Þórhallur Heimisson – túrbófjölskyldan

Þórhallur Heimisson prestur flutti erindi um túrbófjölskylduna.

Góða kvöldið, það er best að byrja á því að fá sér aðeins vatn. Maður er svo stressaður. Ég verð líka að viðurkenna annað, ég kann ekki á svona fínar græjur. Ég er alltaf svo hræddur um að svona græjur bregðist á síðustu stundu, þannig að ég hef ekki tileinkað mér þær. Ég vona að ég komi þessu til skila án þess að vera með myndirnar.

Já, eins og kom hérna fram í kynningunni er ég búinn að vera að vinna undanfarin fimm ár um allt land með hjónanámskeið og sambúðarnámskeið sem snerta mikið samskipti foreldra og barna í sinni víðustu mynd. Á þessum námskeiðum, hvort sem er hérna á höfuðborgarsvæðinu eða úti á landi, kemur þessi umræða mjög fljótt upp þegar fer að líða á kvöldið og kvöldin. Það er þetta álag sem fólk upplifir að því er virðist á hverjum einasta degi, bæði í vinnunni og heima, og talar mikið um og hefur í raun miklar áhyggjur af.
Ég finn þetta líka í starfi mínu sem prestur, í viðtölum við fólk í viðtalstímum og utan: allir eru kvartandi undan tímaleysi og álagi, útaf vinnu og peningamálum, börnum og öðru.

Við fengum að sjá hérna áðan hvernig stress myndast og hvaða álag það í raun og veru felur í sér.
Stress og álag getur líka birst í mörgum öðrum myndum, t.d. þegar fólk verður fyrir miklu áfalli í lífinu, þegar það missir ástvini sína eða verður fyrir öðrum missi, fjárhagslegum missi eða félagslegum missi, t.d. skilnaði eða heilsubresti. Þetta eru allt saman stresspunktar. Svo eiga allir sína drauma um að lifa hamingjusömu lífi, hvað svo sem hamingja er, en álagið og stressið eitrar einmitt þessa hamingjuleit fyrir mjög mörgum. Það sem mig langar til að gera hér í kvöld er að reyna að skoða aðeins ástæðurnar fyrir þessu álagi sem allir eru að tala um og þessu stressi sem allir tala um hringinn í kringum landið, eins og ég sagði áður. Þá sérstaklega hjá fjölskyldufólki og sem birtist, eins og við heyrðum áðan, í heilsubresti, þunglyndi og ákveðnu vonleysi.

Ég held að saga úr mínu starfi sé ágæt í upphafi til að benda á hvað ég er að tala um. Ég ætla að segja ykkur frá konu sem kom til mín hérna fyrir ekki svo löngu síðan. Ég ætla að kalla hana Grétu ef hún skyldi vera hérna í salnum í kvöld og þekkja sig en þetta heitir hún reyndar ekki.
Þegar hún kom í viðtalstímann var hún mjög óðamála, ég hafði á tilfinningunni að hún vildi helst klára þetta viðtal okkar sem fyrst og hún byrjaði strax á að tala um hvað sér væri illt í hnakkanum, öxlunum og svo kom líka það að hún var algjörlega hætt að sofa almennilega. Hún lægi andvaka hálfu og stundum jafnvel heilu næturnar. Hún vissi ekkert hvað hún ætti að gera í þessu. Hún var búin að fara til heimilislæknisins og fá pillur og hafði gert það reyndar áður, hafði jafnvel leitað á náðir áfengisins.
Ekkert hjálpaði henni, fannst henni. Þá spurði ég hana: Hvað ertu nú að hugsa um, þarna sem þú liggur andvaka á nóttunni? Þá kom það fram að hugsanirnar þeytast einhvern veginn hring eftir hring, hún fer að hugsa um börnin og vinnuna og manninn sinn.

Þau áttu þrjú börn, 8, 12 og 14 ára. Börnin eru á fullu í félagsstarfi, bæði í skólanum, strákurinn er í skátunum og stelpurnar eru í dansi og í tónlistarskóla. Svo þarf náttúrlega að keyra börnin í þetta allt saman og á nóttunni er hún að skipuleggja næsta dag, hvernig hún eigi nú að ná yfir þetta allt saman.
Svo eru það þessir foreldrafundir í skólanum og tónlistarskólanum og hjá skátunum. Hún þurfti líka að baka um næstu helgi, sagði hún, fyrir einhverja ferð sem átti að fara eitthvert. Hún sagði: Hvað gera börnin mín ef ég dett niður dauð á morgun? Hver á þá að skutla þeim fram og aftur? Það er málið. Henni fannst eins og hún væri að reka dálítið flutningafyrirtæki.

