Úr sögu jurtaneyzlunnar


Grein þessari var ætlað að birtast í 1. hefti Heilsuverndar 1969, á undan greininni um jurtaneyzlu í síðasta hefti, þar sem vitnað er í hana. Eru lesendur beðnir velvirðingar á þessum mistökum.

Í amerísku tímariti um manneldismál, “Journal of the American Dietetic Association”, birtust árin 1963 og 1964 ritgerðir eftir lækni að nafni Mervin G. Hardinge um jurtaneyzlu, og eru þær aðalheimild fyrir því, sem hér fer á eftir.

Mataræði frummannsins
Lítill vafi er á því, að áður en maðurinn tók að smíða sér vopn og fann upp eldinn, hefir hann ekki lagt sér kjöt til munns að neinu ráði og verið jurtaæta, líkt og frændur okkar aparnir. Sumir apar borða að vísu smádýr og jafnvel fugla endrum og eins, auk eggja. En líkami mannsins er ekki búinn neinum veiðitækjum, fremur en apanna, og áreiðanlega hefir hann ekki lagzt á leifar frá máltíðum rándýra, eins og hrædýrin gera.

Ef draga skal ályktanir af því, sem í Biblíunni stendur skrifað, þá er manninum ætlað að lifa á aldinum, korni og jurtum. Og jafnvel eftir að menn lærðu að veiða dýr og matbúa við eld, lifði meiri hluti mannkynsins um langan aldur án kjöts og fisks, og svo er jafnvel enn í dag um milljónir manna meðal sumra þjóða. Þannig hafa flestar þjóðir Suður- og Austur-Asíu lifað mestmegnis á jurtafæðu, sumpart af trúarbragðaástæðum, en einnig vegna þess að kjöt og fiskur hefir verið af skornum skammti og dýr matvæli. Gildir það enn í dag. Talið er, að Japanir úr meðalstétt borði sem svarar hálfpundi af kjöti á mánuði.

Menningarþjóðir fornaldar og miðalda
Egyptar voru frá fornu fari jurtaneytendur, eins og ráða má m.a. af rannsóknum á magainnihaldi smurlinga (múmía). Þeir voru miklar brauðætur, en sumar stéttir hafa þó neytt kjöts. Forn-Persar voru alætur.

Talið er, að meðal margra þjóða hafi skipzt á tímabil sparneytni og sællífis í mataræði. Tímunum saman var lifað aðallega á gróðri jarðar, einföldu og heilnæmu fæði. Fólkinu vegnaði vel, því fjölgaði, og velsæld jókst. En í kjölfar hennar vildi fara sællífi og munaður og allskonar spilling. Pythagoras, Plútark og fleiri spekingar vöruðu við afleiðingum hóglífisins, en raddir þeirra fengu ekki hljómgrunn.

Gríski spekingurinn Pythagoras er almennt talinn frumkvöðull jurtaneyzlustefnunnar, en hann var uppi á 6. öld fyrir Krist. Þá þegar byggist áróðurinn gegn kjöt- og fiskneyzlu í senn á heilbrigðislegum, siðfræðilegum og hagfræðilegum grundvelli. Sókrates, sem var uppi nokkru síðar, er einnig talinn hafa verið jurtaneytandi. Meðal fylgjenda þessarar stefnu voru Plató og margir lærisveinar hans, og rómversku skáldin Horatius, Ovid og Virgil. Meðal andstæðinga stefnunnar má svo nefna gríska heimspekinginn Aristóteles.

Þegar fyrir Krists burð héldu sumir því fram, að menn ættu ekki að drepa dýr sér til matar, og sumir kirkjuhöfðingjar frumkristninnar réðust eindregið gegn kjötáti. Einn þeirra sagði: “Hættum að borða kjöt. Er ekki nóg til af fjölbreyttri jurtafæðu, svo sem ávextir, kornmatur og grænmeti, auk mjólkurinnar?”

Um nokkurra alda skeið átti jurtaneyzlustefnan litlu fylgi að fagna, enda þótt kjötneyzla meðal almennings væri aldrei mikil, vegna þess að fátækari stéttir gátu ekki veitt sér þann munað. Í sumum munkareglum var kjötneyzla bönnuð, a.m.k. kjöt af ferfættum dýrum og fuglum. Sjúklingum mátti þó gefa kjöt, því að litið var á það sem “styrkjandi” fæðu. Enn í dag eru munkar af Trappistareglunni jurtaneytendur.

