Verum góðar fyrirmyndir

Ég er nýorðin móðir. Það er hlutverk sem ég vil standa mig vel í og því hef ég skoðað allar bækur um börn og uppeldi sem ég hef komist í. Ein af mínum uppáhaldsbókum er bókin hennar Ebbu Guðnýjar, Hvað á ég að gefa barninu mínu að borða? …og öll fjölskyldan nýtur góðs af!  Þar er ekki einungis talað um fæðu sem hentar ungbörnum sem og eldri börnum heldur einnig öllum fjölskyldumeðlimum. Nú er strákurinn minn, sem er sex mánaða, nýbyrjaður að borða.

Allar ráðleggingar sem að við nýbakaðir foreldrarnir fáum í hendurnar um hvernig fæða hentar svona litlum krílum snýst um að fæðan sé hrein og holl, helst lífræn. Eldunarráðleggingar snúast líka um að varðveita sem mest af næringarefnum fæðunnar. Ég veit um marga foreldra sem gefa börnunum sínum ekkert annað en lífrænt fæði og passa vel upp á að gufusjóða allt svo að engin næringarefni fari til spillis. Á hvaða tímapunkti breytist þessi hugsunarháttur foreldranna síðan og foreldrarnir hugsa ekki jafn mikið um hvort að barnið borði lífrænt eða ekki? Að mínu mati er nokkuð ljóst að hollast væri fyrir alla að borða eins mikið af lífrænni og hreinni fæðu alla ævi og hægt er. Við höfum svo góða aðstöðu hér á Íslandi til þess að búa til hreina og lífræna fæðu. Sem betur fer eru íslenskir bændur sem rækta lífrænar afurðir að verða fleiri og fólki gefst kostur á að kaupa lífræna fæðu í auknum mæli. Ég hef bæði getað nálgast lífræna fæðu í heilsuvöruverslunum eins og Lifandi markaði, en líka í til dæmis Krónunni. Síðan er hægt að fá lífræna fæðu í verslun eins og Frú Laugu, þar er mikið úrval og þangað er gaman að koma.

Þegar ég varð ólétt varð ég þess vör hversu vel er hugsað um mæður og ungbörn í heilbrigðiskerfinu okkar á Íslandi. Í raun ættu Íslendingar að geta státað sig af heilbrigði barna sinna; við erum með frábæra heilsuvernd fyrir verðandi mæður, ungbarnadauði hérlendis er sá lægsti í heiminum, við erum með glæsilegt ungbarnaeftirlit og almennt heilbrigðiseftirlit í formi heilsugæslu í grunnskólum. Samkvæmt nýjustu rannsóknum fer heilsa barnanna okkar samt sem áður hrakandi. Þar spilar inn í slæmt mataræði, of lítil hreyfing, jafnvel kyrrseta, ónæg félagsleg tengsl og andlegri líðan er einnig ábótavant. Þetta hefur orðið til þess að of mikið er um ofþyngd og offitu, en slíku fylgir tilheyrandi sjúkdómar.
Ég veit fyrir víst að í grunnskólunum fer fram ágætis fræðsla um næringu og hreyfingu. Kannski er orðið tímabært að færa fræðsluna í meira mæli inn á heimilin. Við sem foreldrar og vinir barnanna okkar verðum að fara að vera góðar fyrirmyndir fyrir þau. Við vitum vel hvað þarf til, nú er spurning um að fara að framkvæma það. Við þurfum að hugsa vel um hvers konar fæða er á heimilinu og hvort að hvatning fyrir hreyfingu sé ekki til staðar. Um leið og við aukum lífsgæði okkar sjálfra með því að hugsa um heilsuna, hreyfa okkur og borða hollan og góðan mat aukum við lífsgæði barnanna okkar.

