Vörn og orsök krabbameins – 4. grein


IV. Krabbamein kemur aldrei í heilbrigt líffæri
Krabbamein í maga og skeifugörn er langsamlega algengasta tegund krabbameina meðal menningarþjóðanna, eða um 40-50% allra krabbameina. Sem dæmi má nefna, að árið 1944 dóu hér á landi 178 manns úr krabbameini, og voru 84 þeirra í maga eða skeifugörn. Í Noregi dóu árið 1936 3407 manns úr krabbameini, og voru 1652 þeirra í maga og skeifugörn.

Meðal helztu orsaka hinna tíðu krabbameina í þessum líffærum má telja, eins og lýst var í síðasta hefti, heitan mat og drykk, tóbak, áfengi og sterkt krydd, og auk þess óhollt mataræði yfirleitt. Þess var getið, að húsdýr, sem sýkjast stundum af útvortis krabbameini, fá aldrei krabbamein í maga. Einnig er það mjög sjaldgæft meðal Asíuþjóða, nema í Japan. En Japanir eru líka kunnir fyrir að nota mjög mikið af sterku kryddi.

Til stuðnings þessum skoðunum um orsakir krabbameins í maga mætti tilgreina ummæli margra erlendra lækna. En þess gerist ekki þörf, því að einn af okkar reyndustu og þekktustu læknum, dr. Halldór Hansen, hefir nýlega í útvarpserindi lýst orsökum krabbameins í maga, svo að ekki verður um villzt (Heilbrigt líf, 1.-4. hefti 1949; leturbr. hér):

“Um hinar eiginlegu orsakir krabbameins vita menn ekkert með vissu. Hitt er vitað, að það virðist aldrei myndast af fullkomlega heilbrigðum frumum, og að langvarandi bólgur eða langvarandi erting og hrörnun fruma, svo sem á sér stað í ellinni, greiðir mjög götu þess. …. Slímhúðarbólgur í maganum eru mjög algengar. Þær finnast allt að því í 90 af hundraði í fullorðnu fólki, ef slímhúðin er athuguð í smásjá. Það er heldur engin furða, þegar þess er gætt, hversu mikið mæðir á þessu líffæri og þá sér í lagi slímhúð þess (innsta laginu). Maginn er ekki aðeins sístarfandi mestan hluta sólarhringsins, heldur verður hann að taka á móti allskyns tormeltri og illa tugginni fæðu, ertandi kryddi og æsandi drykkjum, og það eigi sjaldan í óhófi.

Slímhúðarbólgur í maganum geta hinsvegar orsakazt af mörgum öðrum ástæðum. En í bólginni magaslímhúð myndast oft smásár, sprungur, “polypar” (svo kallaðir) og góðkynja þekjufrumuæxli o.þ.u.l., en allt slíkt virðist ótvírætt örva til krabbameinsmyndunar, og er þetta ef til vill ein meginorsök þess, hversu krabbamein eru tíð einmitt í þessu líffæri.”

Með öðrum orðum: Krabbamein í maga kemur upp úr magabólgum, sem stafa fyrst og fremst af röngum matar- og drykkjarvenjum.

Aðrar orsakir krabbameins
Í tveimur síðustu heftum hefir verið skýrt frá ýmsum eiturefnum, sem valda krabbameini, bæði útvortis og innvortis. Eiturefni þessi komast inn í blóðið, ýmist gegnum húð, öndunarfæri eða meltingarfæri, og stundum myndast þau í líkamanum sjálfum, t.d. við bruna. Ennfremur var skýrt frá tjörutilraunum á músum, sem sanna, að eiturefni geta valdið krabbameini svo að segja hvar sem vera skal í líkamanum. Þetta eru vísindalega sannaðar og viðurkenndar staðreyndir, sem enginn vefengir. Og það er langt frá því, að við þetta sé nokkuð dularfullt, fram yfir aðra sjúkdóma, heldur er orsakasambandið, í flestum þeim dæmum, sem rakin hafa verið hér á undan, augljóst og ótvírætt.

