Trúin á lygina

Náttúrulækningastefnan virðist eiga litlum vinsældum að fagna innan læknastéttarinnar, jafnt hér á landi sem annarsstaðar. Andúð lækna á stefnunni á meðal annars rót sína að rekja til þess, að sigur hennar mundi þýða gjörbreytingu á daglegum starfsháttum lækna, sem yrðu að leggja niður meirihluta hinna venjulegu lækningaaðferða sinna.

Margir læknar viðurkenna undir fjögur augu réttmæti stefnunnar í aðalatriðum. Og til eru læknar, auk ýmissa forustumanna stefnunnar, sem eru svo frjálslyndir og drenglundaðir að leggja henni liðsyrði opinberlega.

Einn þessara lækna er hr. Vilmundur Jónsson, landlæknir. Hann hefir ritað grein um mismuninn á hinni almennu og hinni nýju stefnu í lækningum og heilbrigðismálum. Lýsir hann þessum mun svo ljóst og skarplega, að fáir hafa gert það betur. Þykir því rétt að kynna lesendum Heilsuverndar efni þessarar greinar hans, og það því fremur, sem hún er hið bezta svar við ýmsum ádeilum, sem NLFÍ hefir sætt af hendi lækna á undanförnum árum. Greinin er að vísu skrifuð fáeinum árum áður en NLFÍ var stofnað, en hún gæti eins verið rituð í dag sem svar við ásökunum og árásum sumra andstæðinga félagsins. Og hér geta þeir hinir sömu ekki skotið fyrir sig skildi lærdóms og vísinda og dæmt ummælin marklaust öfgahjal ofstækisfullra náttúrulækningamanna, þar eð höfundur þeirra er maður úr þeirra hópi, og það sjálfur landlæknir Íslendinga.

Greinin, sem um er að ræða, birtist í Alþýðublaðinu 18. marz 1933 og heitir „Trúin á lygina“. Hún mun hafa verið lokasvar landlæknis í blaðadeilu við próf. Guðmund Hannesson. Tilefni deilunnar verður ekki rakið hér, né heldur upphaf greinarinnar. En síðan segir svo:

„Kjarninn í því, sem eg hefi haldið fram og ágreiningi virðist valda, er þetta:

1. Læknar lækna flesta sjúkdóma með aðgerðum sínum og lyfjum.

2. Flestir sjúkdómar batna af sjálfu sér eða læknast af náttúrunni, ef menn vilja heldur orða það svo.

3. Fólk er skaðlega hjátrúarfullt um þessi efni, heldur, að enginn sjúkdómur geti batnað, nema hann sé læknaður, og hefir af því miklar hugraunir, erfiði og óhóflegan kostnað.“

Höf. segir, að læknar tali daglega um þetta sín á milli og ýki ekki fyrir sér afrekin. Kveðst hann geta komið með urmul tilvitnana í þessa átt, en lætur sér nægja að tilfæra ummæli eftir próf. G.H. sjálfan úr grein í Skírni árið 1913 (bls. 28):

„Sú trú hefir gengið um öll lönd“, segir G.H., „að alvarlegir sjúkdómar batni ekki af sjálfu sér aðgerðarlaust, heldur þurfi að reka þá út úr líkamanum með harðri hendi, með læknislyfjum, sem við þeim eigi og ætíð séu til, ef menn þekki þau. Að miklu leyti er hvortveggja staðhæfingin röng, eftir því sem menn frekast vita. Allur fjöldi sótta batnar af sjálfu sér. Náttúran læknar sjúklingana, ef hún fær að ráða og mennirnir taka ekki í fávizku sinni fram fyrir hendur hennar. Aftur verða fæstir sjúkdómar reknir burtu með lyfjum, sem við þeim eigi, blátt áfram af þeirri ástæðu, að slík lyf þekkjast ekki og hafa aldrei þekkst. Líkindin eru jafnvel nauðalítil, að þau uppgötvist nokkru sinni, þótt ekkert verði fullyrt um það. Lyfjatrúin sýnist að þessu leyti vera og hafa verið hjátrú ein og ekkert annað“. (Leturbreytingar eru gerðar af G.H. sjálfum).

