Ólafur Mixa – Áhrif streitu á líkamann

Ólafur Mixa heimilislæknir, flutti erindi um áhrif streitu á líkamann.

Góðir fundarmenn. Það hefur fallið í minn hlut að fjalla um áhrif streitu á líkama okkar. Það er ábyggilega út frá þessari hefðbundnu hugsun að ég sem læknir eigi að fjalla um líkamann og svo eigi aðrir að fjalla um sálina. Þetta eru svona hefðbundin viðhorf, sprottin upp fyrir mörgum öldum, kennd við heimspekinginn Descartes og tvíhyggju hans að sál og líkami séu tvö mismunandi element þó þau kannski eigi samskipti við og við en síðan búið spil.

Ég hef sem starfandi heimilislæknir oft fundist maður þurfa að berjast við þessa hugmynd í læknisfræðinni innan um hina hefðbundnu sýn á lækningar sem vélrænt ferli einhverra örfárra orsakaþátta til sjúkdóma. Það er hins vegar engin ný bóla að sál og líkami séu miklu meira samrunnin en Descartes karlinn hélt og ég man eftir statistík alveg frá fimmta áratugnum þar sem kom mjög vel fram að streita í ýmsu formi hafði gífurleg áhrif á sjúkdóma og sjúkdómatíðni í fólki.

Það er til ákveðinn streituskali sem oft er notaður til þess að mæla hina ýmsu áhrifavalda hjá fólki, hina ýmsu þætti. Þeim eru gefin tölugildi og síðan er reiknað saman og ef menn ná vissu tölugildi þá eru þeir í mikilli streitu. Efst á blaði þar er makamissir. Það kom fram á þessum árum sem ég nefndi, fimmta áratugnum, mjög fljótt að þeim sem höfðu misst maka var miklu hættara við að fá alls konar sjúkdóma. Og þá ekki bara þá sem við venjulega tengjum streitu  magasár, magakrampa o.þ.h.  heldur beina sjúkdóma eins og berkla, krabbamein, gigt, liðagigt og ýmislegt þess háttar. Og það munaði ekki smáu, slíkt fólk gat átt þrefalda, ferfalda, fimmfalda hættu á að fá slíka sjúkdóma fyrsta árið eftir makamissinn. Svo enn í dag þá lít ég á fólk sem ég stunda og hefur misst maka, sem sérstaka áhættusjúklinga einu ári seinna.

Svo í mínum huga eru sál og líkami ekki aðskilin, heldur vinna þau svo mikið saman og eru svo mikið samtengd að þar skilur ekkert á milli. Í rauninni eru læknavísindin að komast meira og meira inn á þessa skoðun, eftir því sem rannsóknir sýna það svart á hvítu að ýmiskonar efnahvörf í líkamanum, úr heilanum, berast beint ofan í mótefnakerfið, í varnir líkamans, og hafa þar áhrif til góðs eða ills.

Streitan í sjálfu sér, ef það hefur komið fram, þarf ekkert að vera slæm. Við erum í rauninni að tala um spectrum þar sem streitan er annars vegar og rósemd hins vegar. Þetta eru tveir aðskildir pólar og það sem meira er og þess vegna er ég að nefna þetta hér, að hvor póllinn um sig, hvort fyrirbærið um sig í mannslíkamanum, á sér miðstöðvar í heilanum sjálfum. Það er ákveðin miðstöð sem stýrir streituviðbrögðum líkamans og hún hefur verið þekkt lengi, í svokallaðri stúku í heiladinglinum. Hún á þar sína miðstöð og þaðan er stjórnað öllum streituhormónum, adrenalíni, cortison og öðrum streituhormónum, og stýrir í rauninni streituviðbrögðum í flótta- og árásarhvötinni eins og hefur komið fram hérna. En það sem er nýrra af nálinni er það að það hefur fundist í næsta nágrenni við streitukjarnann annar kjarni sem er rósemdarkjarninn og hann stýrir öllu í öfuga átt.