Þá spurði ég um manninn, hvort hann gæti ekki hjálpað til, en það var of lítið því að hann var alltaf á fullu í vinnunni og þurfti að vinna mikla yfirvinnu. Í vinnunni var mikillar vinnu krafist, það var mikið að gera. Svo voru þau að byggja og það þurfti að borga. Hún gat ekki unnið nema hálfan daginn því hún þurfti að skutla börnunum og þá var hann að vinna lengur. Einhvern veginn fór dagurinn í þetta hjá þeim. Hann reyndi samt alltaf að svæfa börnin þegar hann kom snemma heim, sagði hún.

Svo spurði ég: Hvernig líður ykkur nú saman? Hún varð nú að viðurkenna það að þeim hefði oft liðið betur og kynlífið hjá þeim var nokkuð sem þau mundu varla eftir lengur. Hún var svo þreytt alltaf og ef hún átti að draga það saman sem hún var að hugsa um á nóttunni, þá var hún að hugsa um það hvernig þetta myndi nú allt saman fara.

Þessi saga af Grétu er, held ég, ekkert einsdæmi. Það eru ótrúlega margir sem eiga í einhvers konar erfiðleikum, innan fjölskyldunnar bæði í samskiptum hjóna og í samskiptum við börn.
Það er ekki hægt að mæla á móti því á nokkurn hátt að það er mikið álag og það er líka margt sem veldur þessu álagi á fjölskyldunum. Ég er viss um að margir þekkja nokkuð vel ástand eins og það sem ég dró upp mynd af hjá Grétu.
Við getum bara tekið eitt dæmi: það er langur vinnudagur. Hér er mjög langur vinnudagur og það er ekki bara eitthvað sem mér finnst. Ef maður ber vinnudag á Íslandi saman við vinnudag á Norðurlöndum t.d., þá erum við með einn lengsta vinnudag sem þekkist. Hann þurfti að vinna mikið og lengi, maðurinn hennar Grétu. Hér eru lægri laun en þekkjast í löndunum í kringum okkur, þannig að það þarf að vinna lengi til að geta keypt neysluvörurnar sem eru dýrari en í löndunum í kringum okkur.

Það er sama hvað menn segja, það er dýrara að kaupa hér í matinn og dýrara að kaupa það sem þarf. Það þarf að koma yfir sig þaki einhvern veginn og þá er ekki hægt að fara í góðar leiguíbúðir eins og tíðkast í mörgum löndum í Evrópu. Hér þarf fólk að byrja á því að kaupa sér íbúðir og til þess þarf auðvitað að taka lán og þá erum við með dýrustu lán í Evrópu, hæstu vexti af lánum sem þekkjast og auk þess erum við með verðbætur. Þannig að það er erfitt að byrja á þessu öllu saman og unga fólkið þarf að vinna baki brotnu til þess að standa undir húsinu, matnum og öllu því sem börnin þurfa að fá.

Þá þarf nú ekki mikið að fara upp til að barnabæturnar skerðist en við erum eina landið í Evrópu þar sem barnabæturnar skerðast vegna tekna foreldra barna sjö ára og eldri. Það eru að vísu engin rök fyrir því vegna þess að eftir því sem börnin eldast þá eykst kostnaðurinn. Ég sé að hér inni er margt fólk á barneignaraldri sem ætti að vita þetta. Það þyrfti því frekar að hækka barnabæturnar, ef eitthvað væri, eftir að börnin komast á sjö ára aldurinn.

Þegar börnin stækka aukast kröfurnar, eins og ég sagði, á fjölskyldurnar og foreldrana. Eins og Gréta sagði, þá þarf að skutla börnunum fram og aftur í margs konar félagsstarf og svo þurfum við að borga fyrir þetta allt saman, íþróttirnar og tónlistarskólann. Svo þurfa börnin að eignast nýjustu græjurnar og tólin. Nú held ég að það sé orðin samkeppni hjá tíu ára börnum að eignast GSM-síma, það er svona hálfpúkalegt að vera 10-11 ára og vera ekki kominn með GSM og það þarf að kaupa þetta og þá þarf að vinna meir til að borga fyrir þetta.

