Náttúrulækningar eru heilsuræktunarstefna

Það varðar miklu máli hvert stefnt er með starfi, og þá ekki sízt þar sem um líf og heilsu er að gera. Er stefnt til mannbóta, í bráð og lengd eða til stundarlinunar á þrautum án þess að tekið sé fyrir rætur meinsemdarinnar? Vissulega skiptir miklu máli hver þessara leiða er valin í starfi og framkvæmd. Þessi er munurinn á læknisaðgerðum náttúrulækningastefnunnar og algengum lækningastörfum.

Náttúrulækningastefnan reynir að þræða þá leið, sem tekur fyrir rætur sjúkdómanna, svo að líf og heilsa verði sjúkdómunum yfirsterkari. Mannlífið er átök milli tveggja andstæðra afla, þar sem annars staðar er heilbrigðin, hins vegar sjúkdómarnir. Það verður alltaf drýgst að taka fyrir rætur sjúkdómanna, áður en þeir verða lífsorkunni yfirsterkari. Náttúrulækningastefnan er samvinna við höfund lífsins og stefnir að því að lyfta mannlífinu á hærra stig. Réttar og hollar lífsvenjur eru tryggari vernd fullkominnar heilbrigði en nokkur lyf, þess vegna verða þær öruggasta leiðin hvort heldur til varnar eða sóknar í heilsuverndarstarfi.

Frá því hefur verið sagt að Kínverjar greiði læknishjálp meðan þeir eru heilbrigðir en hætti því, þegar sjúkdómar sæki þá heim. Væri þessi aðferð notuð á Íslandi mundu læknistekjurnar verða rýrar.

Frumstæðir menn hafa ekki hlotið eintóm gæði af sambúðinni við hvíta menn, heldur einnig alls konar óholla siði, t.d. tóbaks og alkohól neyzlu og ýmsa næma sjúkdóma svo sem berkla, taugaveiki, kynsjúkdóma og krabbamein. En hin vestræna siðmenning hefur fært þeim mönnum ýmsar óhollar matarvenjur, kennt þeim að taka hýðið af hrísgrjónunum og þar með komið til leiðar sjúkdómum, sem áður voru óþekktir, svo sem beri-beri og fleiri hrörnunarsjúkdómum.

Sjálfar eru hvítu þjóðirnar allra þjóða kvillasamastar og það sem ískyggilegast er, er að þessir kvillar eru í hröðum vexti. Strax og börnin fæðast er þeim gefinn uppleystur sykur í vatni. Hvíti sykurinn er dauð og ónáttúrleg fæða og veldur undantekningarlaust sjúkdómum. Það er auðvelt að þekkja þau börn úr, sem gefið er mikið af sætindum. Hinn hvíti sykur er óhollasta vara sem hægt er að gefa börnum, vegna þess að hann veldur slímhúðabólgu hvar sem er í líkamanum.

Í undanförnum styrjöldum hafa farið fram nákvæmar rannsóknir á líkum ungra manna, sem féllu í stríðinu, og kom þá í ljós að 40-50% þeirra gengu með sjúkdóma, jafnvel þó að þeir hefðu verið dæmdir kvillalausir nokkrum vikum áður en þeir féllu. Þykir víst, að ef þessir menn hefðu lifað, hefði sjúkdómurinn komið fram eftir 15-20 ár. Því er svo farið með ýmsa hrörnunarkvilla, að sjúkdómseinkennin koma ekki í ljós fyrr en löngu eftir að menn hafa tekið sjúkdóminn. Þetta er kallað meðgöngutími sjúkdómanna. Sjúkdómseinkenni koma ekki í ljós fyrr en löngu eftir að sýkingin hefur átt sér stað, en orsakir hennar eru undantekningarlítið ónáttúruleg og dauð fæða.