Og síðan heldur V.J. áfram og segir:

„Sannleikurinn er sá, að um þetta er enginn ágreiningur á milli lækna, og eins og menn sjá, ekki heldur á milli mín og G.H. Ágreiningurinn er um annað. Hann er um það, hvort rétt sé að opinbera þessi sannindi fyrir almenningi. Ýmsir stéttarbræður mínir hafa sagt við mig út af bersögli minni eitthvað á þessa leið: Víst er þetta hverju orði sannara, en að segja það! — Fólk vill hafa þetta svona og er sælt í sinni trú. — Auðvitað meinum við þetta allir, en hefir fólk gott af að vita það? — Verður þetta ekki misskilið af fólki? — Og einn sagði: Vitanlega er mikið af lyfjum okkar og lækningakáki húmbúkk, en fólk læknast af hjátrú á þetta húmbúkk, og er ekki sama, af hverju fólkið læknast? Eg þarf ekki að taka það fram, að eg er andvígur þessum hugsunarhætti, og hinum síðasta svaraði ég því, að vel kannaðist eg við það, að hjátrúin gæti orðið til hugarléttis og jafnvel meinabóta einstaka manni — en eg vissi það af reynslu minni, að fyrir hvern einn, sem læknast af hjátrú, verða tíu veikir af hinni sömu hjátrú“.

Takið eftir, hvaða nöfn læknarnir sjálfir gefa starfi sínu: „lækningakák“, „húmbúkk“. Þetta viðurkenna þeir hver fyrir öðrum, en öllu þessu káki og húmbúkki troða þeir upp á okkur leikmennina sem háfleygum vísindum. Engin furða, þótt þeim sé illa við, að leikmenn séu að hnýsast í þennan helgidóm þeirra og þeir hafi horn í síðu stéttarbræðra sinna, sem eru svo ærlegir og svo hugaðir að gera uppskátt þetta stórfellda „svindl“, eins og landlæknir sjálfur nefnir þetta athæfi síðar í grein sinni.

„Guðmundur Hannesson getur þess í Skírnisgrein sinni“, heldur V.J. áfram, „að hann hafi rekið sig á þessar sömu viðbárur lækna. „Oftar en einu sinni“, segir hann (G.H.), „hefi eg haldið því fram við stéttarbræður mína, að nauðsyn bæri til, að læknar leiðbeini almenningi í þessum efnum meira en gert er, reyni til að uppræta ýmsa hjátrú, sem vafalaust má telja ranga…. En oftast hefi eg fengið daufar undirtektir. Tvennt er borið fyrir. Í fyrsta lagi verði slíkri hjátrú ekki mótmælt, fólkið geti ekki skilið þessi efni til hlítar, og í öðru (lagi) sé langbezt, að það haldi sinni trú, því að á þann hátt sé það sælla og ánægðara en ella“.

Guðmundur Hannesson gefur síðan þessum hugsunarhætti ágætt heiti og kallar hann trúna á lygina“.

Þetta mundu nú sennilega þykja stór orð, ef þau kæmu úr penna einhvers náttúrulækningamanns. Þá mundu sumir læknar hrópa: „Fullyrðingar! Staðhæfingar! Öfgar! Ofstæki!“ og ekki eiga nógu sterk orð til að lýsa vanþóknun sinni á óverðskulduðum brigslyrðum fáfræðinnar í garð lækna“vísindanna“. En það er erfiðara að bera jafn gætnum, menntuðum og þjóðkunnum manni og próf. G.H. slíkt á brýn. Og auk þess gerir landlæknir þessi orð að sínum og undirstrikar þau.

Um náttúrulækningastefnuna hefir verið sagt, að hún sé „heilsutrúboð“. Þetta er laukrétt. Hún boðar þá trú, að menn geti lifað sjúkdómalausir og heilbrigðir, en afneitar og berst af alefli gegn hinni hættulegu hjátrú, sem V.J. gerir að umtalsefni, trúnni á sjúkdóma og lyf, trúnni á lygina. Og landlæknir er einmitt einn af þessum nýju „heilsutrúboðum“, eins og enn betur kemur í ljós síðar í grein hans. En læknar almennt halda dauðahaldi í trúna á lygina, og reyna að viðhalda trú almennings á „húmbúkkið“ og „kákið“ í „lækninga“-aðferðum sínum:

„Öllu er gefið lækninganafn og gumað af, allt niður í þann ruddaskap að stinga úr mönnum augun, eftir að þau eru orðin blind, að setja dauðar tennur í menn í stað hinna lifandi. Þá líka því að smíða á menn tréfætur til að ganga á í stað sinna eigin fóta og hjólasleða til að aka í lama vesalingum í stað þess að segja þeim að standa upp og ganga. Lyfjum syngur G.H. nú lof og dýrð, telur upp þau fáu, sem eru verulega gagnleg, (þau eru því miður flest helzt við hinum fágætustu sjúkdómum og einkum þeim, sem varla hittast hér á landi), en þegir um hinn lítilsverða eða einskisverða aragrúa, sem læknarnir hella í fólkið í smálestatali, helgandi sannleikanum aðeins einn lyfseðil af hverjum tíu (í þetta skipti hátt reiknað), gefandi trúnni á lygina hina níu. Lyfseðlarnir standa eins og fjaðrafok af læknunum, skrifaðir í þúsundatali — tuga þúsundatali. Jafnvel einum lækni getur tekizt að komast á 15. þúsundið á einu einasta ári (um 40 á dag!), og er engu líkara en að kapphlaup sé um ósómann. Fólkið langoftast jafnnær og verra en það, fjárútlátin gífurleg, hungrað fólk og klæðlaust ver heldur sínum síðasta eyri í gagnslaust lyfjagutl en að kaupa sér mat til þess að borða eða flík til skjóls, sjúkrasamlögum liggur við gjaldþroti — allt fyrir afneitun sannleikans og trúna á lygina. Þó skiptir hjátrú almennings í þessum efnum ekki verulegu máli að dómi G.H. — og ekki er hún læknum að kenna!“

