Snyrtivörur og aðrar eitraðar vörur í umhverfi okkar

Fyrir nokkrum árum skrifaði Ragna Ingólfsdóttir Ólympíufari  pisti um leyðir til að huga að heilsunni og umhverfinu í notkun á snyrtivörum. Þessi pistill á vel við í dag því notkun snyrtivara er gríðarleg og notendur þeirra eru alltaf að verða yngri.

Hollusta lífrænna matvara fram yfir venjulegar matvörur fyrir líkamsstarfsemi mannsins og náttúruna er orðin nokkuð viðurkennd.
Lífrænar matvörur innihalda hvorki eiturefni á við skordýraeitur né eru þær erfðabreyttar eins og margar aðrar matvörur. Það skiptir máli fyrir heilbrigði okkar hvað við setjum ofan í okkur og fólk er almennt farið að opna augu sín fyrir því. Það sem margir flaska hins vegar á að veita eftirtekt eru eiturefnin í umhverfi okkar.

Það sem skiptir nefnilega líka máli hvað varðar heilbrigði er það sem við setjum í hárið og á líkamann okkar, hvernig vörur við notum til þess að þrífa heimilið okkar, hvernig umbúðum við eldum í og geymum matinn okkar í og annað í okkar nánasta umhverfi. Ýmsar snyrtivörur, hreinlætisvörur og aðrar vörur sem fólk notar dagsdaglega innihalda hættuleg kemísk efni sem talin eru trufla eðlilega hormónastarfsemi líkamans. Hægt er að fletta upp mörgum rannsóknum sem benda til þess að við ákveðin mörk geti kemísk efni stuðlað að krabbameini og öðrum sjúkdómum.

Ég hef síðastliðin ár reynt að nota sem mest af lífrænum snyrtivörum og nánast eingöngu lífrænar hreinlætisvörur. Það er ekki auðvelt að skipta öllum venjulegum vörum út strax fyrir lífrænar vörur, en það er hægt að byrja á einni og einni vöru og auka síðan við lífrænu vörurnar á heimilinu.
Munur er á venjulegum vörum, náttúrulegum vörum og lífrænum vörum. Venjulegar vörur eru búnar til úr kemískum efnum, synthetískum efnasamböndum eða petro-efnum sem maðurinn hefur búið til. Þær eru ónáttúrulegar og framandi fyrir líkamann að vinna úr. Náttúrulegar vörur eru búnar til úr náttúrulegum efnum eins og plöntum og steinefnum og vottaðar með til dæmis „BDIH“ og „NPA“. Lífrænar vörur eru merktar með „certifiedorganic“ stimpli. Í lífrænum vörum hefur innihaldið (a.m.k. 95% lífrænt) verið ræktað og unnið samkvæmt ströngum reglum og í þeim eru engin óæskileg aukaefni.

Við notkun á náttúrulegum innihaldsefnum, hvort sem þau eru lífræn eða ekki, tryggjum við að synthetísk efni séu ekki að safnast upp í líkama okkar og umhverfi. Náttúrulegar vörur eru einnig ólíklegri en hinar venjulegar vörur til þess að valda ofnæmi, útbrotum og ýmsum öðrum sjúkdómum. Með notkun á þeim stuðlum við ekki einungis að eigin heilbrigði heldur heilbrigði umhverfisins líka.

Það getur komið sér vel að vita hvaða innihaldsefni ber að varast og skoða alltaf innihaldslýsingar gaumgæfilega. Paraben-efni og phthalates (borið fram THAYlates) eru langþekktust í umræðum manna á milli í dag, en þessi efni geta valdið miklu ójafnvægi hormóna í líkamanum. Algengustu paraben-efnin eru methylparaben, propylparaben, ethylparaben og butylparaben. Paraben-efni hafa fundist í brjóstvef líkamans, í brjóstakrabbameinsæxlum og margs konar öðrum vefjum, en það er rakið til mikillar notkunar parabena í alls kyns snyrtivörum. Phthalates eru notuð í ýmsum vörum til dæmis naglalakki, hárlakki, húðvörum og hreinsivörum. Ef þú sérð annað þessara efna í innihaldslýsingu þá er æskilegt að finna aðra vöru sem er án þeirra.
Hér fyrir neðan er listi yfir náttúruleg og ónáttúruleg efni í snyrtivörum.

