Sveppatíð

Þegar tíðin er góð eins og í ár spretta sveppir upp fyrr en ella. Sveppir eru hvorki dýr né plöntur en eiga sitt eigið ríki, svepparíkið. Ég er stödd á Austurlandi nálægt Hallormsstað og hér eru þegar komnir sveppir. Þetta er gleðiefni því í fyrra var leiðinleg tíð á Austurlandi og lítið um sveppi. Það má semsagt hvorki vera of blautt né of þurrt til að kjöraðstæður fyrir sveppi skapist.

Ef maður þekkir ekki sveppategundir þá er öruggast að fara í lerkiskóg og tína þá sem vaxa hjá lerkinu, enda eru lerkisveppir mjög góðir matarsveppir. Best er að fara daginn eftir, eða nokkrum dögum eftir rigningu í þurru veðri og hafa í för með sér körfu, tusku og hníf. Ekki er gott að tína sveppina blauta því þá skemmast þeir frekar. Þegar skimað er eftir sveppum skal reynt að finna unga sveppi frekar en gamla og lúna, því algengt er að flugur verpi í sveppi og er þetta gert til að forðast lifrur. Einnig er best að týna sveppi við yngri tré, þar er oft meira um góða sveppi.

Fyrir þá sem hafa aldrei áður farið í sveppamó þá eru hér góð ráð við tínslu og meðhöndlun sveppa. ATH! Að ekki fara allir eins að og geri ég þetta eins og hún kæra móðir mín. 

  1. Ílátið þarf að vera karfa eða pappakassi, alls ekki týna sveppi í plastpoka eða ílát þar sem þeir rotna þá fyrr.
  2. Til að ná öllum sveppnum óskemmdum upp úr jarðveginum er best að taka neðst um stafinn, snúa upp á hann og lyfta upp um leið
  3. Gott er að nota hnífinn til að skera burt skemmdir og þrífa sveppina jafnóðum. Þurrka af þeim drullu og taka burt gróður.
  4. Þegar heim er komið er byrjað á að skera neðan af stafnum ef maður er ekki þegar búin að því og skera sveppina í sneiðar. Í helming ef þeir eru mjög litlir.
  5. Næst þarf að steikja þá áður en þeir eru frystir. Ég steiki ég þá gjarnan upp úr smjöri og set þá næst í ílát til að frysta í og leyfi smjöri að leka með. Ef þú vilt ekki nota smjör þá er hægt að hita þá upp í pönnu eða potti í smávegis af vatni og steikja þá þannig.
  6. Þegar sveppir eru verkaðir svona notar maður þá í súpur og sósur. En ef þú sleppir smjörinu eru þeir einnig frábærir á pizzur.

Jólasúpan hennar mömmu er svo villisveppasúpa úr þessum lerkisveppum sem við tínum árlega; hún er kannski ekki sú hollasta, en það sem hún er bragðgóð!

GRÓF UPPSKRIFT

RJÓMI

SVEPPIR STEIKTIR ÚR SMJÖRI

NAUTATENINGAR

SALT OG PIPAR

SMÁ HVEITI 

AÐFERÐ:

Því miður er ekki nákvæma uppskrift að ná upp úr henni móður minni. Hún byrjar á að setja sveppina og smjörið í pottinn. Næst setur hún smá hveiti og hrærir saman við smjörið og sveppina, þá næst setur hún út í rjóma smátt og smátt og hrærir við blönduna. Þá kryddar hún og þynnir með mjólk ef þarf.

Hvítlauksbrauð er svo nauðsynlegt með þessu lostæti

Verði ykkur að góðu!

Dagný B. Gísladóttir – ritstýra í sumar 

—-

MYND: RAGNAR ÞORSTEINSSON

Related posts

Plöntuhornið – Blettaskytta/Pengingablóm er vinsæl á haustin

Villtir matsveppir á Íslandi – Sveppamó

Sterkur matur getur aukið lífslíkur