Streituvaldarnir fyrir utan hvetja og virkja streituvaldinn en við getum líka virkjað rósemdarvaldinn til dáða, til dæmis með þeim úrræðum sem Bee mun nefna hér í lokin, það er ekki bara hvíld; við skulum segja, slökun er ekki bara hvíld, passív, hún er virkt ástand, ef það er gert á réttan hátt til að virkja einmitt þennan kjarna sem ég er að tala um. Tíminn leyfir ekki að fara nánar út í það.
Í rauninni er ég þegar búinn að syndga upp á náðina vegna þess að mitt hlutverk hér var, eins og ég sagði, að tala um líkamleg áhrif, streitu og heilbrigði, og að þekkja streituna og greina hana út frá læknisfræðilegu sjónarmiði.

Rósemd og streita eru sinn hvor póllinn en þau fara líka mjög saman og spinnast innbyrðis, rétt eins og sál og líkami almennt. Ef við erum á leiðinni í fríið þá hlökkum við til, við erum að fara í hvíldina og við erum að fara og slappa af, en um leið þá er pínulítill kvíði í okkur: skyldi nú vera rigning, skyldi rigna lárétt og skyldi springa á dekkinu og skyldum við fá pláss þarna, eða öll tjaldstæði full o.s.frv. Svo þarna strax koma kvíðinn og rósemdin saman.

Hér er ég að leggja áherslu á að ró og streita eru hvortveggja góð og nauðsynleg í hófi. Þetta er svolítið ruglingslegt og veldur kannski svolítilli streitu. Ég ætla því að raða þessu svolítið niður. Fyrst slappar maður af og þá fær maður pínulítið öruggari stjórn á þessu.
Þetta er svolítið dimmt og ekki ennþá nógu gott, svo við getum í rauninni lagað eitthvað betur til. Nú er maður búinn að taka til svolítið og þá kemur boðskapurinn loksins sæmilega fram: Ró er góð og hún er nauðsynleg. Streita er líka góð og nauðsynleg upp að vissu marki, eins og kom fram hjá Margréti. Við þörfnumst streitunnar til þess að virkja okkur og miða áfram. Of mikil ró er ekki góð, hún getur verið skaðleg.

Hreyfingarleysi, átakaleysi og okkur miðar ekki áfram. Við getum jafnvel dáið úr leiðindum ef út í það fer. Of mikil streita er hins vegar, eins og við höfum heyrt svo rækilega, ekki góð og hún er skaðleg til sömu tíðar.

Svoleiðis, að eitt af því sem ég var að reyna að sýna hérna er að við viljum allavega koma röðun á hluti og streituvörn felst oft í því að koma röðun á hluti, koma röðun á hugsun okkar. Hugræn atferlisfræði er aðferð til þess að koma röðun á hugsun okkar og viðbrögð. Það er kennd tímastjórnun sem partur af streituvörn, svoleiðis að eitt af því sem hjálpar okkur að vinna bug á streitu er að hafa stjórn.

Ég ætla aðeins að fara út í það. Það er nokkuð búið að fara út í það af hverju streita er gagnleg. Hún bara hreinlega hjálpar okkur til að lifa af. Hún hefur hjálpað frummanninum, eins og kom vel fram hérna, til að bregðast við áreiti sem er tígrisdýrið. Hún hjálpaði frummanninum til að veiða og sigrast á hlutunum. Það gerir hana nauðsynlega.
Við erum á varðbergi gagnvart streitu, við vörumst hætturnar vegna hennar og við hlaupum í burt ef við verðum hrædd. Við flýjum og þar er komin þessi árásar- og flóttahvöt sem Margrét gerði svo skemmtileg skil.