Þegar kemur fram á 15. og 16. öld, er jurtaneyzlustefnan vakin upp á ný af ýmsum málsmetandi mönnum. Meðal þeirra, sem taka málstað hennar, má nefna franska heimspekinginn Montaigne, ensku rithöfundana Milton og Pope, franska rithöfundinn Voltaire og sænska grasafræðinginn Linné, enda þótt sumir þessara manna væru ekki sjálfir strangir jurtaneytendur. Vestanhafs var Benjamín Franklin eindreginn fylgjandi stefnunnar.

Vesturlönd
Árið 1809 var jurtaneyzluhreyfingin skipulögð í Englandi af prestum innan lútersku kirkjunnar, sem tóku upp bindindi á áfenga drykki og kjöt. Sama ár birtist ritgerð eftir enskan lækni um áhrif jurtafæðis á krabbamein og sár í maga. Um og eftir miðja 19. öld voru stofnuð jurtaneyzlufélög í ýmsum löndum Evrópu, t.d. í Þýzkalandi árið 1867, en það var leyst upp af Nazistum árið 1934 og endurreist árið 1946.

Vestanhafs var hreyfingin skipulögð árið 1817 af 40 lúterskum prestum. Ýmsir kunnir menn gerðust fylgjendur hennar, þeirra á meðal einn af forsetum ameríska læknafélagsins. Einn forystumaður hreyfingarinnar var Sylvester Graham, sem grahamsbrauðið er kennt við. Eftir miðja 19. öld voru stofnuð heilsuhæli, þar sem eingöngu var notað mjólkur- og jurtafæði.

Enda þótt jurtaneyzlustefnan og náttúrulækningastefnan séu ekki eitt og hið sama, eiga þær margt sameiginlegt. Markmið þeirra er að fyrirbyggja sjúkdóma með réttum lifnaðarháttum, og lækna sjúkt fólk á sama hátt, og að svo miklu leyti sem því verður við komið án lyfja. Flestir náttúrulæknar aðhyllast mjólkur- og jurtafæði sem veigamikinn þátt í þessari viðleitni. John Harvey Kellogg var lengi kunnasti náttúrulæknir vestra, og stjórnaði hann einu stærsta heilsuhæli í Ameríku í Battle Creek, en það var stofnað árið 1866. Við hann eru kenndar hinar þekktu Kelloggsvörur, en bróðir hans átti að vísu sinn þátt í framleiðslu þeirra. Ennfremur risu upp fjölmörg matsöluhús, þar sem eingöngu voru á borðum matvæli úr jurtaríkinu auk mjólkurmatar.

Þess má geta, að árið 1899 settust rúmlega sjö þúsundir Rússa að í Kanada, tilheyrandi trúflokki, sem boðar, að mennirnir eigi að elska allar lifandi skepnur og megi því ekki deyða þær að nauðsynjalausu. Þeir lifðu því á hreinu mjólkur- og jurtafæði.

Árið 1943 var gerð Gallup-könnun, til þess að fá hugmynd um fjölda jurtaneytenda í Bandaríkjunum. Samkvæmt henni voru þeir taldir tvær og hálf til þrjár milljónir, eða um 1% þjóðarinnar, en það svarar til þess, að hér á landi væru um þrjár þúsundir jurtaneytenda.

Í Bandaríkjunum eru þrír aðalflokkar jurtaneytenda:

1. Innan munkareglu Trappista lifa margir mjög einföldu og hófsamlegu lífi í hvívetna, nærast mestmegnis á jarðarafurðum, sem þeir rækta sjálfir, borða m.a. brauð úr ósigtuðu heilhveiti, auk grænmetis og aldina, og venjulega nota þeir einnig mjólk.

2. Aðventistar afneita yfirleitt áfengi og tóbaki, og margir þeirra neyta ekki kjöts.

3. Innan þriðja flokksins eru taldir þeir, sem gerast jurtaneytendur af mismunandi ástæðum, ýmist heilbrigðislegum, siðferðilegum eða trúarlegum.

