Heilsuefling með forvörnum


Í fréttum nýverið kom fram að alltað 80% prósent af útgjöldum íslenska heilbrigðiskerfisins fari í að meðhöndla langvinna sjúkdóma sem eiga rætur sínar að rekja til lifnaðarhátta okkar. Það er sorgleg staðreynd að aðeins 1,6% af útgjöldum fer  í forvarnir.

Hvenær ætlum við að hætta að pissa í skóinn okkar og fara að koma í veg fyrir sjúkdóma í stað þess að vera endalaust að “lækna” þá með misjafnlega árangursríkum hætti?!
Það er grátlegt að ráðamenn þessa lands geri sér ekki grein fyrir því hversu mikið er hægt að spara til lengri tíma með því að leggja fé í forvarnir til heilsueflingar.

Það er kannski von á breytingum því nýlega fór af stað verkefni sem styrkt er af Evrópusambandinu og ber heitið ”Gesundheitsbildung druch Prävention” sem mundi útleggjast á íslensku; heilsuefling með forvörnum.
Þetta er samstarfsverkefni  þriggja heilsustofnana í Evrópu;  Heilsustofnunnar Náttúrulækningafélags Íslands (HNLFÍ), Kneippsamtakanna í Þýskalandi og forvarnarstofnunarinnnar PGA (Prophylaktische Gesundheits Arbeit) í  Austurríki.
Verkefnið hófst í bænum Unna í Þýskalandi í byrjun nóvember og langar mig í þessum pistli að skrifa um það hvernig þetta verkefni fór af stað og hvað Kneipp stofnunin er að gera í heilsueflingu og forvörnum.

Kneipp meðferðir
Kneipp er kennt við Sebastian Kneipp (1821- 1897) sem var þýskur prestur og einn af upphafsmönnum náttúrulækningastefnunnar. Kneipp er þekktastu fyrir  „Kneipplækningar“  í formi vatnslækninga, þ.e. að beita vatni með ýmsum aðferðum, s.s. mismunandi hitastigi og þrýstingi, sem hann sagði hafa lækninga- eða heilunar áhrif.  Kneippbunur er þekktar sem meðferðarform hér á Íslandi og notaðar á HNLFÍ í Hveragerði.
Kneippsamtökin í Þýskalandi eru regnhlífarsamtök um 600 kneippklúbba, með yfir 160.000 meðlimi og er eitt stærsta einkarekna heilsueflingarfélag Þýskalands.

 Kneipp meðferðir  eru hugsaðar sem heildrænar og miða að því að koma líkama, huga og sál í jafnvægi.  Forvarnir eru mjög stór þáttir í Kneipp meðferðum, tilgangur þeirra er að kenna fólki að nýta sér næringu, hreyfingu, slökun og vatn til að koma í veg fyrir sjúkdóma og heilsubrest.  Aðal markmið Kneipp meðferða er heilbrigði fólks alla ævi.

Kneipp hefur fimm grunngildi og fylgja þau hér ásamt skýringum Sebastians Kneipp á þeim:

Vatn:  ”Fyrir heilbrigða einstaklinga er vatnið  frábær leið til að viðhalda heilsu sinni og orku,  einnig á tímum veikinda og það er öflug lækning, það er eðlilegasta, einfaldasta og, þegar það er notað á réttan hátt, öruggasta leiðin. Vatn er besti vinur minn og verður það áfram þar til ég dey. “ (Sebastian Kneipp)

Lífsgleði og jafnvægi: ”Það eru varla aðrar aðstæður sem eru eins skaðlegar  heilsu okkar en  það hvernig við lifum dagsdaglega. Við verðum að stuðla að jafnvægi í lífi okkar til að styrkja þandar taugar og til að viðhalda styrk þeirra. Við verðum að skapa jafnvægi” (Sebastian Kneipp)

Næring: „Svo lengi sem það verða engar róttækar breytingar á mataræði okkar mun það alvarlega tjón sem mataræðið  veldur heilsu okkar vera ólæknanlegt. Og reyndar mun það bara versna. “
(Sebastian Kneipp)

Hreyfing: „Hreyfing eykur ánægjuna af lífinu og eflir mann með því  að styrkja líkamann.“
(Sebastian Kneipp)