En þá langar mig til að koma aðeins að einu, fyrst tígrisdýrið var til umræðu, að maður hefur kannski séð að tígrisdýr elta antilópu og éta hana. Þá er það búið að setja sig í árásarstellingarnar og allt fer í gang, adrenalínið og allt, og tígrisdýrið nær antilópunni og étur hana. Strax og þegar það er búið að éta hana, þá kemur slík værð yfir það. Það er í hálfgerðri vímu. Þarna er talið að sé strax verið að virkja hinn kjarnann sem ég nefndi áðan, rósemdarkjarnann.
Jafnvel þau dýr sem komust undan á flóttanum frá tígrisdýrinu eru allt í einu voða dreymin og fara að geispa og verða bara afslöppuð. Svo þau ná því að halda jafnvæginu í streitu og komast alveg til baka á frumpunktinn með því að virkja hina miðstöðina. Þessu náum við ekki í dag. Þetta er talið ein aðalorsök fyrir streitunni í dag. Við erum alltaf að fara upp í streitu. Við náum aldrei að fara niður aftur á punktinn. Einhver vitur maður hefur sagt að við verðum fyrir svona 50-60 áreitum á dag í stórborginni. Streitan hleðst upp og við náum aldrei að slappa af, nema við gerum eitthvað sérstakt í því.

Ég er eiginlega búinn að fara í gegnum þetta. Hvað gerir streitan?
Hún býr líkamann og sálina undir átök að gefnu tilefni. Það eru áreitin, þessi tilefni. Þarna kemur annað mjög þýðingarmikið. Áreiti geta bæði verið utanaðkomandi en þau geta líka verið inni í okkur sjálfum. Eins og Margrét sagði, eru það í rauninni viðbrögð okkar sjálfra við streitunni sem skipta máli.

Af því að maður vill vera voðalega vel sigldur þá slettir maður auðvitað alltaf svolítið útlensku þarna, en þið sjáið að þarna stendur bottom up, utanaðkomandi áreiti, það þýðir í rauninni það að það berst upp til heilans það sem við verðum fyrir með skynfærunum hvar sem þau eru í líkamanum. En það getur verið hina leiðina, streita getur átt uppsprettu sína og gerir það oft, inni í heilanum. Draumar, þrár, losti, hvað sem er.

Manni líkar ekki við einhverja persónu, hún hefur móðgað mann einhvern tíma. Svo sér maður hana á götunni og maður fer yfir á gangstéttina hinum megin því persónan veldur manni streitu. Þetta er eitthvað sem maður skapar sjálfur bara út úr minningunni. Ytri áreitin og sjálfsprottin áreiti, það er það.
Sjálfsprottnu áreitin eru heimatilbúin og það var líka búið að meðhöndla það hér áðan. Þau eru tvenns konar. Það eru til bráð áreiti, brátt áreiti, skyndilegt, sem veldur snöggri streitu með alveg sérstökum prósess í líkamanum, lífeðlisfræðilegum og lífefnafræðilegum prósess. Þar er adrenalínið númer eitt. Ég kem betur að því hvað það gerir.

Síðan er það langvinna streitan. Þar eru önnur streituhormón, eins og cortison, sem skipta meira máli. Þau eru svona frekar til jafnvægis en halda þó við streitu líka. Þarna erum við að tala um vinnuálag, hávaða, þröng og fleira sem hér hefur verið rætt.

Eitt sem ég vildi draga fram hér. Sumt fólk er þannig innstillt að það gerir ekki neitt nema það sé í streitu. Fólk getur verið háð streitunni. Það getur verið fíkið í streitu. Það er að koma betur og betur fram hvílík fíkn það getur verið. Það eru til fíklar á mörgum sviðum sem eru fyrst og fremst streitufíklar. Þeir verða háðir þessum hvata sem adrenalínið og streituálagið gera líkamanum og geta eiginlega ekki fúngerað öðruvísi.

Það er til fjöldi fólks sem alltaf kemur of seint á fundi. Ég verð að játa að ég er einn af þeim. Ég fer aldrei af stað fyrr en ég er kominn í tímaþröng. Ég vil gera allt mögulegt annað fyrst og finnst ég vera að sóa tímanum með því að mæta of snemma á fund. Fyrir það er ég alltaf of seinn á fundi, nema kannski helst núna því ég átti aðild að þessu.