Innihald

Ekki náttúrulegt

Náttúrulegt


Olía
(oil)

Petroleum/paraffin/silicones

„Certified organic“ plöntu olíur,
(Jojoba, almond og avocado)

Vatn
(water)

Í innihaldslýsingu er mikið af vatni
(til að halda vöru ódýrri)

Í innihaldslýsingu er mest af „organic plant extracts“

Bindiefni
(emulsifier)

Petroleum og
PEG (Polyethylene Glycol)

Lecithin, fatty acids og
plant based Glycerin.

Ilmur
(scent/aroma)

Synthetic eða
 nature-identical aromas/fragrances

„Certified organic“ plöntu olíur,
(Vanilla, Rose, Lavender)

Rotvarnarefni
(preservatives)

Methyl, Butyl,
PropylParabens,
Urea-compounds.

„Natural“ eða „certified organic“ olíur með vítamínum eins og Tocopherol (E-vítamín).

Freyðandi hreinsiefni
(detergents for foaming)

Sodium Lauroyl Sulfate
(SLS)

Bio-degradable, plant based and mild.

Sólaráburður
(sun screen)

Oxybenzone
Cetylcinnamates.

Natural Minerals Zinc Oxide og Titanium dioxide

Umbúðir
(packaging)

PVC, PVDC,
halogenated plastics.

Endurnýtanlegar umbúðir og
efni sem brotna niður í náttúrunni

Vottun
(certifications)

Engin þekkt vottun á umbúðum

NaTrue, BDIH,Ecocert, Demeter, NPA, Vegan Society

Hárið
Venjulegar hárvörur (til dæmis sjampó, hárnæring, hármaskar, gel, froður, lakk) innihalda mikið af kemískum eiturefnum. Loforðum um mýkt, glans og fleira má sjá á umbúðunum, en yfirleitt má taka því með fyrirvara. Mikið hefur verið rætt um efni sem kallast „sulfates“ síðastliðin ár, en flestar venjulegar hárvörur innihalda þetta efni. Í dag hafa margir framleiðendur tekið þetta efni út úr sinni vöru vegna þess að það er beinlínis talið skaðlegt fyrir hárið. Það eru engin slík eiturefni í lífrænum hárvörum.
Ég fór að nota eingöngu lífrænar hárvörur fyrir nokkrum árum eftir að hafa borið innihaldslýsingar á venjulegum og lífrænum hárvörum saman. Það er munur á því að vera að nudda lífrænum efnum á sig nálægt heilanum, heldur en einhvers konar kemískri efnasprengju. Margir hafa gengið enn lengra og nota ekki heldur lífrænar hárvörur, heldur matarsóda í staðinn fyrir sjampó og eplaedik í staðinn fyrir hárnæringu og segja að hárið líti heilbrigðar út og sé sterkara. Það sakar allavega ekki að prófa. Þetta er nóg að gera 2x-3x í viku.

  1. Settu 1 msk. matarsóda í lófann og bleyttu með 1 msk. vatni. Skrúbbaðu þessu í höfuðið á þér eins og sjampói og hreinsaðu.
  2. Settu 1 msk. eplaedik í 1 bolla af vatni í flösku (t.d. notaða gosflösku eða sjampó flösku), settu þetta í höfuðið og láttu aðeins bíða og hreinsaðu. Ef hárið þitt er yfirleitt þurrt þá er betra að setja meira eplaedik í flöskuna. Lyktin af edikinu hverfur þegar hárið þornar.
  3. Fyrir þá sem eru með þurrt hár eða þá sem lita á sér hárið er gott að setja kókosolíu í hárið af og til, láta það vinna yfir nótt og skola daginn eftir. 

