Sykur – Málþing í október 2000

Málþing Náttúrulækningafélags Íslands um sykur.

Greinar frummælenda eru hér:

Jónas Kristjánsson inngangur:
Ágætu málþingsgestir! Mig langar til að biðja ykkur að fara aðeins með mér aftur í tímann, sjötíu og sjö ár nánar tiltekið, norður í Skagafjörð og Sauðárkrók 10. mars 1923.
Þá fór þar fram það sem síðar varð Sæluvika Skagfirðinga, eða fyrirrennari hennar, og meðal þeirra félagssamtaka sem tóku þátt í þessari hátíð var Framfarafélag Skagfirðinga.
Þetta félag stóð fyrir fyrirlestrum og umræðum um landsins gagn og nauðsynjar og þennan dag var framsögumaður héraðslæknirinn á staðnum sem var þá nýkominn úr einni af mörgum ferðum sínum til Bandaríkjanna þar sem hann kynnti sér það sem hann taldi vera hið nýjasta og besta í læknisfræðinni. Fundargerðir þessa félags eru allar varðveittar í Héraðsskjalasafninu á Sauðárkróki og þetta erindi er varðveitt í fullu lagi.

Ég ætla nú ekki að segja ykkur mikið frá efni þessa erindis héraðslæknisins sem hét Jónas Kristjánsson og var raunar afi minn, en hann fjallaði m.a um vítamín sem þá voru nýtt fyrirbæri hér á Íslandi og hann fjallaði líka um atriði eins og gamlan þjóðlegan íslenskan mat. Hann hafði séð gróðurhús í Bandaríkjunum og lagði til að Íslendingar byggðu glerhús til þess að rækta grænmeti í, til þess að gera fæðið fjölbreyttara. En töluverður kafli í hans ræðu fjallaði um sykur. Hann hafði m.a. gert rannsókn á tannskemmdum barna í héraðinu og samkvæmt þeirri athugun, sem stóð yfir í eitt ár, voru 80% barna á Sauðárkróki með skemmdar tennur en 30% barna í sveitinni. Á þessum tíma er velmegun búin að vera mikil í landinu í tvo áratugi og á þessum tíma hafði sykur, sem var nánast lítið þekktur í landinu áður, verið fluttur inn og Jónas taldi að þessi mikli munur sem væri á tannskemmdum barna úr sveitinni og barna úr kaupstaðnum stafaði af því að þessi nýjung sem voru sætindi, gos og kökur, væru mikið notaðar á Króknum en ekki til sveita. Hann talaði við foreldrana og fékk þar staðfesta þá skoðun sína að umtalsverður áhættuþáttur í tannskemmdum væri notkun á sykri.

Í þessu erindi talaði hann ýmist um viðbættan sykur eða hreinsaðan sykur; þetta er endurspeglun af því sem í Ameríku er kallað refined sugar eða added sugar, það er notað dálítið sitt á hvað þó að hugtökin séu ekki eins. Þetta er eitt af því sem hann komst að í þessum fyrirlestri. Annað sem hann sagði var að verulegur þáttur af meltingarsjúkdómum, sem þá voru alveg nýir og hann hafði ekki þekkt svo mikið austur á Héraði þegar hann var héraðslæknir þar t.d. magasár, krabbamein og sykursýki og hjartamein af ýmsu tagi væri orsakað af sykuráti.

Hann fjallar um þetta nokkuð ítarlega en þá var þekkingin ekki eins mikil og núna, svo að þetta eru meira getgátur hjá manninum. Hann taldi að þessi breyting sem hann hafði séð á sínum ferli þarna komu hjartamein, krabbamein, sykursýki og magaveiki sem hann þekkti lítið áður stafaði fyrst og fremst af sykuráti. Það þriðja sem hann sagði og var nokkuð merkilegt, var að hann talar orðrétt um sykurnotkun sem fíkn. Að vísu er hann ekki viss um það og orðar það svona: „Ótrúlegt er að sykurfýsnin sé orðin svo sterk hjá fólki að það fái ekki við hana ráðið, eða ef svo er er það líkt og um tóbaks- og vínlöngun.“
Hann sá það sem sagt að fólk sem hann ráðlagði að nota minni sykur það reyndi það en gat það ekki. Hann túlkaði það svo að þetta væri fíkn sem verkaði á svipaðan hátt og aðrar fíknir. Þetta er nú það sem hann sagði um sykur í þessu erindi sínu.

Og af því að hann var stofnandi þessa félags sem heldur þessa ráðstefnu þá er áhugavert fyrir okkur, sjötíu og sjö árum seinna, að taka eftir því og aðeins að hugleiða hvað hefur gerst og að hvaða leyti skoðanir hafa breyst á þessum tíma. Út af fyrir sig held ég að enginn efist nú lengur um að sykur sé meginorsakavaldur tannskemmda, hvort sem þar er um að ræða viðbættan sykur eða hreinsaðan sykur. Hitt er kannski nýrra fyrir mönnum hér en ég held þó að segja megi að vísindalega samfélagið í Ameríku sé komið á þá skoðun að sykur sé mjög sterkur áhrifavaldur í þessum sjúkdómum sem héraðslæknir-inn á Sauðárkróki nefndi. Til dæmis má nefna að þrjátíu og níu samtök og stofnanir um heilbrigðismál í Bandaríkjunum skoruðu fyrir ári, þ.e. 3. ágúst 1999, á matvæla- og lyfjamálaráðuneyti Bandaríkjanna að láta skrá nákvæmlega á umbúðir á vörum hversu mikill viðbættur sykur væri í þeim.