Þá kemur spurningin og ég er eiginlega búinn að fara inn á það. Hvar á streitan heima?
Ég nefndi þessa ákveðnu kjarna en aðalatriðið er það að hún á fyrst og fremst heima í hugarheimi. Streitan er innra hugarstarf. Það er hvernig við vinnum úr henni með okkar hugarstarfi, hvernig við túlkum áreitið og hvernig við bregðumst við áreitunum sem ræður í rauninni streitumagninu. Hún er sem sagt ekki sama og sjálft áreitið.
Bílflautið er ekki streita öðruvísi en að við bregðumst við því og það pirrar okkur. Það er í rauninni ekkert áreiti þó að einhver sé alltaf að ræskja sig við hliðina á manni, nema við látum það pirra okkur smám saman. Það er síðasta setningin þarna: frekar upplifun sjálfsins en raunveruleg hætta. Hætta er orð sem oft kemur fyrir í tengslum við streitu, það er eitthvert hættuástand sem við höldum á einn eða annan hátt, jafnvel þótt við búum til kringumstæðurnar sjálf. Við getum, eins og Margrét kom svo vel inn á, ætlað okkur of mikið. Ef við náum ekki ágætiseinkunn þá erum við mjög vonsvikin.

Viðbrögð eins og okkar eru líkamleg, andleg, atferlisleg og félagsleg. Ég fer, samkvæmt verkaskiptingunni, auðvitað ekkert í annað en þau líkamlegu enda er búið að fjalla mikið um hin, ekki síst þau atferlislegu og félagslegu. Og ég er búinn að tala um stjórnina og þarna koma tvær setningar: Eftir því sem streita eykst minnkar sjálfsstjórnin. Það er líka búið að nefna það. Því meiri einbeiting sem þú getur náð, því minni streita. Þetta er allt saman spurning um stjórn.

Þá erum við komin að hinum eiginlegu líkamlegu viðbrögðum.
Þegar við verðum fyrir streitu og þurfum að bregðast við henni og líkaminn gerir það, þá koma fram þessi viðbrögð:
– Aukin efnaskipti almennt, það gerist allt hraðar í líkamanum.
– Aukinn hjartsláttur.
– Blóðþrýstingurinn hækkar.
– Öndunarhraðinn eykst.
– Vöðvaspenna eykst mikið.
– Ýmsar æðar dragast saman.

Líkaminn stýrir eins og umferðarlögregla blóðstreyminu um líkamann eftir því hvað er að gerast. Þegar við erum búin að borða beinist blóðstreymið til meltingarfæranna. Ef við erum að fara að flýja skíthrædd þá beinist blóðstreymið til vöðvanna til að við getum hlaupið nógu hratt.
Breyting á storkuhæfni líkamans og veiklun mótefnamyndunar. Inn á þetta kom ég hér áðan.

Þetta eru allt saman viðbrögð, sum mjög alvarleg og sum mjög langvinn. Sum hafa áhrif á allt heilsufarið í lengd og bráð. Einkennin sem þau valda þá og sem við finnum eru í vöðvunum:
– Hálsverkur, verkur í hálsi, herðum og höfði; tannagnístran (ég skal, ég verð) getur valdið verkjum hingað og þangað.
– Æðarnar, handakuldi, mígren (miklu algengari), kaldur sviti.
– Blóðflögurnar límast saman, samloðunareiginleikinn eykst. Það getur orðið til þess að streittur maður fær beinlínis hjartaáfall, það stíflast æð. Æðaveggir geta jafnvel sprungið í einu vetfangi. Það er jafnvel talið algengara en haldið er.

Götudóni ræðst á gamla konu, rífur af henni veskið og lemur hana svo, og gamla konan deyr. Við krufningu kemur svo í ljós að hjarta hennar hefur beinlínis sprungið, eins og í keltneska ævintýrinu um Tristan og Ísól þegar hjarta Ísólar sprakk þegar hún missti Tristan.
Gömul ævintýri sem greina frá því að hjarta springi geta því haft eitthvað til síns máls. Það er akút streituástand. Annað sem getur hent hjartað er að það kemst óregla á hjartsláttinn og hjartaöng, hin fræga angina pectoris.
Meltingarfærin:
-Iðrakrampar, magabólgur, magasár, iðrabólga, þetta eru allt saman mjög klassísk streitueinkenni til langframa.