Hér er það sagt umbúðalaust, sem þegar er á vitorði flestra hugsandi manna, að lyfseðlaskriftirnar, sem eru yfirgnæfandi þáttur í lækningaaðferðum flestra lækna, séu gagnslaust kák og jafnvel verra en það.

Þá drepur V.J. á möguleika lækna til að misnota aðstöðu sína sér til framdráttar og dregur engar dulur á ótta sinn við hættu úr þeirri átt:

„Meðan trúin á lygina situr í öndvegi, stendur mér ógn af öllum læknafjöldanum. Má búast við, að ýmiskonar spilling komi upp og dafni því betur sem fleiri bætast í hópinn. Og sér þegar deili til þess. Ekkert vantar þó á, að eg hafi fulla samúð með læknum og skilji erfiða aðstöðu þeirra. Þekki eg það allt af eiginni raun. Allt skipulagið togar okkur niður á við, fyrst til að umbera lygina, síðar til að trúa á hana, hlúa að henni og lifa á henni. Það er ekki öllum gefið að vera uppreistarmenn á móti ríkjandi skipulagi tíðarandans, trú almennings og eigin hagsmunum, eins og okkur Guðmundi Hannessyni“.

Eftir að hafa sagt stéttarbræðrum sínum þannig til syndanna, eins og góðum trúboða sæmir, snýr hann sér að því að telja um fyrir þeim og boða þeim hina réttu trú, trúna á sannleikann og heilbrigðina:

„Öðru máli væri að gegna, ef því skipulagi væri komið á, sem ýtti undir læknana að trúa á sannleikann og gerði þeim almennt kleift að lifa í þeirri trú. Þá væri ekki hættulegt að fjölga læknunum, heldur jafnvel þörf á því. Því að eg hefi þrátt fyrir allt tröllatrú á hlutverki lækna:

1. Þeir lækna í raun og veru ýmsa sjúkdóma, eg hefi giskað á 1/10 hluta þeirra og teldi það út af fyrir sig vel af sér vikið, eftir öllum atvikum, enda í aðra röndina hræddur um, að fullhátt sé áætlað.

2. Þeir gefa ýms meira og minna gagnleg ráð sjúkum mönnum til hjálpar, leiðbeiningar og fróunar, meðan þeir bíða bata síns eða bana, hlýða á kveinstafi þeirra, lina þrautir þeirra, vekja vonir þeirra og létta hugarstríð þeirra. Úr engu þessu geri eg lítið, þó að eg sé á móti því „svindli“ að kalla slíkt að lækna fólk og hatist við allt það húmbúkk, sem þeim látalátum er samfara.

Hvorttveggja þetta er mikilsvert, en þessu mest er hitt, sem ótalið er, enn haft útundan og sorglega vanrækt, en verður höfuðverkefni lækna í framtíðinni:

3. Þeir eiga að vernda heilbrigði hinna heilbrigðu og koma í veg fyrir, að þeir verði sjúkir.

Þetta síðasta er höfuðatriðið, það, sem ber að gera, en hitt ekki ógert að láta, meðan þess er þörf“.

Eftirfarandi ummæli, og raunar grein landlæknis alla, ættu menn að bera saman við fyrirlestra Waerlands, sem hann flutti hér s.l. sumar (sjá t.d. bls. 29-31 í bókinni „Úr viðjum sjúkdómanna“). Þar ber ekki mikið á milli.

„Læknar nútíðarinnar standa undir merki sjúkdómanna og helga sig þeim. Við lærum nær eingöngu um sjúkdóma, og að því leyti, sem við fræðum almenning, fræðum við hann nær eingöngu um sjúkdóma, sem er von, því að heilbrigði þekkjum við varla nema að nafninu til. Sjúkdómarnir eru viðurkenndir sjálfsagðir — læknir á aðeins að vera við höndina til að lækna þá, svo vel sem það gengur. Um þetta er hið bezta samkomulag milli lækna og almennings. Að slepptum öllum syndum þjóðfélagsins gegn almennri heilbrigði, sem það gleymir af umhyggju sinni fyrir öllum sjúkdómunum, er fjölda margt fólk veikt, af því að það vill vera veikt — það er oft að skömminni til skárra en að vera heilbrigður í því þjóðfélagi, sem við lifum í — og af því að læknarnir hafa alltof lítið á móti því, að það sé veikt“.