Lækningajurtir: „Með hverju skrefi sem við tökum með Guðs vilja, finnum  við fleiri nýjar plöntur sem eru afar gagnlegur og læknandi.“ (Sebastian Kneipp)

Forvarnir með Kneipp í Unna
Öllum þátttakendum  í þessu Evrópusamstarfi var boðið til fundar í Ráðhúsi Unna þar sem Karl F. Diehle forsteti Kneipp samtakannna tók á móti þátttakendum. Þá tvo daga sem þátttakendur frá  Íslandi og Austurríki voru í Unna fengu þau að kynnast hinum ýmsu aðferðum sem beitt er til heilsueflingar og forvarna í gegnum Kneipp og aðrar meðferðir. Má m.a. nefna:

  • Sundleikfimi þar sem einnig var notast við Kneipp bunur og Kneipp kælingar á hendur. Þessa sundleikfimi voru aðallega eldri borgar að nýta sér til þess að efla þrek sitt og bæta heilsuna. 
  • Forvarnarstarf í frístundamiðstöðvum – Hr. Hemke sem er félagsráðgjafi og stjórnandi frístundarmiðstöðvar sagði okkur frá starfi til að virkja yngra fólk til íþróttaiðkunnar og félagsstarfs. Í Þýskalandi er mikið af innflytjendum og þurfa þeir hvað mest úrræði til að efla félagsstarf sitt.  Hemke sagði að það væri ekki auðvelt að hvetja fólk til að nýta sér það sem er í boði, t.d. hefðu foreldrar þessara barna oft lítið fé milli handa og forgangsröðun væri önnur, heilsan væri ekki í fyrirrúmi á mörgum heimilum inniflytjenda.
  • Þátttakendur fengu að kynnast stafagöngu (Nordic  Walking) og hvernig hún er nýtt til heilsueflingar í bænum Unna.
  • Heilsuleikskóli sem byggir á gildum Kneipp var heimsóttur. Í þessum leikskóla var börnum m.a. boðið uppá reglulegar Kneipp meðferðir. Það var dásamlegt að sjá börnin umgangast vatnið og nota meðferðirnar uppá eigin spýtur. Einnig var mikið lagt upp úr hollum og ferskum mat. Mjög stórt leiksvæði var umhverfis leikskólann og mikið gert uppúr því að njóta náttúrunnar. Allir starfsmenn leikskólans verða að sækja sérstakt Kneipp námskeið. Þar eru þeir fræddir um Kneipp meðferðir og  upplýstir um mikilvægi heilsueflingar til forvarna.

Framhaldið
Í júní á næsta ári munu þátttendur frá Kneipp í Þýskalandi og PGA stofnuninni í Austurríki sækja HNFÍ í Hveragerði heim, til að fræðast um það forvarnarstarf sem unnið er þar. 

Af þessari fyrstu heimsókn höfum við séð hvaða aðferðum er hægt er að beita til heilsueflingar með forvörum jafnt fyrir unga sem aldna.
Í forvörnum er þó mikilvægast að byrja sem fyrst og helst á leikskólaaldri. Kenna einstaklingum að stuðla að betri heilsu með hreyfingu, næringu og slökun. Gera alla þessa þætti til heilsueflingar aðgengilega og skemmtilega svo þeir verði eðlilegur hluti af lífi einstaklingsins frá unga aldri.

Þetta forvarnarstarf strax á fyrstu æviárum á að vera jafn mikilvægt og að kenna börnum að lesa, það er varla hægt að læra neitt mikilvægara í lífinu en að bera ábyrgð á eigin heilsu.

Á myndinni sem fylgir þessari grein má sjá þá sem tóku þátt í þessu verkefni fyrir utan bæjarskrifsstofurnar í Unna. 

Heimildir og ýtarefni:
www.ruv.is/frett/lifstilssjukdomar-fyrirferdamestir
www.kneippbund.de
www.kneipp.com
http://en.wikipedia.org/wiki/Sebastian_Kneipp
www.evangelisch-in-koenigsborn.de/gemeindeleben/familien/kindertageseinrichtung-kurparkwichtel/
www.pga.at/

Skrifað af Geir Gunnari Markússyni ritstjóra NLFÍ, ritstjori@nlfi.is 

Related posts

Grasaferð hjá Heilsustofnun

Sumarlokun skrifstofu NLFÍ

Hlaup fyrir lífið – Hugleiðing um hlaup