Græni krossinn í Sviss

Allt frá barnæsku hafa Svissland og svissneska þjóðin verið í huga mér sveipuð einskonar ævintýraljóma. Eg las ungur söguna af Þiðriki í Bern. Í Sviss bjuggu hraustir og harðfengir Germanir. Fyrir þeim biðu hinar æfðu hersveitir Rómverja einn sinn fyrsta mikla ósigur. Germanir lokkuðu þá inn í þröngan dal og sóttu þar að þeim frá öllum hliðum og gereyddu þeim. Það voru einnig Germanir, þar á meðal Svisslendingar, sem tókst að stöðva sókn Húna, svo að þeir flæddu ekki yfir alla Evrópu á miðöldunum.

En á síðari tímum hafa þeir skipt um baráttuaðferð. Nú skara þeir fram úr öðrum þjóðum í því að verjast ófriði og eru ein friðsamasta þjóð í heimi. Svissland er þó byggt þremur þjóðarbrotum, sem búa saman í sátt og samlyndi og hafa orðið til þess að koma á friði með öðrum. Í Sviss var friðland og griðastaður níhílista og anarkista, sem flúið höfðu undan harðstjórn hinna rússnesku keisara eða úr kvalastað Síberíu. Á hælum þeim voru jafnan sporhundar, sem þorðu þó ekki að gera þeim mein. Meðal slíkra útlaga má nefna Krapotkin fursta, sem var anarkisti og ágætismaður, og Lenin, en stundum voru það konungbornir menn.

Gestrisni Svisslendinga og góðum tillögum til friðar og sáttar er viðbrugðið. Þeir hafa lagt ríflegan skerf til menningarmála og verið í hvívetna hin bezta fyrirmynd öðrum þjóðum.

Árið 1938 dvaldi ég tæpan mánuð í Sviss og kynntist þá hinum heimsfræga læknaskörungi og náttúrulækningafrömuði Bircher-Benner, sem ég sagði nokkuð frá í síðasta hefti, en í hæli hans, sem hann kallaði Die lebendige Kraft (Hinn lifandi kraftur), fengu margir fullan bata sinna meina, sem áður voru talin ólæknandi með öllu. Síðastliðið sumar brá ég mér til Sviss, en þar vænti ég mér helzt einhverra nýjunga í læknisfræði. — Merki Bircher-Benners, sem lézt árið 1939, er nú haldið uppi af sonum hans og frændkonu, sem einnig er læknir. En ekki get ég neitað því, að mér fannst starf hans og stefna hafa beðið hnekki við fráfall þessa merka brautryðjanda náttúrulækningastefnunnar. Eg dvaldist nokkra daga í hæli þeirra í Zürich og þótti þar gott að vera.

Á þessari ferð minni kynntist ég nýju félagi, sem kallað er Græni Krossinn. Þetta er félag hliðstætt Rauða Krossinum, hinni heimsfrægu líknarstofnun til bjargar særðum og sjúkum frá hinum hryllilegu afleiðingum ófriðar og styrjalda. Rauði Krossinn var stofnaður árið 1863 í Sviss. Merki hans er rauður kross í hvítum feldi, sem er þjóðarfáni Svisslendinga. Bæði þessi félög, Rauði og Græni Krossinn, mynda einskonar heild. Rauði Krossinn leitast við að bæta úr afleiðingum styrjaldanna, m.a. með því að ganga á vígvöllinn og líkna sjúkum og særðum. Græni Krossinn reynir af öllum mætti að koma í veg fyrir styrjaldir, með því að leita uppi orsakir þeirra, og einnig að finna orsakir sjúkdóma og útrýma þeim. Félög þessi líkjast því slysavarnafélögum, sem gera hvorttveggja í senn, að bjarga mönnum í lífsháska og öðrum hættum og koma í veg fyrir slys. En sjúkdómar eru eins konar slys, sem stafa af orsökum, sem hægt er að koma í veg fyrir.