Nú virðist ekki þurfa mikið ímyndunarafl til að láta sér detta í hug, að önnur krabbamein, svo sem í brjósti, móðurlegi, þörmum og lifur, eigi sér svipaðan uppruna. En hugur flestra lækna og vísindamanna, sem fengizt hafa við rannsókn á þessum sjúkdómi, virðist ekki hafa beinzt inn á þá braut að ráða niðurlögum hans á þessum grundvelli, heldur að því að rannsaka efnabreytingar og ástand í blóði og frumum, eftir að líkaminn er orðinn sjúkur, og reyna svo að finna lyf eða önnur ráð til að lækna sjúkdóminn. Þetta getur að vísu haft sína þýðingu, bæði fræðilega og hagnýta, þótt árangurinn sé enn raunalega lítill, miðað við margra áratuga óhemju kostnaðarsamt rannsóknarstarf þúsunda vísindamanna um allan hinn menntaða heim.

En svo eru aðrir, sem hafa bent á hinar raunverulegu, ytri orsakir krabbameins, orsakir, sem hægt er að forðast eða útrýma, þótt menn viti ekkert um hinar innri breytingar, sem sjúkdómurinn veldur í blóði og frumum. Um sumar þessar orsakir hefir verið rætt hér á undan og í tveimur síðustu greinum, og verður nú bent á fleiri algengar orsakir þessa sjúkdóms.

Eiturefni í matvælum

Á undanförnum áratugum hefir það tíðkazt í hinum hraðvaxandi matvælaiðnaði, að setja ýms eiturefni í matvæli, til þess að firra þau skemmdum af völdum gerla eða smádýra. Má sem dæmi um slík matvæli nefna hvítt hveiti, niðursuðuvörur allsk. ávexti og grænmeti. Oft hafa verið svo mikil brögð að þessu, að fólk hefir fengið greinileg eitrunareinkenni, sem gátu jafnvel valdið dauða. Nú er matvælaeftirlitið víðast orðið svo strangt, að ekki líðst að nota nema lítið eitt af hinum eitruðu geymsluefnum í matvælin, og telja flestir læknar og vísindamenn þetta ósaknæmt með öllu.

En hér kemur tvennt til greina: 1) Hin skaðlegu efni í einni niðursuðudós eða einum bolla af kaffi eru að vísu hverfandi lítil. En “safnast þegar saman kemur”. Ef menn borða daglega nokkrar fæðutegundir, sem hver fyrir sig hefir “hverfandi lítið” magn af eiturefnum, svo sem hvítt hveiti, sykur, niðursuðumat (kjöt, fisk, baunir, grænmeti, ávexti, aldinmauk, saft o.s.frv.), drekka auk þess nokkra bolla af kaffi eða tei, svo að ekki sé talað um tóbak eða áfengi eða læknislyf, sem undantekningarlítið innihalda meira eða minna af eiturefnum, þá er ekki lengur hægt að halda því fram, að þetta sé “hverfandi lítið” og “með öllu ósaknæmt”. 2) Það eru ekki hinir stóru skammtar af eitri, sem valda tjörukrabba á músum, arsenik-krabba í lófum og lungum, anilín-krabba í þvagblöðru, radíum- eða röntgenkrabba í höndum o.s.frv., heldur eru það daglegar verkanir smárra eiturskammta, ef áhrifin vara nægilega lengi, allt að 10-20 árum eða lengur.

Að þessu athuguðu getur engum dulizt, að hin sívaxandi notkun allskonar læknislyfja, niðursoðinna matvæla og annarrar eiturmengaðrar fæðu er ákaflega sennileg skýring á aukningu krabbameins um allan hinn menntaða heim. Og nýjustu vísindarannsóknir virðast meira að segja hafa fært sönnur á þessar skoðanir, eins og skýrt er frá á öðrum stað hér í heftinu, auk þess sem áður hefir verið getið í sambandi við krabbamein af völdum langvarandi notkunar læknislyfja (bls. 15 í síðasta hefti).

