Plöntuhornið – Skellinöðrufjöður er afbragðs listaverk

Planta mánaðarins er afbragðs listaverk, getur komið í staðinn fyrir hvaða skrautvasa sem er.

Calathea lancifolia – skellinöðrufjöður

Hér erum við með hitabeltisplöntur úr örvarótarættinni – Maracantaceae, ættkvíslin er Calathea og innan hennar er fjöldi tegunda sem bera stórkostlega skrautleg laufblöð. Skrautgildið er svo hátt að við fyrstu sýn gæti maður áætlað að um gerviplöntur sé að ræða.

Breytileiki er í blaðlögun, blaðstærð og blaðlit, þær tegundir sem verða nefndar hér eru með lensulaga, heil laufblöð, bylgjaða blaðjaðra, grænt yfirborð og / eða mynstrað og neðra borð purpurarautt. Laufblöð og blaðstönglar eru hærð, eru flauelsmjúk viðkomu og þaðan kemur samheiti þessara tegunda, flauelsfjöður.

Hreyfing er í laufblöðum, þau leggjast saman í myrkri, standa teinrétt eða úrbreidd, allt eftir birtu og hitastigi í rýminu. Mögulega leggið við hlustir þegar plantan er á hreyfingu.

Calathea rufibarba – rauðskeggsfjöður

Staðsetning
Calathea er hitakærar og skuggþolnar plöntur, veldu flauelsfjöðrinni stað þar sem hún fær næga birtu en er varinn fyrir sólarljósi. Þolir einnig þó nokkurn skugga.

Hita – og rakastig
Stofuhiti hentar Calathea vel (18-24°C) en er ekki hrifnar af kulda og trekki, því ætti að varast að koma þeim fyrir þar sem gustar reglulega. Eru rakakærar, hægt að bæta úr því með því að hafa rakar leirkúlur í undirskálinni – rakinn stígur upp.

Vökvun og næring
Best er að halda pottamoldinni jafnrakri og áburðargjöf með þriðju hverri vökvun á vaxtartíma til að viðhalda heilbrigði. Þar sem tegundir þessarar ættkvíslar þola illa kulda þá er ágætt að venja sig á að vökva með volgu vatni. Að vetri er dregið úr vökvun, þá má pottamoldin þorna lítillega á yfirborði á milli vökvana.

Annað
Tegundir ættkvíslarinnar þykja ágætis lofthreinsar og henta því vel á heimili, skrifstofuna eða í kennslustofuna. Glæsilegar plöntur sem allir geta notið.

Samantekt:
Guðrún Helga Guðbjörnsdóttir, garðyrkjufræðingur.

Heimildir:
Lavsen, Erik Riis. Potteplanter – slægter, arter og grundlæggende dyrkningsdata, 2003. Biofolia.
Kristín Þórðardóttir. Pottaplöntur, handbók um meðferð og umhirðu, 1. hefti. 1997. Garðyrkjuskóli Ríkisins.
https://www.houseplantsexpert.com/rattlesnake-plant.html
http://floradania.dk/nc/da/planter/pv/sl/data/calathea/
http://www.turn-it-tropical.co.uk/product/calathea-lancifolia-1l/
www.ordabanki.hi.is

Related posts

Plöntuhornið – Blettaskytta/Pengingablóm er vinsæl á haustin

Villtir matsveppir á Íslandi – Sveppamó

Vel heppnað kryddjurtanámskeið

1 Ummæli

Björg 16. nóvember, 2017 - 08:38

Ég bíða alltaf spennt eftir plöntupistlum Guðrúnar Helgu. Þeir eru bæði fræðilegir og skemmtilegir

Comments are closed.

Add Comment