Og takið nú vel eftir, því að nú kemur það, sem er mergurinn málsins:

„Læknarnir eru á kafi í sjúkdómum, trúa á sjúkdóma, spekúlera í sjúkdómum, rækta jafnvel sjúkdóma og lifa á sjúkdómum. (Leturbr. hér).

Læknar framtíðarinnar munu aftur á móti skipa sér undir merki heilbrigðinnar. Þá verður heilbrigðin talin jafnsjálfsögð og sjúkdómarnir nú, og læknarnir verða fyrst og fremst verðir heilbrigðinnar. Önnur störf þeirra verða aukastörf. Þá læra læknarnir fyrst og fremst um heilbrigði, kenna um heilbrigði, rækta heilbrigði, trúa á heilbrigði og lifa á heilbrigði“.

Þessar fáu, meitluðu setningar landlæknis, sem ekki er ólíklegt að lækna svíði undan eins og snörpum svipuhöggum, lýsa því regindjúpi, sem staðfest er milli hinnar gömlu og hinnar nýju stefnu í heilbrigðismálum, milli hinnar almennu lækningastefnu og náttúrulækningastefnunnar (sjá grein um þetta efni í 4. hefti 1946). Are Waerland eða Jónas Kristjánsson hafa varla skilgreint þennan mun betur í svo stuttu máli.

Og að lokum játar landlæknir hina nýju trú sína og óskar eftir byltingu, sem kollvarpi hjátrúnni, trúnni á lygina, villutrúnni, en gefi sannleikanum sigur:

„Enn sem komið er trúi eg ekki á lygina, heldur sannleikann, og tel mér sérstaklega skylt að bera honum vitni í þessum málum. Og eg lifi í voninni um þá byltingu, sem hér á eftir að gerast, eins og í svo mörgum öðrum efnum.

Þetta er hræðileg játning af mér sem landlækni….“

Já, hún er hræðileg — fyrir læknana — þessi játning, en hún er höf. til ævarandi sóma.

Og byltingin, hvaðan á hún að koma? Ef læknastéttin ætti marga lækna jafn uppreistarsinnaða og þá G.H. og V.J. og þeir væru sjálfum sér samkvæmir og framfylgdu sannfæringu sinni í verkinu, þá væri öllu borgið og umskiptanna ekki langt að bíða. En þótt andinn sé reiðubúinn, þá er holdið veikt. Og þótt „byltingin“ hafi eignazt marga öfluga stuðningsmenn og jafnvel forustumenn innan læknastéttarinnar, reiðubúna til að bjóða byrginn óvild stéttarbræðra sinna, þá virðist hún þó verða að koma „neðan frá“, ef svo mætti að orði kveða, frá alþýðunni sjálfri.

Heilsuverndar- og náttúrulækningafélög víða um lönd hafa undirbúið jarðveginn fyrir byltinguna. Með Are Waerland hefst nýr þáttur í sögu þessarar þróunar. Hann hefir helgað líf sitt þessu starfi. Og vegna lærdóms síns, reynslu, rithöfundarhæfileika og mælsku er hann afkastamesti umbótamaður og byltingamaður, sem komið hefir fram á þessu sviði. Í Svíþjóð er heilsubótarhreyfingin undir forustu hans orðin þjóðarhreyfing og komin á svo traustan grundvöll, að jafnvel þótt Waerland félli frá, mundi „byltingin“ halda áfram að breiðast út.

Í Svíþjóð og víðar hafa nokkrir læknar aðhyllzt kenningar Waerlands, sumir í laumi, til þess að eiga ekki á hættu að verða útskúfað úr samfélagi stéttarbræðra sinna, en aðrir hafa tekið upp lækningaaðferðir í samræmi við þessar kenningar, og afneita þannig opinberlega „trúnni á lygina“, trúnni á lyfin og sjúkdómana. Vitað er einnig, að margir læknar hér á landi eru þessari stefnu hlynntir, þótt fæstir hafi hátt um það. En allt bendir til þess, að læknar almennt muni halda áfram að trúa á lygina, þangað til almenningsálitið neyðir þá til að afneita henni og taka upp hina réttu trú, trúna á sannleikann, trúna á HEILBRIGÐINA.

Related posts

Grasaferð hjá Heilsustofnun

Sumarlokun skrifstofu NLFÍ

Hlaup fyrir lífið – Hugleiðing um hlaup