Ég vek athygli á því að þeir nota hugtakið viðbættur sykur frekar en hreinsaður sykur þó að þessi hugtök hafi verið notuð dálítið sitt á hvað. Skoðun þeirra er mjög svipuð þeirri sem kemur fram hjá lækninum: þetta er hreinsuð vara, ekki eðlileg vara; hún er tóm það er ekkert í sykri nema sykur o.s.frv. Þeir telja upp ýmsa sjúkdóma sem af þessu geti stafað.
Í Bandaríkjunum er sem sagt núna mikill þrýstingur á að vara sem inniheldur viðbættan sykur sé sérstaklega merkt svo fólk geti varað sig á henni ef það þurfi á því að halda. Hvað snertir síðasta atriðið er kannski flóknara um að tala því að menn eru kannski ekki taldir mjög vísindalegir ef þeir segja að sykur sé fíkniefni. En samansöfnuð reynsla margra er þó a.m.k. þáttur sem verður að taka tillit til og ég ætla að benda á að í Bandaríkjunum hefur um nokkurra áratuga skeið verið til mjög öflugur og fjölmennur félagsskapur sem heitir Overeaters Anonymous og er stofnaður á grundvelli annars félagsskapar sem heitir Alcoholics Anonymous og hefur náð feiknalegum árangri í að gera drykkjumenn þurra, bæði í Bandaríkjunum og hér á Íslandi, og ég held að þetta sé stærsti félagsskapur á Íslandi því að hér starfa um tvö hundruð deildir og nokkur þúsund manns eru virk í þessu í hverri viku og ég held að enginn annar félagsskapur geti státað af því.
Overeaters Anonymous hefur hins vegar lítið verið starfandi hér en þó eitthvað; það er sem sagt sams konar félagsskapur um ofát. Það eru til miklu fleiri samtök af þessu tagi í Ameríku t.d. Narcotics Anonymous, það er um eiturlyf af ýmsu tagi. Það eru líka til félög um annað en efni, eins og t.d. félög um ferli, eins og spilafíkn. Allt er þetta byggt á svipuðum grunni: að þetta sé fíkn sem maðurinn ráði ekki við og þess vegna þurfi hann að fara í ákveðið meðferðarferli svo hann geti náð tökum á þessu með hjálp annarra.

Ég hef kíkt aðeins í bókmenntir þessa félagsskapar. Það fyrsta sem alveg eindregið er nefnt er að menn eigi að forðast viðbættan sykur, ekki 99% heldur 100%. Það er grundvallaratriði í þessum félagsskap. Þótt það sé kannski ýmislegt fleira sem mönnum ber að forðast þá er þetta nefnt fyrst og síðast. Þetta er nú bara reynsla fólks og ekki nein vísindi. Fyrir þremur árum birtist í tímaritinu Time forsíðugrein um fíkn og var þar fjallað um niðurstöður rannsókna sem bentu til þess að það væri sérstakt boðefni í heilanum, svokallað dópamín, sem færi á rugling í sumu fólki en ekki öðru og á þeim grundvelli yrði þetta fólk fíkið í einhvern hlut en annað fólk yrði það ekki. Þetta er sem sagt galli í sumu fólki sem byggist á því að þetta dópamín sem er taugaboðefni, verkar ekki rétt eða framleiðist ekki á réttan hátt. Það er sameiginlegt einkenni margra fíkla að það er ruglingur á þessu boðefni.

Eitt af því sem nefnt var án þess að það væri nein sérstök tilgáta var að sykur gæti verið fíkniefni, gæti haft þessi áhrif á dópamínið. Ég býst við að á næstu fimm til tíu árum verði gerðar rannsóknir sem hægt verði að byggja á og sem svara þeirri spurningu hvort sykur sé fíkniefni eða ekki. Að minnsta kosti er þetta komið alvarlega inn í umræðuna í Ameríku og verður fróðlegt að fylgjast með því sem gerist þar.

Ég þarf svo líka að segja ykkur frá því í lokin að á föstudegi fyrir tveimur vikum kom amman hérna á heimilinu til afans með eitt af barnabörnunum úr leikskóla. Var barnið bitið á handleggjum og baki.
Mér þótti þetta dálítið undarlegt og spurði hvers vegna. Jú, það var afmæli í leikskólanum og börnin verða svo tryllt í afmælunum. Jájá, fjallar[?] eitthvað um það? Já, það er svona sykurfyllirí. Svo fór ég svona að kanna þetta í tilefni af þeirri ráðstefnu sem við erum á hér og það reyndist vera umræðuefni milli foreldra og fóstra á leikskólum hvort það eigi ekki að minnka þetta afmælishald og fækka nammidögum og annað slíkt, vegna þess að börnin komist á sykurfyllirí. Þá fari í gang geðbreyting sem fylgir öllum fíkniefnum og þarafleiðandi verði börnin erfiðari í umgengni meðan þetta fyllirí stendur yfir.

Þetta er samt alvarlegt umræðuefni. Þetta er ekki vísindalegt umræðuefni en bara það sem talað er um og mér finnst líklegt að þarna sé þetta ágæta fólk með fingurinn á einhverju sem koma mun í ljós í náinni framtíð að skiptir máli. Þetta var aðeins svona sögulegur inngangur að þvsí sem fjallað verður um hér.

Ég vil óska ykkur farsældar á þessari ráðstefnu, að þetta komi vel út hér í kvöld, og þakka fyrir mig. Jónas Kristjánsson 

Related posts

Skjáfíkn – Málþing nóvember 2024

Skjáfíkn – Málþing

Villtir matsveppir á Íslandi – Sveppamó