Stærsta eiturverksmiðja líkamans

Innan líkamans myndast að staðaldri eitruð efni, sem þurfa að komast óhindruð leiðar sinnar út úr líkamanum, ef ekki á verra af að hljótast. Auk þess myndast eitruð efni í líkamanum í ýmsum sjúkdómum, svo sem skemmdum kirtlum, greftri í kinnholum, af völdum sýkla, o.s.frv. En langsamlega afkastamesta eiturverksmiðja líkamans er ristillinn, þegar melting og hægðir eru ekki í lagi. Við rotnun kyrrstæðra matarleifa í ristli, sem oft sitja þar sólarhringum og vikum saman, myndast meðal annars eiturefnin indol og skatol, sem bæði er einnig að finna í tjöru. Öll þessi eiturefni berast inn í blóðið í svo ríkum mæli, að lifrin, sem hefir m.a. það hlutverk að hreinsa blóðið, sem kemur frá meltingarfærunum, svo að engin skaðleg efni berist með því til hjartans og út um líkamann, getur ekki fullnægt þessu þýðingarmikla ætlunarverki. Þar við bætist, að æðarnar frá endaþarminum, sem hjá fjölda manns er venjulega fullur af rotnandi saur, í stað þess að hann á að vera tómur á milli þess, að menn hafa hægðir, fara framhjá lifrinni og beina leið til hjartans. Þannig berast eiturefnin frá endaþarminum, auk þeirra, sem lifrin hleypir í gegnum sig, óhindruð út um allan líkamann og eiga sinn veigamikla þátt í að eitra hann og veikla. Um þetta efni hefir verið svo ítarlega ritað og rætt í bókum NLFÍ og í HEILSUVERND, að ekki er ástæða til að fjölyrða um það hér. En það liggur í augum uppi af framansögðu, að hér er um mjög alvarlega og almenna krabbameinsorsök að ræða. Til stuðnings þessu mætti tilfæra ummæli margra þekktra lækna, en rúmsins vegna verða tvö eftirfarandi sýnishorn að nægja.

Krabbamein í brjósti

Þekktur franskur skurðlæknir og sérfræðingur í kvensjúkdómum, dr. Pauchet, segir:
“Eg hefi komizt að raun um, að níu af hverjum tíu konum, sem fá krabbamein í brjóst, hafa haft mjög tregar hægðir, og að til að koma í veg fyrir það þarf ekki annað en heppilegt, hægðaaukandi mataræði.”

Hinn frægi enski skurðlæknir, Sir Arbuthnot Lane, segir eftir margra áratuga reynslu:
“Við kyrrstöðu í þörmum verða mjög sérkennilegar breytingar í brjóstunum. Þau verða hörð og hnyklótt, og síðar myndast inni í þeim vessafull holrúm (cysts), sem geta orðið allstór. Þessar breytingar byrja venjulega ofan og utantil í vinstra brjósti, koma síðan fram á sama stað í hægra brjósti og geta að lokum lagt undir sig bæði brjóstin. Þegar svo er komið, er mjög hætt við, að krabbamein myndist í brjóstunum.”

Mjög er það eftirtektarvert, að ógiftum konum og þeim mæðrum, sem hafa ekki börn sín á brjósti, er miklu hættara við krabbameini í brjósti en konum, sem leggja börn sín á brjóst.

Þá er rétt að minna á tilraunina, sem sagt var frá í síðasta hefti (bls. 19) og virðist benda til þess, að kaffi eigi nokkra sök á myndun krabbameins í brjósti.