Nú er svo komið að því nær öll fæða, sem mönnum er gefin, er ekki aðeins óholl, heldur fæða sem beinlínis framkallar sjúkdóma. Nú er svo komið hér á Íslandi að mikill hluti aðfluttrar fæðu er svipt mestöllum lífefnum. Þannig er það með hið hvíta hveiti, hvíta sykurinn og allar sætinda vörur, hrísgrjónin eru svipt hýði sínu og völsuð hafragrjónin eru svipt sínum beztu efnum. Þau eru eldhituð til þess að drepa kímið og ná í burtu fitunni sem er fyrsta næring kímsins þegar það spírar, þannig er þessi fæðutegund svipt öllum sínum beztu kostum og lítils virði sem fæðutegund. Sætindaframleiðslan hefur tekið geysilegum vexti, þessi sætindi eru steindauð og stórlega heilsuspillandi, sjúkdómarnir koma að vísu ekki strax í ljós, en þeir koma fram síðar, svo sem sykursýki, meltingartruflanir, magasár, tregar hægðir. Og þeir menn, sem neyta mikið sætinda á æskuárunum eiga eftir að taka út syndagjöldin þó síðar verði, það er ómögulegt að sleppa undan því.

Það er á allra vitorði, að tannveikin hefur stóraukist á síðari áratugum. En um leið og tennurnar verða fyrir skemmdum verða samtímis skemmdir í öllum líkamanum, ekkert líffæri sleppur við afleiðingar svo óhollrar fæðu. Áhrifin koma fram í bilun líffæranna ekki sízt innkirtlum svo sem insúlínsellunum, og jafnvel þeim frumum sem ráða samræmi taugakerfisins og samræmi í öllu starfi líkamans.

Sjúkdómar eru engin tilviljun heldur eðlileg afleiðing hinnar ónáttúrlegu fæðu. Það er vissulega óheillavænleg og sorgleg staðreynd að stjórnarvöldin eru ekki svo vel menntuð, að þau geri sér skiljanlegt hvílíkt tjón það er að flytja til landsins svo mikið af hvítu hveiti, sætindum, en vanrækja með öllu að flytja inn valdar fæðutegundir svo sem rúg og hveiti ómalað. Þegar kornið er malað erlendis og liggur svo mánuðum skiptir í birgðaskemmum, þá er þetta dauð fæða, þegar hún kemur á borð neytenda og dauð fæða er efni í sjúkdómsframleiðslu. Það lýsir sannarlega ekki miklum skilningi á manneldi og þýðingu þess að menn neyti lifandi fæðu, en það er undirstaða allrar heilbrigði. Það eru engar öfgar þó sagt sé að hrörnunar kvillar eru kappræktaðir með óhollum fæðutegundum. Það er ekki illur vilji sem þessu veldur heldur vanþekking. Rétt þekking er til allra hluta fyrsta skilyrðið. Líkaminn er eins og viðskiptavinur sem maður skiptir við. Engin viðskipti svara betri arði en ræktun fullkominnar heilbrigði, engin menntun getur jafnast á við að rækta fullkomna heilbrigði.

Ég get sagt af því litla sögu sem átti sér stað er ég var 9-10 ára gamall. Ég sat yfir fé með eldri bróður mínum, við hittum daglega dreng á næsta bæ, það var nýr drengur, sem kom lengra að. Hann hafði kirtlaveiki í hálsi og var sóðalega til fara og sennilega hefur hann verið talsvert veikur, því vilsa rann úr sárunum. Húsmóðir hans vildi láta hann fara heim aftur, en drengurinn bað grátandi um að lofa sér að vera. Húsmóðirin gekk inn á þetta með því móti, að hann drykki pott af sauðamjólk, sem væri í sérstakri skál, sem hann einn drykki úr. Hann átti að drekka einn pott á hverju máli af glóðvolgri sauðamjólk. Drengurinn sveikst ekki um þetta og gerði þessu góð skil. Árangurinn varð sá, að sárin hraðgréru og voru gróin að öllu eftir einn mánuð. Strákurinn sem var 16 ára gamall stækkaði á alla kanta yfir sumarið og var eins og annar maður eftir. Þetta er sýnishorn þess hve miklu lifandi fæða getur fengið áorkað.

Sjúkdómar eru engin tilviljun, þeir stafa undantekningarlaust af rangri fæðu. Þess vegna er óhætt að segja um sjúkdómana að þeir eru óþarfir. Þeir stafa af orsökum sem unnt er að koma í veg fyrir og orsakirnar eru dauð fæða, ónáttúrleg og svipt sínum beztu lífkostum.

Þessi grein birtist í 2. tbl. Heilsuverndar 1958.

Related posts

Forvarnir okkar eru að falla – Fljótum sofandi að feigðarósi

Sterkur matur getur aukið lífslíkur

Grasaferð hjá Heilsustofnun