Vörn og orsök krabbameins – 3. grein


III. Krabbamein er hægfara eitrun
Í framhaldi af tjörutilrauninni á músum, sem sagt var frá í síðasta hefti, verður að geta um enn eitt afbrigði af tilrauninni. Í stað þess að bera tjöru alltaf á sama staðinn, var hún borin á marga mismunandi staði á líkama músanna, en aðeins í fáein skipti á hvern stað. Tilraunadýrin fengu þá ekki krabbamein í húðina, en í stað þess fengu 60 til 78% af þeim lungnakrabba.

Bruni veldur eitrun
Áður en við snúum okkur að krabbameini í mönnum, er nauðsynlegt að segja frá einni dýratilraun enn, til skýringar á því, sem á eftir fer.

Nokkrum svæfðum kanínum eru veitt allstór brunasár. Hið brennda skinn er flegið af þeim og grætt á heilbrigðar kanínur, en skinnið af þeim grætt yfir brunasárin á brenndu dýrunum, sem verður ekkert meint af, en hinar, sem brennda skinnið var grætt á, veikjast eða deyja. Ef beðið er lengur en 8 klukkustundir með að flá skinnið af brenndu kanínunum, veikjast þær sjálfar eða deyja. — Rannsókn á hinu brennda skinni leiðir í ljós, að í því hafa myndazt eiturefni, sem fara út í blóðið og veikja tilraunadýrin og drepa þau jafnvel, ef mikil brögð eru að brunanum.

Við smábruna myndast einnig eiturefni í húðinni, en áhrifa þeirra gætir lítt eða ekki, a.m.k. ekki svo, að þess verði vart jafnóðum. En endurtaki þetta sig að staðaldri um margra ára skeið, geta áhrifin orðið hin sömu og í tjörutilrauninni á músunum, að krabbamein komi fram á brunastaðnum eða annarsstaðar í líkamanum. Alþekkt dæmi um þetta er hinn svonefndi ;kangri;-krabbi. Fjallabúar í Norður-Indlandi nota leirkrukkur, fylltar glóandi kolum, sem einskonar hitapoka. Krukkurnar setja þeir í tágakörfur, ;kangri;-körfur, og stinga þeim svo inn á sig, þegar kalt er. Af þessu fá þeir oft smá brunasár á kviðinn og lærin, og úr því verður iðulega krabbamein. Af svipuðum ástæðum fá innfæddir Ástralíubúar stundum húðkrabba af sólbruna.

Röntgen- og radíumkrabbi í höndum þekktist ekki, fyrr en farið var að nota röntgen-geisla og radíum. Þessa tegund krabbameins fengu aðeins læknar eða aðrir, sem fóru með röntgentæki eða radíum að staðaldri um lengri tíma. Hér er um brunaverkanir að ræða, venjulega svo smávægilegar, að þeirra varð ekki vart eða þeim ekki sinnt. En eftir mörg ár varð þetta oft til þess, að krabbameinsæxli komu fram á fingrum eða höndum. Í þessum tilfellum var næsta auðvelt að gera sér grein fyrir því, hve langan tíma eiturefnin, sem framleiddust við hinn ítrekaða bruna, þurftu til þess að brjóta niður varnir líkamans og mynda krabbamein. Skemmst var þetta 4 eða 5 ár, en oftast 10 til 20 ár eða meira. Og hér var orsakasambandið ótvírætt.

Þetta dæmi er ákaflega lærdómsríkt, því að það sýnir, að krabbameinsorsakirnar hafa verið mörg ár eða áratugi að verki, áður en nokkur sjúkdómseinkenni komu í ljós eða greinileg krabbameinsæxli. Og hér er skýringin á því, að þessi sjúkdómur kemur sjaldan fram, fyrr en fólk er orðið vel fullorðið eða komið á gamalsaldur. Gamalt fólk er í sjálfu sér ekkert næmara fyrir krabbameini en ungt fólk, að öðru leyti en því, að það er oft orðið veiklaðra og mótstöðuminna yfirleitt. Þetta dæmi sýnir líka, hvernig menn eiga að bregðast við til að verjast sjúkdómum. Það á að taka fyrir orsakir þeirra. Hér var það gert á þann veg, að farið var að nota glófa, sem hleyptu hinum skaðlegu geislum ekki í gegn. Með því var þessari tegund krabbameins útrýmt. Og við munum sjá, að öðrum tegundum krabbameins er auðvelt að verjast með hliðstæðum ráðum.

Eiturefni valda krabbameini
Hér verða talin nokkur dæmi um myndun krabbameins eftir langvarandi notkun eða áhrif eiturefna.