Nafnið Græni Krossinn er dregið af lit blaðgrænunnar, sem er geislamögnuð frumnæring alls lífs á jörðinni. Hinsvegar er krossinn tákn friðar og friðþægingar. Félag þetta var stofnað í Basel árið 1943, og stóðu að því ýmsir ágætir menn í Sviss, hugsjónaríkir og velviljaðir. Það var fyrst stofnað sem algerlega svissneskt félag, með þeim tilgangi að auka og bæta samstarf og samhug allra manna, rækta og varðveita andlega og líkamlega heilbrigði, mannúð og velvilja og trúnaðartraust manna og stétta á milli, og útrýma þannig tortryggni, andlegum og líkamlegum sjúkdómum.

Öllum hlýtur að liggja það í augum uppi, að það er ekki nóg að gera við sjúkdómseinkenni. Meðan læknisfræðin gefur sér aðeins tíma til þess, er auðsætt, að sjúkdómsbyrðin fer vaxandi eins og raun ber vitni um, ef borið er saman ástandið eins og það er nú, t.d. hér á landi, og eins og það var fyrir hálfri öld. Meðan næmir sjúkdómar hafa horfið að mestu eða rénað, þá hafa hrörnunarsjúkdómarnir margir hraðvaxið og hljóta að halda því áfram, meðan ekki er gert meira en raun ber vitni til að hefta myndun þeirra. En það verður gert með því einu að finna orsakir þeirra og útrýma þeim, í samræmi við hina gömlu latnesku setningu: „Causa sublate teritur effectus“. „Ef orsökinni er útrýmt, hverfur afleiðingin.“

Þarna er eitt af hlutverkum Græna Krossins. Hann bendir á ráðin til útrýmingar hrörnunarkvillunum, lagfæring lifnaðarháttanna, leggja niður óhollar og ónáttúrlegar lífsvenjur, neyzlu spilltra og dauðra fæðutegunda og skaðlegar nautnir, þar á meðal kóka-kóla, því að sannað þykir, að börnum og unglingum, sem iðka kóka-kóladrykkju, hættir til að verða sólgin í áfengi síðar meir. Og víst er það, að þá fyrst nær læknisfræðin sínu háleita markmiði og áliti í augum almennings, er hún fer inn á þessar brautir í starfi sínu, þá fyrst mun henni takast að stemma stigu við hrörnunarsjúkdómunum, sem nú eru að vaxa menningarþjóðunum yfir höfuð.

Hver atkvæðalæknirinn af öðrum hefir ritað skörulegar greinar eða flutt erindi um skort á sjúkrahúsum og hjúkrunarliði hér á landi. Og sannarlega verður því ekki neitað, að þörf er fleiri og stærri sjúkrahúsa. En hve lengi getum vér og aðrar þjóðir risið undir sjúkdómabyrðinni, sem vex hröðum skrefum þrátt fyrir allar nýjungar og framfarir á sviði læknisfræðinnar? Hitt er þó miklu alvarlegri spurning: Hvernig verður heilsufarið eftir 50 til 100 ár með sama áframhaldi? Fyrir rúmri hálfri öld var sykursýkin talin óþekktur sjúkdómur hér á landi, botnlangabólga fátíð og sömuleiðis magasárin, sem nú eru orðin mjög svo algeng, og svipað má segja um ýmsa aðra hrörnunarsjúkdóma. Og orsakirnar að aukningu þessara hrörnunarkvilla og annarra, svo sem sálsýki og krabbameins, eru hinar ónáttúrlegu lífsvenjur, og þó fyrst og fremst dauð og ónáttúrleg fæða, hvítt hveiti, hvítur sykur, hefluð hrísgrjón o.fl. Þessum fæðutegundum verður að útrýma, svo og hinni ónáttúrlegu matreiðslu. Þetta er auðvelt. Og það ætti að vera öllum bersýnilegt, að vér getum ekki til lengdar þrengt ónáttúrlegum lífsvenjum upp á líkama vorn að ósekju. Náttúran, forsjón lífsins, tekur til sinna ráða, ef hún er þannig beitt ójafnaði í viðskiptum. Og afleiðingin verður vanheilsa og dauði fyrir aldur fram, sjúkdómar og þjáningar í stað heilbrigði og lífshamingju.