Svo er það sjálft mótefnakerfið. Ef það er bælt getur það valdið, eins og ég nefndi áðan, krabbameini, liðagigt eða tíðu kvefi. Það er ekki langt síðan sýnt var fram á að krakkar fengu oftar eyrnabólgu í fjölskyldum þar sem mikil streita var, í túrbófjölskyldum.

Þá erum við í rauninni komin að því að greina þessi mörgu stig, hin ýmsu áhrif sem streitan hefur á okkur. Henni hefur verið skipt niður í sex stig. Þetta er svolítið dramatískt og gaman að setja þetta upp og ágætt að hafa til viðmiðunar en maður getur þó ekki tekið þetta of hátíðlega. Þetta grípur auðvitað allt hvað inn í annað, öll þessi stig, og erfitt að greina nákvæmlega hvort maður sé á einhverju vissu stigi. En það er ágætt fyrir menn að vita þetta kannski, til sjálfsþekkingar, að sumu leyti, til að sjá hvar þeir eru staddir í ferlinu.

Hið fyrsta af þessum sex stigum er með þessum hætti og það er í raun það jákvæða, það er vinnustundarinn(?); maður kýlir sig á stað, drífur í hlutunum, brettir upp ermar, setur undir sig hausinn og vinnur verkið. Það er unnið í kapp við tímann. Próflestur er klassískt dæmi og eins að halda fyrirlestur fyrir streitumálþing. Það eykur kappsemina, skilningarvitin skerpast, það eykur árvekni. Veldur kannski svolitlum svefntruflunum en skítt með það í eitt eða tvö kvöld. Orkan verður meiri, drifkrafturinn eykst og afköst aukast. Þetta eru jákvæðu hliðarnar. Það er á þessu sem við náum fram. En, eins og ég sagði áðan, það getur orðið ávani. Menn fúngera ekki nema bíða til síðustu stundar og valda sjálfum sér svolítilli streitu til þess að ná áfram.

Annað stigið er í rauninni að nokkru framhald af hinu, þetta er bara eitt continuum. Þá er ástandið orðið til lengri tíma, maður er kannski í doktorsritgerð og þá duga ekki nokkur kvöld, maður þarf að lesa og lesa og skrifa og skrifa, publish or perish eins og það heitir. Fólk vaknar óúthvílt; þá koma kannski fram meltingartruflanir; hægðirnar verða óþekkar, þær verða tregar og geta orðið mjög linar, magakrampar koma, magaverkir; vöðvaspennan eykst, hnakki, herðar, höfuðverkur fyrir bragðið, höfuðverkur í hnakkanum, fram í ennið, fram í gagnaugað. Það geta komið ónot fyrir brjóst, hjartsláttarkennd, andþyngsli; vont að ná djúpa andanum eins og sagt er þá. Það er erfitt að slappa af og enn er þetta aukinn drifkraftur. En hann fer þó að minnka, því að þreyta fer að koma í ljós og með henni minnka afköstin.

Þá er komið að þriðja stiginu. Þreytan verður meira áberandi. Öll einkenni á fyrri stigunum aukast en þreytan er númer eitt. Þá fer fólk að ná minni hvíld, það fer að verða þreytt. Svefninn verður verri, það vaknar ekki hvílt, því finnst því ekki hvílast nóg; meiri almenn spenna, andþyngslin aukast, höfuðverkur og kannski bætist svimakennd við. Til mín koma ótrúlega margir og kvarta um svima og halda allir að þeir séu komnir með heilaæxli. En þetta er þá orsökin og maður verður að sannfæra fólk um að það sé bara með streitu.