Það er altítt, að sjúklingar, sem notað hafa arsenikmeðul, t.d. við psoriasis (mjög þrálátur húðsjúkdómur, yfirleitt talinn ólæknandi), árum eða áratugum saman, hafa fengið krabbamein, aðallega í lófa eða iljar. Þetta mætti ef til vill kalla tilviljun eða stafa af einhverju öðru en arseniklyfjunum, ef ekki væri fyrir hendi sönnun þess, að arsenik getur valdið krabbameini. Svo er mál með vexti, að í Slesíu í Suðvestur-Þýzkalandi voru um skeið starfræktar kóbalt-námur. Í málmgrýtinu var arsenik, sem hafði þau afdrifaríku áhrif, að mikill fjöldi námumannanna dóu úr lungnakrabba. Um þetta segir svo í þýzku tímariti, sem fjallar um krabbameinsrannsóknir (Zeitschrift für Krebsforschung, 1911):
„Það er mjög eftirtektarvert, að eftir því sem þeir Harling og Hesse skýra frá, hafa margir námumenn í kóbaltnámunum í Schneeberg dáið úr krabbameini í lungum. Af 600 til 700 mönnum, sem vinna í námunum, deyja árlega 21 til 28, og 75% þeirra deyja úr lungnakrabba. Sjúkdómurinn kemur aðeins fram á mönnum yfir 40 ára að aldri og ekki fyrr en þeir hafa unnið í námunum a.m.k. 20 ár“.

Arsenikið virðist framleiða krabbamein aðallega í lófum, iljum og lungum. Anílin er annað eiturefni, sem framleiðir oft krabbamein í þvagblöðrunni. Kom þetta fyrir meðal starfsfólks í litunarverksmiðjum, þangað til teknar voru upp þær varúðarráðstafanir að sjá fyrir nægilega góðri loftræstingu. Dæmi eru til þess, að sjúkdómurinn hafi ekki þurft nema 2 ár til að búa um sig, en í flestum tilfellum var tíminn um 20 ár.

Þá eru mörg dæmi um krabbamein meðal manna, sem vinna við bik, tjöru, sót eða parafín. T.d. fengu sótarar oft krabbamein í punginn, vegna þess að þeir gættu ekki hreinlætis sem skyldi, svo að sót hefir legið í húðfellingum að staðaldri. En í sóti eru samskonar eiturefni og í tjöru.

Tóbak og krabbamein
Í tóbaki eru mörg eiturefni, auk nikótínsins. Þegar tóbakið brennur við reykingar, myndast ennfremur tjöruefni. Það mætti því að óreyndu ætla, að reykingar og önnur notkun tóbaks gæti valdið krabbameini. Um þetta liggja þegar fyrir tölur, sem telja má augljósar sannanir. Það er alkunn staðreynd, að pípureykingar valda krabbameini í vör, einmitt á þeim stað, þar sem pípan hefir jafnan legið. Þetta hefir verið skýrt með ertingunni eða núningnum, sem pípan veldur, en í rauninni er það aðallega — eða a.m.k. ekki síður — tóbakseitrið, sem hér er að verki, líkt og í tjörutilrauninni á músunum. Til skamms tíma hafa tóbaksreykingar verið miklum mun algengari meðal karla en kvenna, þannig að talið hefir verið, að á móti hverjum 10 reykingamönnum væri aðeins 1 kona, sem reykti. Nú er það eftirtektarvert, að krabbamein í vör, í tungu, í munni, í hálseitlum, í vélindi, í barkakýli og í lungum hafa verið frá 7 til 14 sinnum algengari í körlum en konum. Þannig fannst krabbamein í vör hjá 2361 karlmanni á Bretlandseyjum á árunum 1911-1920, en aðeins hjá 180 konum. — Samkvæmt svissneskum heilbrigðisskýrslum voru meðal 135 sjúklinga, sem höfðu krabbamein í barka, aðeins 7 konur. Frægur krabbameinssérfræðingur í Brasilíu, Roffo að nafni, skýrir svo frá, að allir sjúklingar hans, sem krabbamein höfðu í barka, hafi verið reykingamenn, og af þeim hafi a.m.k. 92% reykt mikið, þeirra á meðal þær 3 konur, sem leituðu til hans með þennan sjúkdóm.

Krabbamein í lungum hefir mjög færzt í vöxt að undanförnu í flestum löndum og er nú víða orðið næsttíðast meðal krabbameina, næst á eftir krabbameini í maga, sem er hið algengasta. Dr. Roffo telur þetta stafa af auknum reykingum, og aðallega af tjöruefnunum í tóbaksreyknum. Í vindli, sem vegur 2 grömm, eru um 0,2 gr. af tjöruefnum.

Að öllu þessu athuguðu virðist lítill vafi geta leikið á því, að krabbamein í munni, hálsi og lungum eigi að verulegu leyti rót sína að rekja til tóbaksneyzlu. Hér kemur að vísu einnig til greina neyzla áfengis og neyzla heits matar og heitra drykkja, sem nánar verður vikið að á eftir.