Reynsla stríðsáranna
Á styrjaldartímum verða oft miklar breytingar á mataræði heilla þjóða. Síðasta ár fyrri heimsstyrjaldar 1917-18 urðu Danir þannig að draga mjög úr kjötneyzlu, sykurneyzlu og áfengisneyzlu af ástæðum, sem verða ekki raktar hér (sjá Heilsuvernd 1. hefti 1951).Í stað þess jókst að sama skapi neyzla grænmetis, grófra brauða og kartaflna. Þetta ár dró stórlega úr manndauða í landinu, en hann hækkaði aftur í fyrra horf, þegar mataræðið breyttist á ný að stríðinu loknu.

Svipuð var reynsla Norðmanna í síðari heimsstyrjöldinni 1940-1945. Þá dró einnig úr kjötneyzlu, og vafalaust einnig úr neyzlu sætinda og hvítabrauðs. Samtímis fækkaði dauðsföllum úr hjarta- og æðasjúkdómum, og svo fjölgaði þeim aftur að stríðinu loknu.

Árin á milli þessara tveggja styrjalda var blómatími fyrir jurtaneyzlustefnuna og náttúrulækningastefnuna. Lærðir og merkir læknar aðhylltust þessar kenningar fleiri en áður og gerðust brautryðjendur þeirra, þannig að úr því var ekki lengur hægt að kveða þær niður sem kukl eða skottulækningar.

Munurinn á jurtaneyzlustefnu og náttúrulækningastefnu
Eins og að framan er getið, eiga þessar tvær stefnur sér margt sameiginlegt, einkum nú í seinni tíð. Að vísu má segja um jurtaneyzlu mannkynsins frá öndverðu, að þar er ekki um neitt sérstakt stefnumál að ræða, heldur blátt áfram það mataræði, sem manninum er að margra dómi ætlað frá náttúrunnar hendi. Sá andróður gegn kjöt- og fiskneyzlu, sem fram hefir komið á síðari öldum eða árþúsundum og drepið er á hér á undan, á rætur sínar að rekja ýmist til trúarbragða þjóðanna, til siðferðishugmynda einstaklinga eða hópa manna, og oft liggja til grundvallar heilsufræðileg sjónarmið. Einmitt þar liggja saman leiðir þessara tveggja stefna. Ennfremur aðhyllast a.m.k. margir forystumenn náttúrulækningastefnunnar einnig þær kenningar, að maðurinn hafi ekki siðferðilega séð rétt til að svipta dýrin lífi í þeim tilgangi að leggja þau sér til munns eða yfirleitt að nauðsynjalausu.

Munurinn á þessum stefnum er aðallega sá, að jurtaneyzlustefnan hefir til skamms tíma ekki gefið sem skyldi gaum margvíslegum ágöllum á mataræði og öðrum lífsháttum þjóðanna, svo sem spillingu matvæla með framleiðslu á sykri og hvítu hveiti, neyzlu skaðlegs krydds og nautnalyfja, eyðileggingu næringarefna með óþarfa suðu og óheppilegum geymslu- og matreiðsluaðferðum, svo að ekki sé minnzt á ýmiskonar óhollustu og spillingu í daglegum lífsvenjum. Enda hafa athuganir sýnt, að heilsufar jurtaneytenda meðal vestrænna menningarþjóða hefir ekki reynzt hótinu betra en alls almennings. Með neyzlu einhæfra og skaðlegra matvæla eða nautnalyfja og með óskynsamlegu líferni hafa margir þeirra eyðilagt heilsu sína.

Náttúrulækningastefnan er alhliða mannbóta- og heilsuverndarstefna, sem lítur á kjöt- og fiskneyzlu sem aðeins eitt atriði af fjölmörgum öðrum, sem stuðlar að spillingu heilsunnar. Og á síðari árum hafa forystumenn jurtaneyzlustefnunnar hallazt æ meir að sjónarmiðum hennar. 

Björn L. Jónsson 
Heilsuvernd 4. tbl. 1969, bls. 107-111

Related posts

Villtir matsveppir á Íslandi – Sveppamó

Sterkur matur getur aukið lífslíkur

Einföld ráð að hollari næringu og bættri heilsu