“Krabbamein kemur aldrei í heilbrigt líffæri.” Þessi setning er eftir Sir Lane, sem var nefndur hér á undan (sjá HEILSUVERND, 1.-2. hefti 1948). Dr. Hansen segir þetta sama með dálítið öðru orðalagi í hinum tilvitnuðu ummælum í upphafi þessarar greinar: “Hitt er vitað, að það virðist aldrei myndast af fullkomlega heilbrigðum frumum”. Tjörutilraunin fræga, sem sagt var frá í 2. hefti 1949, sýnir, að krabbameinið kemur fram í skinnsprettu eða brunasári á líkama músanna, löngu fyrr en á tjörublettinum sjálfum. Það er ennfremur alkunnugt, að krabbamein kemur oft í vörtur, ör, gömul sár í maga eða skeifugörn, magabólgur (sbr. ummæli dr. Hansen), eða m.ö.o. þar sem einhver veiklun eða skemmd er fyrir.

Þetta er í rauninni ofur eðlilegt og skiljanlegt. Krabbameinið er, eins og þegar hefir sýnt verið, ávöxtur af langvinnum áhrifum eiturefna. Ástæðan til þess, hve langan tíma eiturefnin þurfa til að mynda krabbameinsæxli, virðist því vera sú, að frumuvefirnir þurfi að ná einhverju vissu stigi hrörnunar eða veiklunar, áður en hinn villti og æðisgengni æxlisvöxtur getur fengið framrás. — Í ýmsum skemmdum vefjum, svo sem vörtum, örum, gömlum sárum, er blóðrásin óeðlilega hæg. Líkt og uppleyst óhreinindi setjast helzt til botns, þar sem áin rennur í lygnum straum, þannig falla eiturefnin úr blóðinu út í vefina eða frumurnar örast á þeim stöðum, þar sem blóðstreymið er hægast. Í stað þess að blóðið á að hreinsa eitur- og úrgangsefni úr frumunum, skilur það við hverja hringrás æ meiri eiturbirgðir eftir í þessum veikluðu vefjum fyrst og fremst. Öll kyrrstaða í rás blóðs eða sogæðavökva þýðir því hættu á aukinni eitursöfnun og aukna krabbameinshættu.

Að þessu athuguðu er það skiljanlegt, að konum, sem eignast börn og hafa þau á brjósti, er síður hætt við krabbameini í brjósti en öðrum; að krabbamein myndast upp úr magasárum eða bólgum, vörtum, “kangri” sárum o.s.frv.; að krabbamein kemur fram á þeim stöðum, sem verða fyrir beinum áhrifum eiturefnanna, ef ekki koma fram af öðrum ástæðum skemmdir eða veiklanir annarsstaðar í líkamanum (sbr. húðkrabba í tjörublettum á tilraunamúsum, pungkrabba á sóturum, arsenik- og tóbakskrabba í lungum, radíum- og röntgenkrabba, ristilkrabba, sem er tíðastur í neðsta hluta ristilsins og í endaþarmi, þar sem verkanir eiturefnanna eru mestar; krabbamein í lifur, sem verður ýmsum öðrum líffærum fremur fyrir beinni ásókn eiturefnanna í blóðinu, o.s.frv.). Allt er þetta svo rökrétt og eðlilegt, að það nær engri átt að tala um krabbamein sem sérstaklega dularfullan sjúkdóm.

Og lesandanum er nú vonandi ljóst, hvað átt er við, þegar sagt er, að krabbameinið sé ekki annað en lokastigið í langri keðju hrörnunar og veiklunar.

Með því að þetta er orðið lengra mál, en gert var ráð fyrir, verður hér látið staðar numið að sinni. En í næsta hefti kemur niðurlag þessa greinaflokks, og fjallar sú grein um þátt næringarinnar í myndun krabbameins, um ýmsar lækningaaðferðir, bæði hinar almennu og hinar náttúrlega, og loks um varnir gegn þessum ægilega sjúkdómi.

Björn L. Jónsson 
Heilsuvernd, 4. tbl. 1949, bls. 8-14

Related posts

Bleik október hugleiðing

Snyrtivörur og aðrar eitraðar vörur í umhverfi okkar

Forvarnir okkar eru að falla – Fljótum sofandi að feigðarósi