Jákvæðni

Eftir langvarandi tímabil neikvæðni er ég loksins komin með minn skammt af h-unum fjórum, þ.e. hita, hósta, höfuðverk og jákvæðni. Mörgum hefur orðið tíðrætt um þá undarlegu staðreynd að það sé orðið neikvætt að vera jákvæður en ég er nú bara frekar jákvæð yfir því að vera jákvæð enda er ég eðlisglöð og jákvæð manneskja og erfitt að vera alltaf í neikvæða gírnum. Ég hef horft upp á heimilisfólkið mitt eitt af öðru verða jákvæðninni að bráð og sent þau samviskusamlega í útlegð af heimilinu, allt þar til kom að því að ég varð að fara í útlegð sjálf enda sú eina sem ekki hafði greinst jákvæð. Daginn eftir að síðasti fjölskyldumeðlimurinn náði fyrri neikvæðni og ég kom heim úr útlegðinni dró þó heldur betur til tíðinda. Flensan náði í skottið á mér og ég steinlá. Þegar bráði af mér í hitakófinu hafði ég þó rænu á að taka af og til heimapróf til að sjá hvort ég væri kannski bara orðin svona jákvæð en svo var ekki fyrr en á fimmta degi og ég pantaði umsvifalaust tíma hjá opinberum aðila til að fá jákvæðnina staðfesta (eða hrakta).

Hrollköld og hríðskjálfandi beið ég í örstuttri biðröð á sýnatökustaðnum og fagnaði því mjög þegar sjoppan opnaði og ungur herramaður bauð fólki að ganga í hlýjan bæinn. Ég var númer þrjú í röðinni og þegar inn var komið var okkur boðið upp á hressingargöngutúr fram og til baka í salnum milli vel strengdra banda eins og gjarnan eru höfð til reiðu á flugvöllum til að stýra mannfjöldanum. Við þrjú rákumst ágætlega í röðinni og þegar við höfðum tekið sex u-beygjur komumst við á beinu brautina að afgreiðsluborðinu. Þar voru símar skannaðir og strimlar afhentir og okkur gert að ganga til sætis. Ég náði nú ekki einu sinni að tylla annarri rasskinninni á biðstólinn áður en ungi og elskulegi hraðprófsumsjónarmaðurinn í geimverugallanum kallaði mig til sín og bauð mér annan og heppilegri stól með fullri þjónustu. ,,Niður með grímuna“ sagði hann og dró sýnatökupinnann úr sótthreinsuðum umbúðunum. Ég hlýddi og lokaði augunum á meðan hann stakk prjóninum upp um aðra nösina og hrærði hraustlega í aftanverðum heiladinglinum. Augun fylltust af tárum og ég var við það að hnerra, sem er frekar óheppilegt við svona aðstæður. Ég náði með herkjum að halda aftur af hnerranum með því að bíta á jaxlinn en það hjálpar alltaf eins og alþjóð veit. Loks eftir drykklanga stund lauk þessum heilahræringi og ég er ekki frá því að þegar hann dró pinnann út aftur hafi fylgt með örlítil sneið af heilaberki og lokkur af hnakkahárum. ,,Þú ert búin“ kvað við í piltinum og hann bandaði mér út með annarri hendinni um leið og hann gekk frá sýninu mínu á sinn stað. Ég kom grímunni á trýnið og snaraði mér aftur út í bíl. Innan stundar kom svo niðurstaðan, staðfest jákvæð með covid veirusýkingu, þrátt fyrir uppsafnaða neikvæðni og almenna heilsuhreysti enda skilst mér að hver sem er geti víst smitast af þessari veiru.

Niðurstöður breskra rannsókna um að ein af afleiðingum covid sé minnkandi heili kemur mér alls ekkert á óvart eftir þessa reynslu mína af sýnatökum. Við sjáum þetta svo víða í dýraríkinu að þegar maður potar í dýr draga þau sig saman til að gera sig enn minni en þau eru í raun og veru eða draga sig inn í skel sína, ef þau eru svo lánsöm að hafa svoleiðis skýlingu tiltæka. Vesalings heilinn bregst líklega bara við eins og hver önnur lífvera og skreppur saman þegar verið er að pota í hann með prjóni, þetta hlýtur að vera fullkomlega eðlilegt. Vonandi nær hann aftur fyrri stærð með tímanum, þegar hann hefur jafnað sig á potinu og er orðinn sannfærður um að öllu sé óhætt. Ég held það sé líka brýnt rannsóknarefni að kanna hvort að þeir sem hafa farið oft í sýnatöku séu með meiri heilaminnkun en þeir sem hafa farið sjaldan. Miðað við mína upplifun af sýnatökunni, þar sem ég tel að dálítill hluti af heilanum hafi farið út með pinnanum, er full ástæða til að kanna þetta nánar.

Ég er hins vegar komin í útlegð af heimilinu og ætla að halda mig til hlés þar til einkennin hverfa, þ.e. hitinn, hóstinn, höfuðverkurinn og jákvæðnin og ég get aftur snúið heim, hæfilega neikvæð.

Guðríður Helgadóttir, jákvæð í bili

Related posts

Að vökva lífsblómið

Til bágborinnar skammar!

Músagangur