID=231&pid=214&c=6491
http://www.nowfoods.com/Vitamin-D-3-5000-IU-240-Softgels.htm
http://heilsa.is/vorur/vitamin/baetiefni/vitamin-og-steinefni/nr/26/

Related posts

Gervilíf

Saga skógræktar á Íslandi

Bleik október hugleiðing