Bók NLFÍ ;Menningarplágan mikla; sem kom út haustið 1948, rekur nánar áhrif tóbaks á heilsuna og myndun krabbameins, og vísast til þess hér.

Áfengi og krabbamein
Um sambandið milli áfengis og krabbameins segir hinn heimsfrægi ameríski læknir, J.H. Kellogg:“Newsholme og Sir Victor Horsley hafa sýnt, að á móti hverjum 100 áfengisneytendum, sem deyja úr krabbameini, eru aðeins 72 bindindismenn. Allir helztu sjúkrahúslæknar hérlendis hafa nú um 50 ára skeið talið daglega áfengisneyzlu eina af orsökum krabbameins. Það er kunnugt, að áfengi er eitt þeirra eiturefna, sem mestri hrörnun og eyðileggingu veldur á líkamsfrumunum (sbr.;Menningarplágan;). Það á þátt í því að mynda bólgur og sár í maga, en krabbamein verða oft til upp úr þeim“.

Erlendar dánarskýrslur sýna, að þær stéttir manna, sem vinna við áfenga drykki eða hafa þá daglega um hönd, svo sem ölgerðarmenn og veitingaþjónar, hafa hærri dánartölu úr krabbameini — og raunar úr ýmsum öðrum hrörnunarsjúkdómum, en flestar aðrar stéttir. Ýmislegt bendir til þess, að ölneyzla sé að þessu leyti hættulegri en neyzla sterkari drykkja. Þannig hefir Hindhede það eftir þekktum hagfræðingi, E. Kolb að nafni, að í Efra-Bayern í Þýzkalandi, þar sem aðallega er drukkið öl, deyi 80-90% fleiri konur og karlar úr krabbameini en í Neðra-Bayern, þar sem brennivíns er aðallega neytt. Víðar sést þess getið, að óvenjumikið sé um krabbamein, þar sem ölneyzla er mikil.

Heitir drykkir og krabbamein
Við höfum séð, og það er viðurkennt af læknavísindunum, að radíum- og röntgengeislar, sólbruni og "kangri"-körfur geta framleitt krabbamein útvortis, og stafar það af síendurteknum brunaáhrifum um fleiri ár eða áratugi. Hitt er ekki eins almennt viðurkennt, að heitir drykkir, sem margir hella í sig, annaðhvort af því að þeir gefa sér ekki tíma til að láta þá kólna, eða af hinu, að þeim finnst þeir orna sér notalega innvortis, valda samskonar brunaskemmdum í vélindi, maga og skeifugörn, og jafnvel einnig í munni. Í maga eða skeifugörn eru engar tilfinningataugar, sem segja til um skemmdirnar. En engum getur dulizt, að kaffi eða te, sem veldur brunasárum á hinu sterka hörundi fingurs eða handar, hlýtur að gera mikil spjöll á viðkvæmum slímhúðum maga og skeifugarnar. Enda mun þetta vera ein aðal ástæðan fyrir hinum tíðu bólgum og sárum í maga og skeifugörn, en upp úr þeim myndast krabbameinin í þessum líffærum. Þegar menn hafa borðað sig metta og drekka svo sjóðheitt kaffi eða te á eftir, staðnæmist það ekki í maganum, heldur fer eftir einskonar rennu meðfram magaveggnum beina leið niður í skeifugörn. Telja margir þetta skýringuna á hinum tíðu sárum í því líffæri.

Krabbamein kemur fyrir í dýrum, einkum húsdýrum, og langoftast í þeim dýrum, sem standa næst manninum og eta af borðum hans. En hinsvegar er það hrein undantekning, að þessi dýr fái krabbamein í munn eða maga, enda er eðlishvöt þeirra það sterk, að þau snerta yfirleitt ekki við heitum mat eða heitum drykkjum. Og þau sjást heldur ekki reykja eða drekka öl eða brennivín. Þetta forðar þeim frá magakrabba, sem er langsamlega algengasta tegund krabbameins meðal menningarþjóðanna. Það getur því varla orkað tvímælis, að meðal helztu orsaka krabbameins í munni, maga og skeifugörn sé þetta þrennt: Tóbak, áfengi og heitur matur og drykkur.

Næsta grein og hin síðasta í þessum greinaflokki fjallar um aðrar tegundir innvortis krabbameins og brjóstakrabba, orsakir þeirra og varnir gegn þeim, og loksins lækningu á krabbameini yfirleitt, bæði með hinum venjulegu aðferðum og aðferðum náttúrulækna.

Björn L. Jónsson
Heilsuvernd, 3. tbl. 1949, bls. 24-27

 

Related posts

Gervilíf

Saga skógræktar á Íslandi

Bleik október hugleiðing