Kæru lesendur, hér á eftir kemur smá kynning á mér en ég er nýr pistlahöfundur hér á síðunni og mun deila með ykkur ýmis konar hugleiðingum, fróðleik og uppskriftum.
Ég heiti Hildur Ómarsdóttir, ég er 36 ára tveggja barna móðir og uppskriftasmiður. Ég er lærður umhverfis- og byggingaverkfræðingur og stunda nú nám í heildrænni næringarfræði í University of natural health. Undanfarin misseri hef ég haldið úti instagram reikningi (@hilduromarsd) og heimasíðu þar sem ég deili uppskriftum og hugmyndum að mat úr jurtaríkinu og ekki síst innblæstri að sykur- og dýraafurðalausu uppeldi barna.
Ég er sjálf uppalin grænmetisæta þar sem foreldrar mínir gerðust grænmetisætur af siðferðislegum ástæðum áður en ég fæddist en ég gerðist síðan grænkeri (vegan) á fullorðinsaldri. Þegar ég var að alast upp var ekki algengt að börn væru grænmetisætur hér á Íslandi og það var heldur ekki auðvelt að fara út að borða. Heilsustofnun Náttúrulækningafélagsins í Hveragerði var einn af fáum stöðum þar boðið var uppá heilnæman grænmetismat og vandist ég því á unga aldri að fara í sunnudagsbíltúr austur fyrir fjall á „Heilsuhælið“ til að borða.
Það mætti segja að foreldrar mínir hafi verið einskonar brautryðjendur á þessum tíma í sínu umhverfi og því fylgdu óteljandi áskoranir og einnig stundum óumbeðin afskipti. Mamma hefur allaf verið skólaklár og gífurlega metnaðarfull í öllu sem hún hefur tekið sér fyrir hendur. Hún sinnti móðurhlutverkinu með þessum sama metnaði og í stað þess að láta athugasemdir utanaðkomandi aðila á sig fá þá fræddi hún sig vel um næringu til að tryggja það að ég fengi öll næringarefnin en líka til að geta greint á milli fordómafullra athugasemda og þeirra athugasemda sem gátu verið hjálplegar eða áttu við rök að styðjast. Eftir því sem ég varð eldri kviknaði svo minn áhugi til að fræða mig um næringu í sama tilgangi.
Það eitt að vera barn og skilgreina sig sem grænmetisætu gat haft í för með sér að lenda undir einhverskonar „áhyggju“smásjá, jafnvel frá skólahjúkrunarfræðingum og öðru heilbrigðisstarfsfólki sem fannst ég stundum vera full létt. Skipti þá engu þó ég væri hraustlegt barn sem varð varla misdægurt og stundaði ávallt íþróttir af kappi. Fólk virtist eiga erfitt með að sjá fyrir sér að grænmetisfæði gæti verið nægjanlega næringarríkt fyrir barn í vexti, enda var hvergi að finna umræðu eða ráðleggingar fyrir foreldra í þessum sporum og á þessum árum var langt í að landlæknir gæfi úr ráðleggingar um grænmetisfæði.
Þegar ég byrjaði með instagram reikninginn minn var það meðal annars í þeim tilgangi að sýna hversu fjölbreytt grænkera matarræði getur verið og á sama tíma sýna gott fordæmi í næringarlegu samhengi svo „áhyggju“ smásjáin gæti orðið eftir í fortíðinni.
Þegar ég var yngri var ég oft fegin að segjast borða mjólkurvörur og egg, því annað var jú „öfgakennt“. Það var í raun ekki fyrr en ég flutti að heiman, til Svíþjóðar, þegar ég fór fyrst að spá í veganisma fyrir alvöru. Svíar voru komnir lengra hvað varðar markaðsetningu á vegan vörum og þá aðallega vegna umhverfissjónarmiða. Ég var á þeim tíma í mastersnámi í umhverfis- & byggingaverkfræði svo umhverfismál voru mér ofarlega í huga.
Ósjálfrátt vorum við maðurinn minn hætt að kaupa mjólkurvörur og egg inná heimilið en ef okkur var boðið í mat eða ef við borðuðum á veitingastaðnum í vinnunni gerðum við undantekningar fyrir þægindin.
Árið 2017 eignuðumst við okkar fyrsta barn, lítinn strák, sem fæddist með alvarlegan hjartagalla. Þetta þýddi að hann þurfti að gangast undir tvær aðgerðir og gat ekki verið á brjósti fyrstu 2 vikur ævinnar. Ég tók á það ráð að fjárfesta í brjóstapumpu og var rosalega þakklát fyrir það að geta gefið stráknum mínum mjólkina mína þó það væri í gegnum sondu. Þetta var þó vissulega heilmikil vinna, fyrir utan það hvað ég varð öll aum í brjóstunum.
Á þessum tíma varð til skýr tenging í huga mér við kúamjólkurframleiðslu og mjaltavélar.
Tengingin varð svo skýr að ég gat ómögulega réttlætt það lengur fyrir mér að neyta mjólkurafurða.
En þó upprunalega ástæðan fyrir því að ég varð grænkeri/vegan sé siðferðisleg þá hafa umhverfissjónarmið og heilsufarslegir þættir styrkt ástæðuna enn frekar og margar rannsóknir hafa sýnt fram á heilsufarslegan ávinning af því að draga úr kjötneyslu en auka frekar við ávaxta- og grænmetisneyslu.
Þegar vegan-hugtakið blandast inn í samanburðarumræðuna um hollustu mataræðis þarf að vanda sig. Veganismi er nefnilega ekki bara mataræði og þeir sem skilgreina sig sem vegan, gera það af ólíkum ástæðum og oftar af siðferðislegum ástæðum frekar en heilsufarslegum. Orð eins og vegan eða grænkeri er í raun miklu frekar orð til einföldunar í samskiptum fyrir þá sem aðhyllast lífstíl án dýraafurða en segir ekkert til um það hvernig matarvenjur fólks eru útfrá næringarlegu samhengi. Það er því ekki hægt að setja vegan mataræði undir einn hatt þegar gerður er næringarlegur samburður því matarvenjur grænkera geta verið gríðarlega ólíkar í næringarlegu tilliti.
Ég hef aldrei vanist því að líta á dýr sem mat og fyrir það er ég ávallt þakklát. Það er nefnilega alltaf erfiðara að aflæra hluti og það er í raun auðveldara að tileinka sér þennan lífstíl sem barn á meðan eðlisleg samkend með dýrum er mikil og maður gerir ekki greinamun á dýrategundum. Ég ber ótakmarkaða virðingu fyrir náttúrunni og því sem hún gefur af sér og reyni eftir fremsta megni að velja fjölbreytt og vel samsett hráefni úr jurtaríkinu og neyta þess í sem upprunalegastri mynd. Í mínum huga gengur það ekki upp að jafn fullkomin skepna og maðurinn er og með samkennd á jafn háu stigi, þurfi nauðsynlega að nærast á holdi dýra ef það stríðir gegn samvisku hans.