Húðin
Húðin er stærsta líffæri líkamans. Það sem við setjum á húðina fer auðvitað beint inn í líkamann og getur haft annaðhvort góð áhrif á starfsemina eða slæm. Margar venjulegar sápur, krem og aðrar vörur innihalda mikið af kemískum efnum og eitrum sem ekki eru góð fyrir heilbrigði okkar. Til er frábær og ódýr lausn á því. Lífræn kókosolía er ekki einungis súperfæði sem gott er að innbyrða, heldur er hún einnig virkilega góð fyrir húð og hár, hún stuðlar að sterkara ónæmiskerfi og góðu hormónajafnvægi í líkamanum. Hana er hægt að nota á ýmsa vegu: 

  1. Sniðugt er að nudda kókosolíu á andlitið og líkamann í stað venjulegs krems. Sumum finnst kannski óþægilegt að vera olíuborinn í fyrstu, en húðin er ansi fljót að taka olíuna inn. Það er líka hægt að blanda nokkrum dropum af uppáhalds ilmkjarnaolíunni sinni út í kókosolíu og setja í krukku.
  2. Kókosolían er góð sem hreinsikrem til þess að taka af andlitsfarða. Þá má setja smá kókosolíu á fingurna og nudda andlitið og skola síðan með þvottapoka með heitu vatni.
  3. Kókosolían er góð sem raksturskrem, hvort sem er fyrir konu eða karl. Þá er nauðsynlegt að vera búinn að hita húðina í sturtu fyrst, nudda síðan smá af olíunni á húðina og raka. Eftir á er rakaða svæðið mjúkt og hreint.
  4. Venjulegir svitalyktaeyðar innihalda ýmis slæm efni fyrir okkur, meðal annars „SLS“ (sodium lauryl sulfate) og „aluminum“, en aluminum hefur verið tengt við krabbamein, meðal annars brjóstakrabbamein, og alzheimers sjúkdóm. Lífrænir svitalyktaeyðar eru vinsælir í dag og fást víðsvegar. Einnig er hægt að nota blöndu af matarsóda (2 hlutar), kornsterkju (2 hlutar) og kókosolíu (1 hluti), ásamt nokkrum dropum af ilmkjarnaolíu, sem svitalyktaeyði.
  5. Í venjulegu tannkremi er fullt af eiturefnum, til dæmis SLS, fluoride, petroleum, proylene glycol og fleiri. Hægt er að kaupa mjög góð lífræn tannkrem án allra aukaefna. Einnig er hægt að búa til tannkrem heima fyrir með því að blanda saman jöfnum hluta af kókosolíu og matarsóda. Matarsódi er einnig sagður hafa hvíttandi áhrif á tennur. Hægt er að bæta út í blönduna piparmintuilmkjarnaolíu til þess að gera hana bragðbetri.
  6. Í ilmvötnum eru alls kyns sterk efni. Margir sprauta ilmvatni beint á háls, bringu, úlnliði og annars staðar á líkamann. Ef þú ert ein/einn af þeim myndi ég hætta því strax. Sprautaðu frekar á fötin þín heldur en beint á líkamann. Ég lenti í því að manneskja ein var alveg gáttuð á því að ég væri að sprauta ilmvatni á fötin mín og sagði mér að það væri nú ekki sniðugt því að fötin myndu eyðileggjast…ég spurði þess vegna á móti hvort að það væri nú ekki sniðugra heldur en að sprauta því beint á líkamann, hvað hún héldi eiginlega að líkaminn gæti tekið við ef fötin gætu það ekki.

Hreinlætisvörur á heimilinu
Ofnotkun hreinlætisvara er hvorki góð fyrir okkur né náttúruna. Eiturefni í venjulegum hreinlætisvörum eru okkur skaðleg, en einnig enda þau í náttúrunni og skaða lífríkið. Öruggast er að nota lífrænar hreinlætisvörur á heimilinu við þrif á til dæmis gólfi, eldhúsáhöldum, fötum og fleiru. Það er víðsvegar hægt að fá vistvænar og umhverfisvottaðar hreinlætisvörur í dag (til dæmis er hægt að leita eftir svansmerkinu á umbúðum), en einnig hægt að búa þær til sjálfur, meðal annars með sítrónusafa, salti, matarsóda og ediki. Einnig er hægt að nota örtrefjaklúta til þess að þrífa með.