Ég horfði á þáttinn hennar Kollu um daginn þar sem Vilborg pólfari sagði frá sér og sínum ævintýrum. Það sem stóð upp úr að mínu mati var þegar hún sagði frá því þegar hún stóð frammi fyrir því að annaðhvort myndi hún þurfa að hoppa fram af litlum kletti yfir á annað bjarg, sem var frekar hættulegt, eða snúa við og komast því ekki leiðar sinnar. Hún sagðist margoft þurfa að tala í sig kjark til þess að takast á við hina ýmsu hluti í náttúrunni. Þá peppar hún sig upp og lætur síðan vaða. Hún endaði á því að komast yfir og fagnaði því innilega. En í lok frásagnarinnar sagði hún; „Maður getur ýmislegt þó að það virðist óyfirstíganlegt við fyrstu sýn“. Það er í rauninni hægt að yfirfæra þetta yfir í hversdagsleikann okkar, sem ekki klífum fjöll og hættum lífi okkar á þann hátt. Að breyta um lífsstíl síns sjálfs eða heillrar fjölskyldu getur virðst óyfirstíganlegt við fyrstu sýn. Það getur virst sem svo að bæði endalausar æfingar og leiðinlegt mataræði séu það sem bíður manns. En þá er að breyta um sýn á málið, eins og einn af mínum uppáhaldsrithöfundum og heimspekingum Dr. Wayne Dyer segir iðulega: „When you change the way you look at things, the things you look at change“.
Þetta er spurning um að venja sig á að líta á heilbrigðan lífsstíl á jákvæðan hátt. Ég er ekki í nokkrum vafa um það að þegar fólk fer að lifa á heilbrigðan hátt þá verður það að lífsstíl og það er ekki möguleiki að finnast það óyfirstíganlegt og leiðinlegt. Það mun taka á að breyta um lífsstíl, en góðir hluti gerast hægt og þeir eru þess virði.

Það væri frábært ef fjölskyldumeðlimir myndu hvetja hvert annað áfram í heilsusamlegri lífsstíl. Foreldrar vaða flestir eld og brennistein fyrir börnin sín og ég get ímyndað mér að flestir myndu vilja leggja á sig ýmislegt þegar kemur að mataræði og hreyfingu barna sinna. Ebba Guðný segir í bók sinni að best sé að halda öllum sætindum frá börnum okkar eins lengi og kostur er. Síðan segir hún dálítið sniðugt; „Við erum ekki vond við börnin okkar þó við gefum þeim ekki nammi, gos, kökur og ís. Við erum góð við þau“. Auðvitað ! Hugsaði ég. Þegar að ég tala við annað fólk um að sonur minn sé ekki að fara að borða sætindi fyrstu ár lífs síns þá fæ ég stundum skrítin viðbrögð. Fólk heldur í alvöru stundum að þá sé ég að vera leiðinleg við barnið mitt. En í raun er þetta eitt af því besta sem ég get gert fyrir barnið mitt. Það hefur verið sýnt fram á skaðsemi sykurs á líkamann, meltingarkerfið og taugakerfið með fjölmörgum rannsóknum. „Mjög lengi ráðum við hvað börnin okkar borða og ættum að sinna því starfi af ábyrgð og ekki gefa þeim og venja þau á eitthvað sem nærir þau ekki heldur veikir“, segir Ebba Guðný.

Heilsa íslenskra barna er sífellt algengara umræðuefni, ekki vegna þess hversu heilbrigð íslensk börn eru, heldur vegna þess að alvarleg heilsutengd vandamál fara versnandi. Mikilvægt er að við gerum okkur grein fyrir þeim afleiðingum sem þetta hefur á framtíðarheilsu þjóðarinnar. Við þurfum að stöðva þessa þróun. Fylgikvillar ofþyngdar eru meðal annars hjarta- og æðasjúkdómar, sem eru helsta dánarorsök í heiminum í dag. Við getum vanið börnin okkar á næringarríkan, lífrænan og hreinan mat og aukið þannig lífsgæði þeirra.
Við foreldrarnir erum fyrirmyndir barnanna okkar, okkar neysluhættir verða þeirra neysluhættir. Það sem við borðum, er líklegt að börnin okkar borði. Það hvernig við hreyfum okkur, útivist og líkamsrækt, er líklegt að hafi áhrif á börnin okkar. 

Skrifað af Rögnu Ingólfsdóttur, ragnaingolfs@gmail.com

Related posts

Grasaferð hjá Heilsustofnun

Sumarlokun skrifstofu NLFÍ

Hlaup fyrir lífið – Hugleiðing um hlaup