Þannig að þessar kröfur þær minnka ekki stressið á heimilinu. Svo er það nú oft þannig að foreldrar lenda í ákveðinni samviskuklemmu: Hvað á ég að vinna lengi, hvað á ég að nota mikinn tíma fyrir börnin og hvað á ég t.d. að gera þegar börnin mín veikjast? Það er búin að geisa harðskeytt flensa á landinu, eins og mörg ykkar sjálfsagt þekkið og kannist við, og ef við eigið börn þá þurfum við aldeilis að herða á stresstaugunum vegna þess að við höfum bara sjö veikindadaga á ári til þess að vera heima hjá börnunum okkar.
Aftur á móti hafa frændur okkar á Norðurlöndunum 90-150 daga á 85% kaupi til þess að vera heima hjá börnunum sínum þegar þau veikjast. Þannig að þetta stress sem hellist yfir þegar barnið er búið að vera veikt í sex daga þá fer maður að líta á klukkuna: Guð minn góður, fer barnið ekki að hressast svo ég geti komið því í skólann á morgun, þegar sjöundi dagurinn kemur. Þá verður jafnvel að semja við vinnuna um að fá að vera heima lengur og endurskoða fyrri samninga.

Ég er búinn að gera svona hugtak yfir þessa fjölskyldu, þessa ofurstressuðu íslensku fjölskyldu, og ég vil kalla hana túrbófjölskylduna. Það tengist ofurlítið þessu sem hún sagði áðan um stress og vélar. Þið vitið öll að ef þið eigið túrbóbíl eða túrbójeppa, þá er þetta alveg frábært farartæki, maður getur keyrt lengst upp á fjöll og jökla og göslast í gegnum snjó og for.
En það er bara einn galli. Ef maður er með svona góðan bíl, þá er hætta á að maður fari aðeins of langt, í of mikla drullu, of mikinn snjó, og sitji fastur, drifskaftið gefi sig, vélin gefi sig, eitthvað gefi sig og maður kemst ekki lengra. Það er það sem gerist því miður hjá túrbófjölskyldunni, þessari duglegu fjölskyldu sem keyrir allan daginn til þess að ná öllu þessu. Hún keyrir á aukaorkunni og meira en það. Hvað bregst fyrst? Það eru kannski samskiptin innan túrbófjölskyldunnar, þau verða svolítið yfirborðskennd. Markmiðið verður að koma á framfæri upplýsingum.
Hver á t.d. að sækja börnin í leikskólann á morgun. (Hér sé ég að vinkona mín í salnum glottir en hún sækir börnin sín í leikskólann á hverjum degi.) Eins og við öll gerum, þá þurfum við að passa tímann. Ég heyri það hjá mörgum leikskólakennurum að það gerist æ algengara að foreldrarnir gleymi börnunum á leikskólanum: ætluðu að sækja börnin kl. fjögur en koma svo kl. hálfsex: Úps, því miður, við bara gleymdum að koma. Og koma þá náttúrlega í algeru æðiskasti til að ná í börnin. Þannig að það þarf nú að skipuleggja þetta. Svo þarf að sinna öllum heimilisverkunum og það þarf náttúrlega að borga reikningana og allt það.

Oft er lítill tími aflögu til að ræða það hvernig manni líður, t.d. hvert er sambandið innan fjölskyldunnar okkar að stefna. Og eins og ég sagði, þetta með kynlífið, öll spennan hverfur úr kynlífinu hjá fólki og það verður þá gjarnan eins og einhver kvöð, enn ein rútínan, eitthvað sem við þurfum að gera, eitthvað stress, bara svona til að sýna að það sé nú allt í lagi. Bara svona til að klára það líka. Svo kannski smátt og smátt, eftir því sem gengur á túrbóvélina, æ þá missum við nú kraftinn í það líka og sleppum því.

Þetta samskiptaleysi sem kannski stafar af þessu stressi, sem er kannski of mikið stress, þetta stress sem fer yfir mörkin, það kemur svo niður á t.d. samskiptunum við unglingana.
Foreldrar hafa ekki tíma til að sinna unglingunum almennilega og mér finnst kannski afleiðingarnar liggja nokkuð vel fyrir í skoðanakönnunum sem sýna að meirihluti unglinga á aldrinum 13-16 ára hér á Íslandi óttast ofbeldi í umhverfi sínu.
Það er eitthvað sem veldur því að krakkarnir okkar á þessum aldri eru hrædd við ofbeldi, hrædd við eitthvað sem þau ekki almennilega gera sér grein fyrir en kannski stafar líka af samskiptaleysi við foreldra og fullorðið fólk.

Ég er aðeins búinn að tala hérna um meðalfjölskylduna, þessa túrbófjölskyldu, og við getum tekið líka bara svona venjulega ungbarnafjölskyldu sem er á kafi í þessu öllu saman og hugsar kannski með sér að þetta myndi nú allt ganga ef þetta væri eins og lítið fyrirtæki þar sem væri aðeins fleira starfsfólk og meiri peningar í rekstrinum. Þá myndi allt ganga upp. En svo er ekki, þau eru bara tvö, jafnvel bara eitt, og peningarnir eru nú ekki meiri en þeir eru.