Á fjórða stiginu fer leikurinn að æsast. Það er hreinlega verkkvíði að morgni, það er þessi kvíðakennd. Dagurinn verður nánast óyfirstíganlegur af verkefnum. Einbeitingin bregst, það er erfitt að klára dæmið. Þetta hefur áhrif á félagslíf, samneyti við vini og samstarfsfólk, ekki síst heimilisfólk. Aukið stygglyndi, neikvæðni, allir eru á móti manni og skilja mann ekki, skilja ekki mikilvægi manns.
Svo koma martraðir, oftast seinni hluta nætur, og vekja mann upp. Svo er ekki hægt að sofa næstu nótt. Þá er komið til okkar læknanna og beðið um svefntöflur, eins og Þórhallur gat um, og þá er vítahringurinn kominn á fullan skrið. Ótti, þá er komið að óttanum sem ég nefndi. Það er farinn að koma ótti, að klára þetta ekki. Hvað á ég að gera, hvernig verður framtíðin? Þórhallur lýsti þessu mjög vel í túrbófjölskyldunni. Fólk fer að staldra við pínulítið en oftast nær ekki nóg.

Fimmta stig, næstsíðasta stigið. Kvíðinn eykst. Lamandi þreyta, þreytan eykst líka. Óyndi í kjölfarið. Þegar með skerta starfsgetu og frammistöðu, það er samviskubit, ótti. Maður verður mjög óánægður með sjálfan sig, maður stendur sig ekki, maður ræður ekki við neitt, maður er lúser, maður er bömmer, þunglyndið setur að og á þessu stigi er fólk yfirleitt orðið mjög þunglynt.
Við læknarnir reynum náttúrlega að peppa það upp með þunglyndislyfjum enda hugsum við bara um líkamann. Miklar hægða- og magatruflanir, jafnvel lífrænar breytingar, vefrænar breytingar, magasár, magabólgur. Nú er þetta allt farið að koma út í beinum vefrænum breytingum. Og stöðugur sviti. Fólk kemur oft og kvartar beinlínis undan svita og þegar maður spyr nánar út í það kemur í ljós að þar er túrbóvélin á fullu.

Loks er síðasta stigið. Það eru hin ógnvekjandi einkenni, nú er leikurinn tapaður. Mikil andleg vanlíðan; hjartsláttur þungur, jafnvel óreglulegur; titringur, skjálfti, svitinn verður meiri, doði í höndum og fótum og köld húð; lofthungur, fólk heldur yfirleitt að eitthvað sé að lungunum í því enda andar það þá yfirleitt með öxlunum en ekki þindinni.
Það er mikið atriði að kenna fólkinu að anda. Ég segi: „Þú kannt ekki að anda“ og maðurinn svarar: „En ég er búinn að anda í fjörutíu og sex ár. Hvað meinarðu?“ En tilfellið er að það kann ekki að anda. Oft hefur það hjálpað mikið að taka smástund í að kenna fólki að anda. Það er ótrúlega algengt að fólk nær ekki djúpa andanum. Það er ekki að ófyrirsynju að slökunarkerfi jóga, íhugun tala alltaf um öndun, kenna öndun. En Bee mun fara nánar út í það.
Skelfingartilfinning, fælni, ofsakvíði þetta eru allt saman hugtök úr geðlæknisfræðinni sem eru mjög raunveruleg, mjög ákveðin, spilla algerlega lífsgæðunum og eru mjög lamandi. Fólk þorir oft ekki út, þorir ekki að gera eitt og annað. Fólk þorir ekki að fara í lyftu, þorir ekki að sitja á miðjum bekk í bíó. (Svo það eru ekki bara prostatakarlar sem sitja úti við endann!).
Almenn vanmáttarkennd, sjálfstraustið í molum. Örmögnun, ræður ekki við einföldustu verk sín.

Þetta eru nú stigin. Um leið er ég eiginlega kominn að endalokum.

Spurningin er hvað er til ráða. Lyf? Jújú, lyf geta auðvitað hjálpað. Ég ætla nú síst að gera lítið úr því.
Aðgerðir? Nei. Tæki og tækni? Nei. Málið snýst ekki um það, heldur allt annað. Málið snýst um að virkja rókenndina með ákveðnum skipulegum hætti, virkja þessa miðstöð sem ég talaði um í upphafi og alla þessa streitu sem Bee mun segja ykkur frá.

Takk fyrir.

Related posts

Bleik október hugleiðing

Snyrtivörur og aðrar eitraðar vörur í umhverfi okkar

Forvarnir okkar eru að falla – Fljótum sofandi að feigðarósi