Eitt af verstu göllunum við ferðalög, í Sviss sem annars staðar, er hin háskalega hótelmenning, þar sem því nær eingöngu er framreidd dauð og ónáttúrleg og kryddi menguð fæða. Í þeim efnum er ástandið hér heima líklega sízt betra en erlendis.

Það gladdi mig mjög að kynnast stefnu þessa svissneska félags, Græna Krossins, því að hún er í algerðu samræmi við starf og stefnu Náttúrulækningafélags Íslands. Eg átti langt samtal við frumkvöðul og forseta félagsins, Charles Braendli, sem er gáfaður hugsjónamaður, gæddur eldlegum áhuga á endurbótum heilsu og hugarfars og aukinni samúð milli einstaklinga og þjóða. Sjúkdómar verða að hverfa og styrjaldir og mannvíg að leggjast niður. Friður og mannkærleikur verða að koma í stað styrjalda, haturs og óvildar, heilbrigði í stað sjúkdóma. Hann heimtar endursköpun mannsins og mannsandans, eða það sem Alexis Carrel kallar „the remaking of man“.

Þetta er djörf hugsun, en rétt, og umfram allt nauðsynleg á þessum efnishyggjutímum, þar sem barist er eingöngu um peninga og völd, en ekki um andlega heilbrigði og verðmæti. Og í rauninni eru sjúkdómar ekki annað en ófriður og ósamræmi og samvinnuslit í því friðarríki, sem heilbrigður mannslíkami á að vera. Alveg hið sama á sér stað um ófrið milli þjóða. Þar er efnishyggjan undirstaðan, nýr og gamall óvinur, og undirstaða alls böls í heiminum.

Öll lækning verður að vera orsakalækning, útrýming orsaka. Takist þetta, mun heilbrigði og friður verða hlutskipti mannsins í stað sjúkdóma og ófriðar. Þannig þarf hinn nýi heimur að verða.

Vaxandi, aukin og sönn mannúð, er kemur fram í útrýmingu mannlegrar vanlíðanar og þrauta, er fyrsta skrefið til mannbóta og leiðin til hins guðlega eðlis hins sanna manns.

Vér þykjumst af ýmsum mannúðar- og menningarstörfum vorum. En hér er ekki allt sem sýnist. Undir yfirborðinu er grímuklædd óvinátta, hörð barátta og kapphlaup um aura og auð og völd, verðmæti, sem eru einskis virði fram yfir nauðsynlegar þarfir og sannar lífsnauðsynjar, verðmæti, sem spilla oft hinum innra sem ytra manni og enginn flytur með sér, er þessari jarðnesku tilveru lýkur.

Sannarlega væri þörf á því, að Græna Kross félögum væri komið á fót í öllum menningarlöndum til þess að vinna gegn óhollum lifnaðarháttum, neyzlu og innflutningi á skaðlegum matvælum og nautnavörum. Með þessu væri stórt spor stigið til eflingar heilbrigðinni og útrýmingu alvarlegustu hrörnunarsjúkdóma, þar á meðal taugabilunar, sálsýki og krabbameins. En það er næsta fávíslegt að halda, að hægt sé að taka upp baráttuna gegn krabbameini eða öðrum einstökum hrörnunarsjúkdómum út af fyrir sig. Þeir stafa aðallega af einni sameiginlegri orsök, röngum lifnaðarháttum, og því verður að útrýma þeim öllum í senn.

Yfirleitt verður ekki annað sagt, en að stefna Græna Krossins fari því nær eða alveg saman við stefnu Náttúrulækningafélags Íslands. Ber oss því að fagna stofnun hans sem bræðrafélags, óska honum velgengni og útbreiðslu í heimalandi sínu og í sem flestum löndum og mælast til samvinnu við hann. En slík samvinna félaga, sem hafa sameiginlegt markmið, er vænlegri til árangurs, heldur en ef félögin starfa hvert út af fyrir sig.

Þessi grein birtist í 3. tbl. Heilsuverndar 1949.

Related posts

Grasaferð hjá Heilsustofnun

Sumarlokun skrifstofu NLFÍ

Hlaup fyrir lífið – Hugleiðing um hlaup