  1. Rúður: Hægt er að búa til rúðuúða með því að blanda saman 4 msk. edik og 1 l. vatn. Þurrka síðan rúðuna með dagblaðapappír.
  2. Blettir: Með því að blanda saman matarsóda og vatn fæst góður blettaeyðir.
  3. Fita: Kartöflumjöl og vatn í hlutföllunum 4:1 er góður fituleysir, til dæmis í kringum eldavélar og aðra staði þar sem fita  á það til að setjast fyrir.
  4. Klósett og bað: Hálfur bolli matarsódi, hálfur bolli edik og 6 dropar lavenderolía mynda góðan klósett- og baðhreinsi sem ilmar vel. Einnig er hægt að nota sítrónusafa og vatn til þess að þrífa klósettið með.
  5. Viður: Blanda af ólífuolíu og sítrónusafa myndar gott viðarhúsgagnabón og blönduna er einnig gott að bera á eldhúsborðplötuna og skurðarbrettin af og til. Sítrónusafi sótthreinsar skurðarbrettin.
  6. Sturtubotn: Edik í bland við heitt vatn virkar oft vel til þess að hreinsa sturtubotna og niðurföll. 

Eldunar- og geymsluumbúðir á heimilinu
Við erum dagsdaglega í mikilli snertingu við ýmis konar plastvarning sem getur innihaldið skaðleg efni. Eitt þessara efna heitir BPA (bisphenol A), sem sýnt hefur verið fram á að raskar hormónajafnvægi líkamans. Ýmsar rannsóknir benda til þess að ákveðið mikil snerting við slík efni geti myndað krabbamein. Nú eru flestar barnavörur til dæmis án BPA, það er snuð, pelar, leikföng og slíkt, vegna þess að skaðsemi þessarra efna er svo vel þekkt.
Vegna skaðlegra efna í plastvarningi er til dæmis best að geyma mat í glerílátum eða postulínsílátum, drekka vatn úr plastflösku sem inniheldur ekki BPA, draga úr neyslu á dósamat og elda ekki mat í plastílátum í örbylgjuofni (best væri auðvitað að nota ekki örbylgjuofn til upphitunar). Einnig er betra að nota stálpotta og stálpönnur við eldamennsku (en ekki teflon og ál).
Plastvarningur með endurvinnslutölunum 2, 4 og 5 (tegund plasts) er talinn í lagi. Forðast skal að nota plastvarning með tölunum 3,6 og 7 (en 7 er í lagi ef einnig stendur „PLA“). Á mörgum ávaxtasafaflöskum stendur talan 1, sem er í lagi að nota einu sinni, en ekki fylla aftur á flöskuna.
Það þarf ekki að umturna öllu á heimilinu vegna þessara skaðlegu efna sem eru í umhverfi okkar og við erum í snertingu við dagsdaglega, en það er vissulega hægt að skipta út því sem hefur mestu áhrifin fyrst og vinna sig upp í það að vera nánast laus við öll eitruð efni af heimilinu. Það er ekki einungis betra fyrir okkur og náttúruna, heldur er það líka ódýrara. Venjulegar snyrti- og hreinlætisvörur eru oft mjög dýrar, en þessar náttúrulegu (kókosolía, matarsódi, sítrónusafi o.fl.) endast lengur og eru ódýrari. Ég skora á þig lesandi góður að skoða hvaða efni eru í þínu umhverfi og hverju þú getur breytt til hins betra.

Heimasíður sem hægt er að skoða til þess að kynna sér hættuleg efni í umhverfi okkar betur:
Brjóstakrabbamein: http://www.brjostakrabbamein.is/
Environmental Working Group (EWG): http://www.ewg.org/
Global Healing Center: http://www.globalhealingcenter.com/
The Campaign for Safe Cosmetics: http://safecosmetics.org/

Skrifað af Rögnu Ingólfsdóttur

Related posts

Bleik október hugleiðing

Forvarnir okkar eru að falla – Fljótum sofandi að feigðarósi

Villtir matsveppir á Íslandi – Sveppamó