Svo eru líka margar fjölskyldur, og við megum ekki gleyma því, sem ekki eru túrbófjölskyldur, hafa ekki þennan aukakraft. Hvað verður um þær? Ég ætla nú ekki að fjölyrða um stöðu öryrkja, við þekkjum öll stöðu öryrkja, en mér er sagt að öryrkjar eigi líka börn. Og hið sama má segja um þá sem missa heilsuna af einhverjum ástæðum, fólk sem er frá störfum í langan tíma vegna veikinda, fer á sjúkradagpeninga, missir jafnvel grundvöllinn undan framfærslu heimilisins. Það kemur niður á börnunum því að sjúklingar eiga víst líka börn. Öllu þessu fylgja andvökunætur og aukið stress. Hvað verður bara um okkur næstu dagana, mánuðina og vikurnar?

Ég er nú aðeins búinn að minnast á og tæpa á ýmis spjót sem standa á fjölskyldum landsins og valda svona stressi og áhyggjum og andlegum og líkamlegum erfiðleikum og sjúkdómum. Kannski getum við talað meira um þetta hér á eftir, ef spurningar koma sem snerta þetta.
Auðvitað er margt af þessu heimatilbúin vandamál sem við gætum í raun og veru lagað ef við tækjum á þeim, vegna þess að við hér á Íslandi ættum hæglega að geta búið fjölskyldunni miklu lífvænlegri og manneskjuvænni skilyrði en við í raun og veru gerum.

Við þyrftum kannski bara að setjast niður og hugsa með okkur og segja sem svo: Heyrðu, eitthvað af þessu sem ég var að telja upp, er ekki eitthvað sem við getum gert til að skapa umhverfi sem hæfir fjölskyldunni betur, minnkar stressið, þó að það verði ekki nema til þess að við gleymum börnunum okkar ekki nema einu sinni í viku á leikskólanum.

En svo þarf auðvitað hver að byrja heima hjá sér. Við getum ekki bara beðið eftir að stjórnvöldin og fyrirtækin taki völdin í landinu og forgangsraði með hag fjölskyldunnar í huga. Við þurfum líka að forgangsraða hvert og eitt heima hjá okkur. Og þar finnst mér að trúin komi til skjalanna.
Kristin trú byggir á þessari grundvallarforsendu að sérhver maður sé dýrmætur og að skapa samfélag þar sem mannrækt er höfð að leiðarljósi. Það er í raun og veru takmark kristinnar trúar. Trúin hjálpar mikið til.
Hún nefndi það hér áðan, sálfræðingurinn, að þegar okkur líður illa þá leitum við í íhugun og slökun og annað slíkt til að hvíla okkur og trúin er ein af þeim leiðum sem við getum haft til þess að mæta áföllum og stressi þegar þetta dynur yfir. Kannski sérstaklega þegar ýmiskonar áföll dynja yfir, eins og missir og sjúkdómur og dauði ástvina, þegar við kannski missum fótanna og verðum algerlega bjargarlaus. Þegar við getum ekki einu sinni farið á námskeið og farið í íhugun og gert eitthvað til að slaka á; við erum bara, eins og krakkarnir segja, lost. Þá höfum við eitthvert haldreipi í trúnni sem við getum dregið okkur með á þurrt, upp úr þessum myrka pytti sem umkringir okkur. Þetta er ég búinn að sjá oft í mínu starfi og reyndar búinn að reyna persónulega í mínu lífi þegar ég hef lent í áföllum eins og víst enginn sleppur við.

En umfram allt hjálpar trúin okkur að beina áherslunum inn á nýjar brautir, til að forgangsraða upp á nýtt og jafnvel skipta um gír og skipta út túrbóvélinni og fá okkur kannski eitthvað minni vél.
Gætum við kannski ekki lært það að vera opnari fyrir þörfum hvers annars á heimilinu, lært að sýna hvert öðru meiri hlýju og virðingu, hrósa hvert öðru aðeins meira, grínast aðeins meira saman?

Og umfram allt, og það ætla ég að hafa sem lokaorð, gætum við ekki gefið fjölskyldunni, okkur sjálfum og börnunum og unglingunum bara aðeins meiri tíma? Því tíminn er það dýrmætasta sem við eigum og það er enginn sem veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur.

Þakka ykkur fyrir.

Related posts

Grasaferð hjá Heilsustofnun

Sumarlokun skrifstofu NLFÍ

Hlaup fyrir lífið – Hugleiðing um hlaup